Flokkur: veðurmetin
23.06.2010 22:19
Blíðu veður á Bakkanum
Það var sólríkur dagur í dag og dagsmet slegið. Hitinn náði eldra dagsmeti um hádegi í dag og sló fljótlega út dagsmetið frá 2007 sem var 18°C. Hitinn hélt þó áfram að hækka undir kvöld og náði hámarki kl.20:00 þegar hafgolunni lyngdi. Þá var hitinn orðinn 21.9 °C á veðurstöð VÍ. Það er næst hæsti hiti sem mælst hefur á Eyrarbakka í júní, frá árinu 1957, en mesti júní hiti var 22.6°C þann 30. árið 1999. Aðeins var heitara á Þingvöllum í dag 22,3°C.
24.03.2010 23:45
Hlýr mars
25.01.2010 23:50
Meira met
Hitastigið náði nýjum hæðum í dag með nýju dagsmeti 8.9 °C og skákaði 7,7° frá 1965. En það sem er merkilegra er að hámark mánaðarins 8,5° frá 12.janúar 1985 var sömuleiðis velt um koll. Víða var þó hlýrra í dag t.d. tæp 14 stig á Akureyri og líklega ekki spurning hvernig farið hefur fyrir skíðasnjónum. Annars gerði góða úrkomu síðasta sólarhring, eða 22 mm en engin met slegin á þeim vígstöðum. Liðna nótt var hvasst og jaðraði við storm á köflum. Á Bakkanum er blússandi brim þessa daganna.
24.01.2010 23:55
Hlýir straumar
Annan daginn í röð er hlýtt í veðri og komst hitinn hér í 8,1°C eins og í gær. Það er líka dagsmet og út er slegið 7,2° frá 1987. Toppinn í dag á þó Skjaldþingsstaðir með 12,1°C.
Nú er tekið að blása hressilega á Bakkanum með rigningunni sem fylgt hefur hlýndunum. Búist er við versnandi veðri í nótt.
Þennan dag: 1961 Faxi frá Eyrarbakka rak upp í fjöru í Þorlákshöfn.
23.01.2010 23:13
Sumarhiti í janúar
Það var víða hlýtt á Fróni í dag, sem dæmi var + 10,9°C á Skjaldþingstöðum og Mánárbakki með litlu minna, eða 10,2° og 9,7° voru í Bolungarvík sem telst frekar óvenjulegt á þessum árstíma. Hjá okkur á Bakkanum var líka hlýtt þó ekki næði þessum hæðum, en mest komst hitinn í 8,1°C og telst það dagsmet. Eldra er frá 1987 og 1992 með 7,2 °á þessum degi. Annars var hér frekar vætu og vindasamt í dag.
21.01.2010 23:19
Hvass með köflum
Það var víða óveður um sunnan og vestanvert landið í kvöld. Veðrið náði aðeins að litlu leyti inn á ströndina við Eyrarbakka um kvöldmatarleitið þegar vindur náði hámarki og sló í storm, eða 20,3m/s. Ein vindhviða náði þó 29,4m/s sem er all hressilegt. Dagsmet var í hitastigi kl.23 en þá mældist 7,8°C sem er 0,6° meira en þennan dag 2004.
Talsvert brimaði í dag og allmikill sjóreykur þegar bæta tók í vindinn. Brim verður áfram næstu daga.
Framundan er sunnanátt og hvasst með köflum. Svo er spurning hvað gerist með laugardaginn, en þá gæti gert stuttann hvell.
18.01.2010 00:03
Dagsmet í úrkomu.
Óskaplega hefur ringt hér síðasta sólarhring og kemur því ekki á óvart að upp úr mælidalli veðurathugunarmannsins hafi komið töluvert vatnsmagn í morgun, en þá mældist 43 mm og telst það met fyrir þennan dag mánaðarins.Áður hafði mælst 25,0 mm þennan dag 2004 og 27,1 árið 1892. En met mánaðarins er hinsvegar mun meira, eða 107,5 þann 6. janúar árið 1947. En ef er talið frá árinu 1957 þegar mælingar voru öruggari og ábyggilegri þá hefur aldrei ringt viðlíka í janúar á einum sólarhring og á þeim síðasta.
Þennan dag 1991 gaus Hekla.
30.12.2009 22:32
Mesta frost vetrarins
Töluvert frost hefur verið hér í dag og hvað mest í kvöld -16.6°C sem er dagsmet.
