Flokkur: Atvinnumál

16.04.2023 10:54

Kartöfluævintýrið á Eyrarbakka

Kartöflugarðar voru hvarvetna þar sem hægt var að koma þeim fyrir. Í húsagörðum, meðfram sjógarðinum víðast hvar og á söndunum fyrir vestan þorpið. Margir stunduðu kartöflurækt, en í mismiklum mæli. Það voru kanski 8 kartöflubændur sem svo mætti kalla og seldu afurð sína á markað á 7 og 8 áratugnum. Helmingur þeirra vélvæddur upptökuvélum og nutu aðkeypts vinnuafls yfir uppskerutíman. Það voru einkum skólakrakkar og ungmenni sem störfuðu fyrir bændurna. Sumir þeirra voru jafnframt með rófugarða og einhverjir með gulrótagarð. Kartöflurækt í stórum stíl er nú liðin tíð á Eyrarbakka og aðeins fáeinir með einhverja ræktun til egin þarfa.

Kartöflurækt hafði verið stunduð á Eyrarbakka í tíð dönsku verslunarstjóranna, en það var einkum frumkvöðullinn Brgsteinn Sveinsson sem hvatti til þess að gera kartöflurækt að atvinnugrein a Bakkanum snemma á fjórða áratug síðustu aldar. 

24.05.2021 22:32

Sú var tíðin 1986

 

Árið 1986 var flest í kalda koli á Bakkanum, laun almennings undir landsmeðaltali og atvinnumöguleikar afskaplega takmarkaðir og aðalega bundin við fislvinnslu og fangagæslu.  Hraðfrystistöð Eyrarbakka var legið út til Suðurvers í Þorlákshöfn sem skapaði verkafólki nokkra vinnu í bili. Hraðfrystihúsið var faktískt gjaldþrota og skuldaði hreppsjóði háar fjárhæðir svo hreppsnefnd sá sér ekki annað fært en að reyna að selja það eða leigja. Húsnæðisekla, verðbólga og dýrtíð var líka viðvarandi vandamál þessi árin svo margt ungt fólk sá ekki annað í stöðunni en að hypja sig í burtu. Vonir stóðu til að hægt yrði að bæta stöðu ungs fólks með byggingu verkamannabústaða.

Þetta ár var kosningaár og sat I listinn við völd, en aðrir í framboði voru E listi og sjálfstæðisflokkurinn.
Milli þessara framboða var einhugur um hvert skildi stefna. Atvinnumálin voru í brennidepli, Allir voru sammála um að reyna að leigja frystihúsið áfram og vonast eftir að fá skip og kvóta. Félagslega aðstöðu skorti líka. Leikvelli vantaði, raflínur voru enn í loftinu, malbik vantaði á götur víða og gangstéttar í lamasessi þar sem einhverjar voru. Holræsin voru lek, kalda vatnið lélegt og húshitun rándýr og höfnin að fyllast af sandi og verða ónýt.

Það var sameiginlegt verkefni hreppsnefndarmanna að heyja enn eina varnarbaráttuna fyrir þorpið með smáum og stórum sigrum hér og hvar næstu árin. En þrátt fyrir allt hallaði stöðugt undan fæti þar til svo var komið að hreppsnefndin gafst upp og lagði sig niður árið 1998 með sameiningunni við Selfoss.

02.04.2021 23:28

Árborg fortídar-1850 til nútídar.

Þad má med sanni segja ad um midja 19 öld hafi Eyrarbakki verid nafli alheimsins í hugum íslendinga og ekki síst Sunnlendinga, því þangad komu menn vída ad til útrædis og verslunar eins og þekkt er. Öldum saman var Eyrarbakki nátengdur erlendri verslun og skipaferdum og íbúum stadarinns fór stödugt fjölgandi þó ekki sé saman ad líkja vid Árborg nútímanns hvad fólksfjölgunina snertir ad ödru leiti en því ad huga þurfti ad menntun barnanna. Í landinu var enginn eginlegur skóli fyrir börn sem svo mætti kalla, en nú stód hugur nokkura flóamanna til ad setja slíka stofnun á fót enda var þörfin brýn. Oft var samtakaleysi sunnlendinga þrándur í götu enda og fátækt og örbyrgd landlæg í þessum landshluta, ekki síst einmitt vegna þess. Þad var því álitid ad yrdi mikid verk forgöngumanna ad sannfæra alþjód um ágæti slíkrar skólastofnunar, en raunin vard önnur því flestir tóku þessum hugmyndum fagnandi.

