Flokkur: Stormar
08.02.2008 10:24
Ógnarlægð nálgast.
Lægðin mikla nálgast landið óðum með úrhellis rigningu og asahláku. Búist er við að loftþrýstingur hennar verði minstur 936 mb. seint í kvöld en það táknar að kraftur lægðarinnar er hvað mestur. Lægsti þrýstingur sem vitað er um hér á landi mældist í Vestmannaeyjum 2. desember 1929 um 920 mb.
Rétt er að vekja athygli á að nú fer saman lágur loftþrýstingur og há sjávarstaða ásamt töluverðri ölduhæð.
27.01.2008 23:23
Það gustar um Þorra.
Það blés hressilega í dag á Bakkanum sem og annarstaðar á suðvestur horninu frá því kl 9 í morgun. Hér fór vindur mest í SV 27m/s um hádegisbilið og yfir 30 m/s í hviðum og hélst stormurinn við í allan dag. Snjó tók töluvert upp enda komst hitinn í +7°C um tíma. Lítil úrkoma féll þegar leið á dag eftir töluverða snjókomu í nótt og úrhellis rigningu undir morgun. Sjór hefur verið úfinn og risháar öldur og brimskaflar útifyrir ströndinni. Göturnar í þorpinu voru svellhálar og hefði verið full þörf á að sandbera þær.
22.01.2008 23:18
Asahláka og stórbrim
Hvassviðri, rigning og asahláka var á Bakkanum í morgunsárið og stormur víða í grend. Á Hellisheiði og á Bakkanum náði vindur hámarki 24 m/s kl.8 í morgun og á Stórhöfða voru 38 m/s snemma í morgun. Í dag hefur svo rokið upp í storm öðru hvoru. Annars hefur vikan verið köld og hagalaust í sveitum vegna snjóa. Mikill sjór og brim er nú við ströndina.
01.01.2008 12:42
Árið kvaddi með hvassviðri.
Desember var stormasamur á landinu og úrkoma mikil. Verstu stormarnir gengu yfir þann10. des13. des og 14 des. en allra mesti vindhraði mældist á Bakkanum 34 m/s í hviðum í óveðrinu þann 30.des.
Úrkoma mánaðarins reiknast 240 mm sem er vel yfir meðallagi en þó ekki met að þessu sinni. Mánuðurinn var yfirleitt mildur en kuldakafla gerði um jól með snjókomu. Mesta frost mældist -11°C á Bakkanum þann 28.desember.
30.12.2007 11:52
Óveður á Suðurlandi
Vegagerðin segir að óveður sé á nánast öllu Suðurlandi og hálka, krapi eða hálkublettir eru á allflestum leiðum. Kl.11 var vindhraðinn á Eyrarbakka kominn í 26 m/s og 33-34 m/s í hviðum. Á Stórhöfða hafa hviður farið yfir 40 m/s. Talsverð rigning er með ströndinni en minna upp til sveita. Þá voru 23 m/s á Hellisheiði og 26 m/s á Sandskeiði en aðeins 15 m/s í Þrengslum. 20 m/s voru undir Ingólfsfjalli.
Veðurspáin hljóðar svo til kl. 18 á morgun: Suðaustan 20-23, en 23-28 m/s með ströndinni. Mikil rigning í dag og hiti 5 til 7 stig. Lægir heldur síðdegis. Sunnan og suðvestan 15-20 í kvöld, en dregur smám saman úr vindi í nótt og á morgun með éljagangi. Kólnandi í bili.
14.12.2007 22:42
Aðventustormur 2 kveður.
Í dag kl. 15:00 náði vindraðinn mestum styrk þegar hann fór í 25 m/s meðalvind og 27 m/s í hviðum á Bakkanum sem er ekki langt frá því sem var í fyrri aðventustorminum í gær.
Á línuritinu má sjá hvernig loftvogin á Bakkanum féll ört og nánast lóðrétt á miðnætti 13 des sl þegar fyrri lægðin barst að landinu og lægðarinnar í dag sem ekki var eins snörp og einnig fjær landi eins og lesa má úr línuritinu því lægðarmiðjan var með 941mb loftþrýsting.
Þessu veðri fylgir stórsjór og því mikið brim úti fyrir og stóröldur dansa á grynningunum. Vestan við Óseyrarbrú hefur verið mikið sandfok í kjölfar veðursins og hefur töluvert sest á veginn við brúarsporðinn.
13.12.2007 01:51
Kolbrjálað veður þessa stundina
Eyrarbakki Fim 13.12 kl. 03:00 |
Vindur | 20 m/s | Hviða 23 m/s / 33 m/s | 6°C | Rakastig 86 % |
Stórhöfði Fim 13.12 kl. 03:00 |
Vindur 34 m/s | Hviða 39 m/s / 49 m/s | 5°C | Rakastig 79 % |
12.12.2007 21:25
Bombulægð á leiðinni?