Eldra dagsmet var -14,4°C þennan dag 1961. Desembermetið er hinsvegar -19,8°C þann 13 dag mánaðarins frá árinu 1964. Eflaust verða margir til að spyrja hvað orðið hefur um gróðurhúsaáhrifin og loftslagsbreytingarnar, því svipaðar frosthörkur ganga nú yfir norðurlöndin og víðar, t.d. er núna -17°C í Kristianssand í Noregi og -15°C í Nyköping í Svíþjóð, en búist er við meiri frosthörkum þar um slóðir næstu daga. En kanski er merkilegt að aðeins skuli vera - 5° frost á Svalbarða á sama tíma og vetrarhörkur eru hér töluvert sunnar.
En hjá okkur er spáð björtu áramótaveðri N 5 m/s og -2°C
11.12.2009 23:35
Dægurmet slegið
Í dag komst hitinn í 9,3°C og sló út 8,4°metinu frá 1978 fyrir þennan dag. Þessi dagur hefur hinsvegar orðið kaldastur -17,2° árið 1969 en kaldasti desemberdagur var sá 13. 1964 með -19,8°C.
Þennann dag 1999 kom mesti snjór sem þá hafði sést í áratugi. En snjóþungt var einnig um þetta leiti árið 1972.
Í dag hefur verið hvasst, rigningasamt og allmikið brim.
08.12.2009 23:33
Dægurmet
Undir kvöld tók að hlýna mjög ákveðið og náði hámarkið 8.6°C. Gamla dagsmetið er frá 1978 var 8,3°C. Desembermetið er hinsvegar 10.2° frá 15 des 1997
07.11.2009 23:00
Fallegt veður
Það var æði fallegt veðrið í dag eins og sést á þessum myndum sem teknar voru við Ölfusárósa. Skýið á myndinni sem lítur út eins og geimskip er þó hvorki ský né geimskip, heldur gufustrókur frá Hellisheiðarvirkjun.
Óseyrarbrúin tengir ströndina við Þorlákshöfn og höfuðborgarsvæðið. Um hana fer töluverður fjöldi bíla á hverjum degi.
Í dag var dægurmet í hita á Bakkanum þegar hitinn náði um stutta stund í 10.6°C, en áður hefur verið mest 10°C á þessum degi, en það var árið 2003. það vantaði aðeins 0,1°C til að jafna mánaðarmetið frá 6.10.1995.
31.10.2009 16:23
Mildur oktober
Mánuðurinn var yfir höfuð mildur þetta árið. Það hvítnaði í fjöll í byrjun mánaðarins, svo féll fyrsti snjórinn hér þann 5. Þá gerði storm þann 9 þ.m. og var vindur mestur um 21m/s, þó voru hviður all öflugar en tjón lítilsháttar. Vætusamt nokkuð og hlýindi töluverð er leið á. Þann 29. var dægurmet í hita og einnig þann 30. en þá fór hitinn hæst í 11.5°C, Eldra met 10°C var frá 1991. Metið fyrir daginn í dag 10,6 er einnig frá árinu 1991 og stendur enn. Árið 1996 var mikill snjór í þorpinu um þessi mánaðarmót og allt kol ófært. Nú sést enginn snjór í nálægum fjöllum.
29.09.2009 20:28
Laufin falla
Nú eru trén tekin að fella laufin og búa sig undir langann og dimman veturinn. Það var nokkuð frost liðna nótt eða -6.6 °C og sló þar með út dagsmetið -5,4 frá 1988 og mánaðarmetið -6,4 frá 27.september 1995 m.v. mælingar á Eyrarbakka frá 1958. Þá er enn gert ráð fyrir frosti í nótt, en nú er loftraki nokkur og því hætta á að launhált (Black ice) verði á vegum úti.
08.09.2009 21:42
Hellir haustsól gulli.
það má með nokkru sanni segja, því dagurinn var bæði bjartur og hlýr. Komst hitinn hér í 16°C og sló út dagsmetið frá 2003 15,5 gráður. Víðast hvar á suðurlandi var afar hlýtt og gott veður. Hægviðri framan af og morgudögg yfir öllu. Sjórinn var sléttur sem spegill í morgunsárið svo langt sem séð varð.
Þennan dag: 1909 var símstöðin hér opnuð til almennra afnota og starfaði í tæpa öld.