Í nánd vid kaupstadinn voru um 50 býli og börn á aldrinum 7-14 ára á milli 30 og 40 talsins. Í Stokkseyrarhverfi voru 30 býli og 20 börn á þessum aldri og ríflega annad eins á Bakkanum.

Forgöngumenn fyrir stofnun hjálparsjóds fyrir barnaskólann voru þeir Gudmundur Thorgrímsen verslunarfulltrúi á Eyrarbakka, Páll Ingimundarsson prestur í Gulverja og Stokkseyrarsókn og Þorleifur Kolbeinsson hreppstjóri á Litlu-Háeyri. Skólinn var sídan  formlega stofnadur árid 1852.

Á næstu 100 árum á eftir voru mörg framfaraskref stigin á svædinu sem mætti kalla Árborg fortídar sem saman stód af Eyrarbakka-Stokkseyrar-Sandvíkurhreppi og sídar Selfosshreppi. Aukin verslun, rjómabú, brúun ölfusár, mjólkurbú, sláturhús, vegaumbætur, áveita, fráveita, kaupfélög, sparisjódur, sjómannaskóli, hafnarbætur, vélbátaútgerd, fiskvinnsla,  fangelsi, sjúkrahús, gardræktun, uppgrædsla, skógrægt, rafmag, sími, pósthús, vatnsveita og upphaf hitaveitu og svo mætti lengi telja. Frá midri 20 öld hófst hægfara hnignun á svædinu vid ströndina þegar stórverslunin hvarf med öllu og nádi hnignunin  hámarki skömmu fyrir aldamótin 2000. Reynt var ad sporna vid þeirri þróun med aukinni útgerd og hafnarbótum, idnadaruppbyggingu og brúun Ölfussárósa og kaup á skuttogara. Þessar tilraunir fjörudu út á nokkrum árum, sem og  leiddi sídar af sér sameingu þessara 4 hreppa í þad sem nefnt er Árborg. Nú undanfarn  20 ár hefur verid allnokkur stígandi í þróun svædisins og mikil fólksfjölgun og uppbygging einkum á Selfossvædinu. 

Í sandvíkurhreppi hefur byggst upp íbúakjarni, svokalladar búgardabyggdir og þar er uppbygging enn í fullum gangi. Íbúdahverfi hafa byggst upp í bádum þorpunum vid ströndina, Hulduhólshverfid og Hjalladælin á Eyrarbakka og Ólafsvallahverfid á Stokkseyri. 

Dálitlu af opinberu fé hefur verid varid til þorpanna frá sameiningunni fyrir 20 árum. Byggt var vid báda leikskólanna, Brimver og Æskukot og nýtt skólahús byggt á Stokkseyri og til vidhhalds obinberra bygginga. Vatnsveita var tengd vatnsveitu Selfoss. Gangstéttir endurnýjadar af stórum hluta í bádum þorpum og lítilega endurnýjad af malbiki. Byggdur var svokalladur Fjörustígur sem tengir þorpin tvö saman fyrir gangandi og hjólandi. Fuglafridland var stofnad á Óseyrarmýrum. Tjaldsvædum komid upp á bádum stödum. Leiksvædum fyrir börn. Byggdasafn Árnessýslu fékk heimilisfesti í Húsinu og þad vaxid og dafnad. Hjúkrunarheimili fyrir aldrada stækkad.

Naudsynlegt er ad hlúa áfram ad þessum samfélögum sem hafa ad geyma mikla sögu menningar, verslunar og atvinnuhátta fyrri tíma. Þessari arfleid þarf ad vera hægt ad gera gód skil í tíma og rúmi og er Byggdasafnid besti vettvangur til þess eins og þegar stór vísir er ad med vardveislu Hússins, áraskipsins Farsæl, Beituskúrinn og Eggjaskúrinn, Rjómabúid, þurídarbúd og Kirkjubæjarinns og svo nú nýverid med mun bættri sýningaradstödu í Alpanhúsinu og kaup þjódminjasafnsins á húsinu Eyri.

