Flokkur: Daglegt líf

09.02.2019 14:26

Hekluhverfið

Marserað á þjóðhátíðardegi einhvertíman á 5.áratugnum. Hverfið byggðist upp að mestu í þessum stíl á tímum Kf. Heklu sem lengstum var með aðalstöðvar sínar í hverfinu.

09.02.2019 13:58

Hópið

Hópið er tjörn suður af Steinskoti í Háeyrarvallahverfi. Á vetrum var svellið oft notað til hópleikja í frímínútum, en barnaskólinn er skamt frá.

09.02.2019 13:52

Skúmstaðahverfi

Skúmstaðahverfið á 6. áratugnum. Vatnslitamynd eftir Sigurð Andersen símstöðvastjóra.

09.02.2019 13:32

Vesturbakkinn

Vesturbakkinn (Búðarstígur) á 6. áratugnum. Þrjú hús á þessari mynd eru horfin.

09.02.2019 13:22

Litla Háeyri í tímans rás.

Litlu-Háeyrartorfan eins og hún leit út á 7. áratugnum.

09.02.2019 13:05

Marhnútaveiðar

Marhnútaveiðar voru dæmigert sport hjá atorkum börnum sem ólust upp á Bakkanum. Oft voru notuð heimatilbúin færi, þar til litlar veiðistangir fóru að fást í búðunum.

03.02.2019 16:31

Sjoppurómantíkin

Það er kanski rómantík 8. áratugarins sem byrtist í þessari mynd. Laugi búinn að opna búðina og viðskiptavinirnir, aðalega ungafólkið.

03.02.2019 14:42

Sigling á fleka

Það muna kanski einhverjir eftir siglingu af þessu tagi. Þessi gerð af flekum voru mjög vinsæl leiktæki á tjörnunum við Eyrarbakka á 7.áratugnum og náttúrulega heimasmíðað.

03.02.2019 14:26

Bakaríið á Eyrarbakka

Gamla Bakaríið á Eyrarbakka, er með elstu húsum á Bakkanum. Nánar má lesa um sögu þessa hús á Eyrarbakki.is  

18.10.2012 23:51

Sú var tíðin, 1910

Þetta var árið sem Þorleifur á Háeyri keypti Þorlákshöfn fyrir 32.000 kr, og Leikfélag Eyrarbakka sýndi í Fjölni gaman-sjónleikina: "Vinnukonuáhyggjur" og "Nábúarnir" við góðan orðstýr. Gripasýning fór fram að Selfossi þann 28. júní og vakti óskipta athygli áhugasamra. Þetta var líka árið sem Grímsnesvegurinn var lagður og sömu leiðis vegurinn upp á Dyrhólaey. Gróðrarstöð hafði Búnaðarfél. Íslands sett á stofn á Selfossi við Ölfusárbrú á þessu herrans ári. Að henni starfaði Kjartan Guðmundsson frá Hörgsholti. Þetta ár dó Magnús mormóni Kristjánsson í Óseyrarnesi og Ólafur söðlasmiður Ólafsson í Sandprýði, báðir ágætis menn.

Tíðarfarið: Bændur hér austanfjalls höfðu liðið fyrir harðan vetur sem varð þeim heyfrekur fremur venju og þegar leið að vori gerði hret  sem var vetrinum öllu verri. Næturfrostin hófust strax í ágúst. September var kaldsamur með snjó í fjöllum og einn dag snjóaði niður undir sjávarmál. Kom svo góður kafli með auða jörð fram til jóla. Öskufalls varð vart í Landmannahreppi þann 18. júní og víðar um sunnlenskar svetir.

Skipakomur og skipaferðir:  Sumarið 1910 komu óvenju mörg seglskip til Eyrarbakka, komu þá fimm allstór seglskip, þ.a.m. "Kong Helge" Höfðu mótorbátarnir þá í nógu að snúast með uppskipunarbátanna í togi. Verkafólkið vann nótt sem dag við vörulöndun og útskipun. Þá kom "Gambetta", aukaskip Thorefélagsins frá útlöndum með vörur til Ingólfsfélagsins. Strandferðaskipin sem sigldu á Sunnlenskar hafnir á þessum árum hétu "Hólar" og "Perwie" mestu dallar báðir. Seint um haustið kom járnseglskipið "Vonin", en það skip átti fyrrverandi Lefolii verslun og síðar Einarshafnarverslun. Var hún búin að eiga 49 daga útivist frá Bergen i Noregi vegna mótbyrs og óveðra, og var hún "talin af" bæði hér og i Kaupmannahöfn. Hér hitti hún þó á besta sjóveður og var með snarræði og dugnaði losuð á 5 sólarhringum, af duglegum Eyrbekkingum. Sorglegt var það hinsvegar að þá er skipið var komið hér í höfn, sendi stýrmaður símskeyti til konu sinnar í Kaupmannahöfn, um að hann væri hingað kominn heill á húfi, en fékk að vörmu spori það svar, að um sama Ieyti og hann náði höfn hér, hafði kona hans andast ytra og vakti það almenna hluttekningu þorpsbúa með stýrimanninum.