Veðurfræðingar eru nú að gera úr því skóna að lægðin sú sem er í þann mund að taka völdin hér og sú sem á eftir kemur séu af þeirri gerðini að nú sé betra að passa sig, því að lægðin sé hratt dýpkandi og geti farið niður í 940 mb. Lægðarmiðjan er þessa stundina skammt vestur af Reykjanesi og um það bil að læsa í okkur klónum svo betra er að vera nú viðbúnari en síðast og fergja nú laust byggingarefni og annað sem getur fokið út í buskan.
11.12.2007 10:58
Á eftir stormi lifir alda
Þessu veðri fylgdi talsverð úrkoma eða 13 mm á Bakkanum og 14 mm í Reykjavík. Við Surtsey var 6 m ölduhæð í morgun en þar var stórsjór í nótt.
10.12.2007 23:30
Versta veður skollið á!
Það hefur gengið á með stormi í kvöld og náði meðalvindhraðinn 20 m/s um tíu leitið og hviður fóru í 27m/s á Bakkanum og eftir það hefur. Öllu verra er veðrið þessa stundina á Faxaflóasvæðinu,en á Skrauthólum hafa vindhviður verið að fara upp í 44 m/s en það eru 12 gömul vindstig eða 158.4 km/klst, svo gott sem í fellibyl. Fréttir herma að þök fjúki í heilu lagi í Hafnafirði og Kópavogi svo ástandið þar er afar slæmt. En Stórhöfði í Vestmannaeyjum á líklega metið að venju, en þar eru nú 45 m/s í hviðum og þar í grend er ferjan Herjólfur að berjast við að ná landi.
01.12.2007 12:06
Nóvember leið út með stormi.
Úrkoma mánaðarins reiknast 188 mm.
02.11.2007 08:03
Njáll fer norður.
Stormurinn NOEL er nú orðinn 1.stigs fellibylur austur af Flóridaskaga og stefnir norður.
Mikil úrkoma fylgir fellibilnum og víða er hætta á sjávarflóðum með austurströnd N- Ameríku.
Mikil vatnsfóð af völdum úrhellis urðu á Bahamaeyjum í gær þegar Noel gekk þar yfir skömmu áður en hann náði fellibylsstyrk. Minnst 107 manns hafa orðið fellibylnum Noel að bráð á Karabíska hafinu og telst hann nú mannskæðasti fellibylur ársins.
22.10.2007 22:33
Rok
Það gekk á með stormi og úrhellis rigningu síðdegis og náðu sumar hviður 28 m/s um kl. 16 en þessi vindstyrkur var kallaður ROK í gamla daga. Úrkomumagnið sem helltist niður í dag mældist 21 mm á veðurathugunarstöðinni á Bakkanum og náði það ekki að fella dagsmetið frá 1983 sem var 23,3 mm.
Mesti vindur sem Veðurstofan mældi á láglendi kl.21 var 29 m/s á Skjaldþingsstöðum í Vopnafjarðarhreppi.
Annars finnst manni að búið sé að rigna mikið alveg frá því í lok ágúst eftir eitt þurrasta sumar í manna minnum og hlaut hann að hefna fyrir það.
Til gamans má geta þess að blautasti Oktobermánuður á Bakkanum var árið 1959 en þá mældist mánaðarúrkoman 321 mm. Blautasta árið á Bakkanum var hinsvegar árið 1953 en þá var ársúrkoman 1943,5 mm.
01.10.2007 22:10
Hvasst og blautt-úrkomumet!
Það var víða hvassviðri í morgun og úrhellis rigning, einkum á vestanverðu landinu og Faxaflóa svæðinu. Hvassast var á Bakkanum kl. 5 í morgun þegar vindhviður náðu 21 m/s og sópuðu laufunum af trjánum sem eru nú flest að verða berstrýpuð.
Sólahringsúrkoma dagsins var 42 mm sem er dagsmet fyrir úrkomu. Eldra dagsmetið var 33mm 1988
Þann 27 síðasta mánaðar var einig úrkomumet þegar mældist 31 mm á stöð 923 en eldra met var frá 1993 þann 27 sept 30,9 mm
27.09.2007 21:58
Brimið í dag
Brim í súld og sudda.
Það gekk á með hvössum rokum og rigningarsúld í dag og mældist úrkoma 31 mm á Bakkanum (31mm úrkoma/24klst mælist nýtt dagsmet á Bakkanum) en er þó ekkert miðað við 220 mm á Ölkelduhálsi í Henglinum eins og fram kemur á veðurbloggi Einars Sveinbjörnssonar
Í uppsveitum var rigningin drjúg, t.d. 38mm á Hjarðarlandi í Biskupstungum. Stormur var á Stórhöfða að venju en einnig sló í storm á Sámstöðum á Rángárvöllum.Á Bakkanum fóru hviður mest í 19 m/s en annars var strekkingsvindur fram eftir degi,en síðdegis tók að rofa til. Þetta veður á rætur sínar að rekja til hitabeltisstormsins Jerry sem þaut hér framhjá og er líklega núna kominn á Norðurpólinn.