19.08.2019 22:35

Saga áraskipana

Mynd frá: https://nafar.blog.is/blog/nafar/Saga áraskipana nær allt frá landnámi og fram á fyrsta áratug 20. aldar.  Þessir bátar nefndust eftir stærð, Tveggja manna far, Sexæringur og Teinæringur. Íveruhús sjómanna nefndust "Sjóbúðir" eða "Verbúðir" og í "beituskúrunum" hömuðust "beitustrákarnir" við að skera beitusíldina og stokka upp bjóðin. "Lending" var í "vör" og í lok vertíðar voru skipin sett upp í "naust", og fiskurinn hengdur upp á "hjalla". Þetta orðfæri er nú liðin tíð. Áraskipin höfðu nokkuð mismunandi lag eftir landshlutum, en hér Sunnanlands er þekkt svokallað "Steinslag" eftir Steini Guðmundssyni skipasmið í Steinsbæ. Þar er stefnið skásett ca 45 gráður sem gerir skipið hæfara til að skera sig í gegnum brimölduna. Eitt slíkt skip hefur varðveist á Eyrarbakka, en það er áraskipið Farsæll, tólfróinn teinæringur.

Á 19. öld óx mjög útgerð áraskipa á Eyrarbakka og skiptu þau tugum, en það voru einkum sexæringar sem dugðu best hér við ströndina. Árið 1884 var ábyrgðasjóður opinna áraskipa stofnaður á Eyrarbakka og  sjómannasjóður árið 1888 og sjómannaskóli Árnessýslu um 1890. Stuðlaði það mjög að aukinni útgerð þrátt fyrir einhverjar erfiðustu aðstæður á landinu til sjósóknar fyrir skerjum og brimi. Sumir formenn kusu að gera út frá Þorlákshöfn þar sem tryggari lending var fyrir skipin, en alla jafna var Þorlákshöfn þrautarlending ef sund lokuðust á Eyrarbakka og Stokkseyri. Formennirnir urðu stundum að kljást við ægi í sínum versta ham, þegar brast á bræla og brim nær fyrirvaralaust og sumir urðu að lúta í lægra haldi í þeim bardaga. Þessir sægarpar voru miklar hetjur og gjarnan kveðnar um þá >vísur og >sögur sagðar. Síðasti formaður á opnu áraskipi á Eyrarbakka var Guðmundur Ísleifsson á Háeyri. Hann var farsæll formaður og fyrir marga bjargvættur á ögurstund. >Hér er um hann kveðið.


Myndin hér að ofan er frá: Sigmar Þór Sveinbjörnsson blog.is

13.08.2019 21:37

Tilraunir með þorskanet árið 1800

Niels Lambertsen verslunarstjóri á Eyrarbakka gerði tilraunir með þorskanet um aldamótin 1800 en árið 1770  var gefin út konungleg fyrirskipun, um veiðar með þorskanet hér við land. Þessar tilraunir leiddu ekki til neinnar byltingar í fiskveiðum Íslaendinga á þeim tíma og lögðust fljótt af. Það var ekki fyrr en öld síðar að þessar tilraunaveiðar hófust á nýjan leik, en árið 1909, er eftirfarandi frásögn úr 4 árg. tímaritsins Ægis:
 2. árg. »Ægis« bls. 65 skýrði eg siðast frá tilraunum, sem gerðar höfðu verið nýlega á Austfjörðum til þess að veiða þorsk i net. Síðan hafa verið gerðar nýjar tilraunir á nokkrum stöðum og skal eg skýra stuttlega frá þeim hér. Fyrstar i röðinni og afieiðingamestar eru tilraunirnar i Þorlákshöfn. Byrjunin að þeim er þessi: Vetrarvertíðin 1906 hafði verið mjög rýr, eins og fleiri vertíðir næst á undan. En í Þorlákshöfn hefir aðeins verið brúkuð lóð, eins og í öðrum veiðistöðum í Árnessýslu og mikill meiri hluti aflans ýsa. Einn af formönnunum í Höfninni var Gísli Gíslason, frá Rauðabergi í Fljótshverfi, þá nýlega fluttur að Óseyrarnesi. Hann fór heim til sín um páskana og datt þá í hug að taka með sér 33 faðma langa laxa- fyrirdráttarnót með 3 1/2 riðli, er hann átti, þegar hann fór aftur út í verið, og reyna hvort ekki yrði fiskvart í hana, þar sem aflinn á lóðir hafði nærri algerlega brugðist lil þess tima. Hanni lagði nótina (þorskanet hafði hann aldrei séð), á 12 faðma dýpi og var þegar við fyrstu umvitjun vel var i hana af þorski og stútungi og á einni viku, sem hún lá, fékk hann 360 fiska, þar af 1/4 undir málfiskur, margt af hinum vænn þorskur (allur fisknrinn mjög feitur) og svo 20 stórufsa."
Þetta vakti mikla athygli en  félagskapur formanna í Þorlákshöfn ákvað að banna þessar tilraunir vegna hættu á ofveiði og raski veiðistöðva. - "Vertíðin 1907 varð enn lélegri en 1906. Þá var það nær vertiðarlokum að einum formanni varð að orði við Gísla, er þeim var rætt um afla leysið: »Ekki hefði vertíðin orðið aumari, þótt menn hefðu brúkað þorskanet«. Þvi var Gísli samdóma. Bundu þeir þá fastmælum með sér, að reyna þorskanet á næstu vertíð, þrátt fyrir bannið og fengu með sér 4 aðra formenn í félagið. Þegar þetta fréttist, brá svo við, að hinir formennirnir, jafnvel þeir, er mest höfðu verið á móti netunum, ásettu sér einnig hið sama, bannið var þannig þegjandi numið úr gildi og allir útveguðu sér regluleg þorskanet fyrir næstu vertíð. 

12.10.2012 00:01

Prentsmiðja Suðurlands á Eyrarbakka

Það voru nokkrir Árnesingar sem keyptu prentsmiðju árið 1910 og stofnuðu í framhaldi þess, Prentfélag Árnesinga og blaðið "Suðurland", sem þeir gáfu út á Eyrarbakka, og kom fyrsta blaðið út 13.júní 1910 og taldi 4 síður. Ritstjórar voru Oddur Oddson í Regin og Karl H. Bjarnason, en gjaldkeri var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Kom blaðið út nokkur ár en síðar var keypt annað blað, "þjóðólfur" hinn gamli og gefinn út um tíma hér á Bakkanum. Hann hætti að koma út 1918 og var prentsmiðjan síðan flutt til Reykjavíkur. Prentsmiðjan á Bakkanum var til húsa í kjallara í Nýjabæ (Vestara húsi). Oft var ekki hægt að prenta ef gerði mikið frost, því hitunarbúnaður var ekki fyrir hendi í fyrstu, þá háði starfseminni stundum pappírsskortur á stríðsárunum fyrri. Heimilisblaðið var einnig prentað og gefið út á Eyrarbakka auk bóka, bæklinga og rita ýmiskonar. Prentarar voru þeir Jón Helgason og Karl H Bjarnason. Í stjórn Prentfélags Árnesinga voru: sr. Gísli Skúlason á Stórahrauni, Guðmundur Þorvarðarson hreppstjóri í Sandvík, og Oddur Oddson gullsmiður í Regin. Í ritnefnd voru Gísli Skúlason áður nefndur, Guðmundur Sigurðsson sýslunefndarmaður, Helgi Jónsson sölustjóri, Jón Jónsson búfræðingur og Oddur Oddson áður nefndur.

Heimild: Suðurland 1910, Þjóðþólfur 1917, Skeggi 1919

15.11.2011 21:57

Frá Eyrarbakka, út í Vog

Guðmundur Ísleifsson í sjóklæðumSumarið 1919 kom Bjarni Sæmundsson til fiskiransókna á Eyrarbakka og Stokkseyri.  Hér dvaldi hann  frá 9-23. júlí og notaði hann ferðina m.a. til að kynna sér mótorbátaútgerð sem þá var mjög að ryðja sér til rúms hér um slóðir en einig skipalegur þær er hér voru notaðar. þá var starfandi hér fiskifélagsdeildin "Framtíðin", en í stjórn hennar voru árið 1919: Guðmundur Ísleifsson, Sigurjón Jónsson og Einar Jónsson, en félagsmenn munu hafa verðið um 50. Heimamenn fræddu Bjarna um erlenda botnvörpunga sem stunduðu veiðar við landhelgismörkin (4 sj.m.) á árunum áður og fram til 1915, en oft voru 20 erlend skip á miðunum samtímis sem leiddi til aflasamdráttar hjá heimamönnum. Sérstakann áhuga hafði Bjarni á ýsu og lýsuafla á Eyrarbakkamiðum og varð hann margs vísari, en það var aðal fiskaflinn yfir sumarið og einkum veiddur til heimabrúks fram að slætti. Með tilkomu mótorbáta var unt að sækja á dýpri mið, svo sem "Gullkistuna" í Selvogsbanka ef vel viðraði að sumarlagi, en áður höfðu aðeins stærri skip sótt þangað í sumarveiði. - í ágúst 1893 fiskaði kúttarinn "Tojler" úr Reykjavík, skipstj. Sigurður Jónsson, á 60 faðma dýpi, 16 sjómílur SV. af Selvogstöngum þorsk og stútung (legufisk) og um 200 lúður. Í júnímán. 1897 reyndi kúttarinn "Kastor" úr Reykjavík, skipstj. Sölvi Víglundarson, á 56-78 faðma dýpi, 16-19 sjómílur SSV. af Selvogstöngum og fékk þar vænan göngufisk, með síld í maga, og mikið af heilagfiski. í ágúst 1898 fékk sama skip á annað þúsund af þorski á 60-70 faðma dýpi, 12-18 sjómílur SV. af Selvogstöngum. Það var legufiskur, með ýmiskonar fæðu í maga.- Sá sem fyrstur lagði á djúpið  á mótorbát  frá Eyrarbakka og varð þar af leiðandi brautryðjandi í þessu tilliti, var Árni Helgason í Akri, sem þá var einn af ötulustu yngri formönnum á Eyrarbakka. Það var sumarið 1912. Næsta sumar bættust fleiri við, bæði frá Stokkseyri og Eyrarbakka og voru veiðar á þessu svæði  stundaðar ætíð síðan. Stundum fóru bátarnir út í Selvogssjó, Herdísarvíkursjó, og út fyrir Krísuvíkurberg, alt út i Grindavíkursjó (Hælsvík) og brúkuðu lóð eða færi.

Heimild: Andvari 1919 - Ægir 1919

15.01.2011 01:00

Bakkinn fyrir 60 árum

Árið 1950 hafði fullur helmingur heimila á Eyrarbakka kýr, eina eða fleiri. Víða hænur, hestar eða kindur og hvert heimili hafði einhverjar landnytjar, eða í það minnsta kálgarð. Þá voru fjórir vélbátar, 12-18 lestir að stærð gerðir út, og hraðfrystihúsið sem þótti allstórt var í fullum rekstri yfir vertíðirnar, en það tók einnig til geymslu kjöt af fé því, sem þar var slátrað á haustin, ásamt verkuðu kjötmeti heimamanna, t.d. slátri.

Trésmíðaverkstæði og bifreiðaverkstæði var þá einnig starfandi á Bakkanum og a.m.k þrjár verslanir, bakarí og pósthús og fangelsið sem er enn á sínum stað. Um 40-50 ha. lands var nýtt undir kartöflur og gulrætur hjá Eyrbekkingum, þar af 10 ha í svokallaðri "Sandgræðslu" og keyptu kartöflubændur í félagi stórvirkar vélar til nota við kartöfluræktina. Þá var íbúafjöldi um 600, eða nokkuð sá sami og nú 60 árum síðar, en atvinnutækifærin á Bakkanum eru hinsvegar miklu mun færri í dag en þá, sem er í sjálfu sér afar dapurlegt eftir allan þennan tíma í þróun atvinnumála í landinu.

Heimild: m.a. Tíminn 185.tbl 1950

02.12.2010 00:13

Hvatning til verkalýðsins

Nú eru kjarasamningar alþýðunnar útrunnir og ekki veitir af að brýna þá sem við samningaborðið sitja fyrir hönd verkalýðsins að berjast nú með oddi og egg fyrir hina lægst launuðu, þannig að hverjum og einum verkamanni og verkakonu verði tryggð mannsæmandi lífskjör í þessu volaða landi.


"Þegar mótbyr mæðir þyngst

mörgum þykir nóg að verjast.

En eins og þegar þú varst yngst

þannig skaltu áfram berjast".


Þessi vísa var samin til Bárunnar á Eyrarbakka 1941. Höfundur ókunnur.

28.10.2010 22:31

Síberíuvinnan

"Síbería"Síberia var hún kölluð, en átti þó ekkert skylt við Rússland. Mýrlendi ofan við Eyrarbakka var kölluð þessu nafni og þar sóttist margur verkamaðurinn eftir vinnu við að grafa skurði og framræsta mýrina í fyrri kreppunni, en vinna þar hófst fyrst 1935. Það voru þúsundir atvinnulausra sem mældu  götur höfuðborgarinnar og ástandið í sunnlennskum þorpum var lítt skárra. Þetta var fólk úr ýmsum áttum, með alskonar skoðanir og margskonar áhugamál. Allir áttu það þó sameiginlegt að vera kúgaðir og sviptir réttinum til mannsæmandi lífs og tryggðar framtíðar. Það voru því mikil gleðitíðindi fyrir hvern þann sem var svo heppinn að fá vinnu í "Síberíu" þó vinnubúðirnar þar væru lítt frábrugðnar fangabúðum  einhversstaðar í Síberíu Rússlands þess tíma eða jafnvel verri og vetrarkuldinn mikill og líklega nafnið þannig til komið. Í byrtingu hvers morguns þrömmuðu um 60 karlar út í frostið sem oft var um 10 stig á þessum vetrum, íklæddir stígvélum með vetrarhúfu bretta niður fyrir eyru og gekk hver flokkur að sínum skurði og var svo unnið framm í myrkur en þá dunduðu menn við tafl og spil fram að háttatíma. Nokkrar bækur voru til úr bókasafni vegavinnumanna og voru þær lesnar spjaldanna á milli. Síberíuvinnan var atvinnubótavinna á vegum ríkisinns og  var 12 daga úthald. Í mýrinni höfðu verið reistir nokkrir timburbraggar sem voru alveg óeinangraðir og í þeim ávalt mikill saggi. Syðsti bragginn var kallaður "Róttæki bragginn" af einum vinnuflokknum, því þar voru margir róttækir menn saman komnir og ræddu og funduðu gjarnan um þjóðfélags og verkalýðsmál og fundu menn þar mest að lýðræðisskortinum í vekalýðsfélögunum og þá einkum í "Dagsbrún" sem þá hét og var félag verkamanna í Reykjavík. Það fundu menn því til foráttu að þar hafði alræði fámenn klíka en allur þorri félagsmanna var að heita valdalaus.

Á næstu 70 árum á eftir ávannst þó margt í bættum kjörum verkafólks sem svo fáeinum "snillingum" tókst að eiðileggja á einni örskot stund. Á margan hátt standa atvinnulausir nú í sömu sporunum og mennirnir í mýrinni árið 1937, að vera sviptir réttindum til mannsæmandi lífs og standa nauðugir frammi fyrir ótryggri framtíð.

heimild: Þjóðviljinn jan.1937

24.10.2010 23:55

Rafljósið

Rafljósið. Minnisvarði á Eyrarbakka
Minnisvarðin um rafstöðina á Eyrarbakka var afjúpaður vorið 2004, en það var árið 1919 sem hreppsbúar ákváðu að kaupa rafstöð og byggja yfir hana rafstöðvarhús. Hófst framleiðsla rafmagns 1920 og gekk hún til ársins 1948 þegar tenging kom við Sogsvirkjun. Rafstöðin framleiddi þó aðeins 30.000 kw á ári sem mundi duga u.þ.b. 6 heimilum í dag en dugði þó vel á sínum tíma fyrir þorpið. Hugmyndir um að raflýsa Eyrarbakka má rekja aftur til ársinns 1905 í tengslum við hugmyndir um að virkja Varmá, en árið áður hafði fyrsta rafstöðin í almanna þágu verið gangsett í Hafnafirði, en upp frá því hófst rafvæðing landsinns hægt og bítandi. Nú ríflega öld síðar hefur skotið upp kollinum önnur hugmynd um rafmagnsframleiðslu í bæjarfélaginu okkar, sem nefnd hefur verið Selfossvirkjun og byggist á gamalli hugmynd um beislun Ölfusár, en útfærslan er þó ný af nálinni og í tengslum við brúargerð ofan við Selfoss. Áður en þessi hugmynd verður að veruleika þarf að leysa fjölmörg vandamál, t.d. umhverfis, tæknilegs og fjárhagsleg atriði.

Raforkan knýr áfram flesta atvinnuvegi landsmanna og flest orkuver hafa einhvern göfugan tilgang í þá átt að veita fólki atvinnu, þó umdeilt sé með hvaða hætti það skuli vera. Ég sakna þess að ekkert svo göfugt markmið hafi verið nefnt í atvinnulegu tilliti í okkar sveitarfélagi varðandi Selfossvirkjun þó hún yrði aldrei næginlega öflug til að bræða ál, ætti hún samt að hafa göfugri tilgang en þann einann að selja orkuna inn á landsnetið í hagnaðarskyni, því þá mun hún einungis verða minnisvarði komandi kynslóða um áhættusækni og gróðahyggjuna á okkar tímum.

21.10.2010 00:13

Fátæktin breiðist út á Íslandi

Í fyrra fengu tæplega 6.000 heimili fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum. Um sex hundruð fjölskyldur treysta á matargjafir frá Fjölskylduhjálp og um 4000 manns sækja aðstoðar til hjálparstofnunar kirkjunar í hverjum mánuði. Á bak við þessar tölur er einnig fjöldi íslenskra barna sem alast nú upp við krappari kjör en foreldrar þess gerðu. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 29% frá árinu 2008 og hefur því kaupmáttur launa rýrnað að sama skapi. Eignabruni og kaupmáttarskerðing íslenskra heimila er enn hamslaus. Um 13.000 manns eru skráðir atvinnulausir nú um stundir og er þá ótalið dulið atvinnuleysi, þ.e þeir sem eiga ekki lengur rétt á bótum samkvæmt reglum Atvinnuleysistryggingarsjóðs. Þá hafa þúsundir íslendinga leitað hælis erlendis, sem annars væru atvinnulausir. Árið 1997 sagði Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm og ennfremur "Fátækt á Íslandi er heimatilbúinn vandi. Fyrst og fremst vegna óréttlátrar tekjuskiptingar og rangra leikreglna í samfélaginu, sem hægt væri að breyta ef vilji væri til þess[.1] ". Nú er tíminn kominn, en hvar eru þá efndirnar? Það er ljóst að stjórnvöld eru stopp og jafnvel afturábak í velferðamálum og er það miður, þar sem velferðarmál hafa skipað stóran sess í orði hjá þeim stjórnmálaöflum sem sitja við völd. Það er mikilvægt að Verkalýðshreifingin sem og önnur áhrifasamtök í landinu verði ekki líka stopp og taki nú höndum saman um að útrýma fátækt þegar í stað. Það verður best gert með því að laun verkafólks verði hækkuð verulega, jafnvel það mikið að laun einnar fyrirvinnu dugi til að framfleyta meðalfjölskyldu. Það er nefnilega ekki nóg að tala um vandann, heldur þarf líka að ákveða lausn vandans, því þessi vandi felst ekki síst í of lágum launum verkafólks og ber verkalýðshreifingin þar sjálf mestu ábyrgð á. Í annan stað að ríki og sveitarfélög leggi til handbært fé og stofni til atvinnurekstrar í útfluttningsgreinum til styrkingar atvinnulífinu fremur en óarðbærar framkvæmdir eins og hingað til hefur tíðkast.

07.10.2010 14:25

Atlaga að landsbyggðinni

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisins verður 16% niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eða um 412 milj. króna og þar af 56.5 % á sjúkrasviði að því er fram kemur í fjölmiðlum dagsins. Samkvæmt heimildum þarf að segja upp 50 til 60 stöðugildum hjá stofnunni. Sömu sögu er að segja frá öðrum sjúkrastofnunum víða á landsbyggðinni. Frumvarpið er raunveruleg atlaga að landsbyggðarfólki og þar með Sunnlendingum. Þegar hafa tapast um 700 störf í héraðinu sem er illa leikið eftir bankahrunið og óstjórn fyrri ára. Það er því að bæta gráu ofan á svart ef núverandi ríkisstjórn ætlar að vega ennfrekar að héraðinu og ógna störfum fólks og þar með heimilum þess og þar með flæma menntað fólk og þekkingu þess úr landi. Ófaglærðir eiga litla möguleika á störfum erlendis og virðist eiga fáa kosti aðra en að sitja fast í fátæktargildrunni sem af þessari stefnu hlýst. Um leið er frumvarpið atlaga að heilsu landsbyggðarfólks, en eins og allir vita hættir fólk ekki að veikjast þó sjúkraþjónusta sé höfð sem lengst í burtu. Þó sjálfsagt sé af stjórnvöldum að ætlast til ráðdeildar, sparsemi og hagræðingar, þá virðast þessar tillögugr ekki til annars fallnar en að spara aurinn og kasta krónunni, þegar litið er á þær afleiðingar sem þessi niðurskurður mun hafa á landsbyggðina til langframa.

Sjá einig ályktun VG Árborg
SLFÍ
BSRB
Báran
SASS

Flettingar í dag: 415
Gestir í dag: 131
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260705
Samtals gestir: 33758
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:23:57