Íþróttir: Hið fyrsta sambands-íþróttamót ungmennafélaganna á Suðurlandsundirlendinu og kent er við Skarphéðinn, fór fram að Þjórsártúni 9. júlí 1910. Glímuþátttakendur voru 18, hvatlegir piltar, vænir á velli og vel á sig komnir; allir í einkennisbúningi og undu áhorfendur vel við að virða þá fyrir sér áður en byrjað var, enda var veður hið besta, lofthiti og logn. 1. verðlaun, silfurskjöldinn, hlaut Haraldur Einarsson, frá Vík. 2. verðlaun Ágúst Ándrésson, Hemlu. 3. verðlaun Bjarni Bjamason, Auðsholti. Grísk-rómverska glímu sýndu þeir Sæmundur Friðriksson, Stokkseyri og Haraldur Einarsson, Vík. Var hún allflestum nýstárleg íþrótt og klöppuðu áhorfendur lof i lófa. Einnig var keppt í fjölmörgum hlaupa og stökkgreinum.

Atvinna: Landbúnaður var stundaður að kappi á Bakkanum 1910 og vart litið við sjó um sláttinn, en nokkuð um að gert var út á síld frá Eyrarbakka og Stokkseyri þá um sumarið.

Götulýsing: Tvö gasljós voru til hér á Bakkanum 1910. Annað var úti við Einarshafnarverslun, en hitt ljósið var inni í Ingólfs búð, og nýttist til að lýsa vefarendum þar hjá, þegar hlerarnir voru ekki fyrir gluggunum. Annars voru steinolíu-luktir brúkaðar víðast úti við á dimmum vetrarkvöldum.

Heimild: Suðurland 1910

20.10.2011 20:53

Horfinn tími, leikvöllur fjörunnar

Brynjar- Hafsteinn-Sigurður-Atli-Finn.
Veiðimenn-Þekkið þið þá? (Myndina tók Stefán Nikulásson 1972)

KR-ingar? (Myndina tók Stefán Nikulásson 1972)
Sigríður-Kristbjörg
Stúlkur-skilaboð í sandinn. (Myndina tók Árni Johnssen 1971)

Barnapíur ( Myndina tók Katrín B Vilhjálmsdóttir 1962)

08.05.2011 18:35

Hverfisráð með fésbókarsíðu

Hverfisráð Eyrarbakka tók til starfa í febrúar 2011. Ráðið er eitt fjögurra hverfisráða sem starfa í umboði bæjarráðs Árborgar sem samráðsvettvangur íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og bæjaryfirvalda. Hverfisráðið hefur nú stofnað fésbókarsíðu til að auðvelda aðgengi íbúa að ráðinu og gera þeim kleift að koma að umræðum um málefni líðandi stundar. Ábendingum, fyrirspurnum og upplýsingum má einnig koma til ráðsins á hverfaradeyrarbakki@arborg.is

15.11.2010 01:37

Töfradrykkurinn

Það hefur sennilega verið árið 1765 sem Sunnlendingar gátu keypt sér te í fyrsta skipti, en það ár flutti Eyrarbakkaverslun inn 20 kíló (40 pund) af telaufi, en árið 1762 hafði verið flutt inn lítið eitt af tei á Faxaflóahafnir. Sá eðaldrykkur sem Sunnlendingar urðu sólgnastir í, kaffi var flutt inn 1791, tæp 50 kíló og fór innflutningur á kaffibaunum hægt stigvaxandi upp frá því. Það hafa þó aðeins verið prófastar, verslunarstjórar og sýslumenn sem ánetjuðust kaffinu, því þessi drykkur var nær alveg óþekktur meðal almennings fram að aldamótunum 1800 en þá fóru bændur að kaupa kaffi til hátíðarbrigða. Var þá svo lítið drukkið af kaffi að 1 kg dugði alþýðuheimili í eitt ár. Hálfri öld síðar var almenn kaffineysla komin í 100 kg á ári á venjulegu heimili, sem voru að vísu mannmörg á þeim árum, en í dag mætti áætla að kaffineysla íslendinga sé svipuð að meðaltali á heimili árlega. Árið 1855 var flutt inn 15.5 tonn af kaffi á Eyrarbakka og árið 1859 kemur kaffibætirinn (Export) til sögunar og er Eyrarbakkaverslun sú eina sem flytur hann inn fyrst í stað. Um miðja 19.öld er kaffi daglega á borðum á næsta öllum heimilum á Eyrarbakka. Þá var farið að nota rjóma út í kaffið og kom það víða niður á smjörframleiðslu, þar sem eftirspurn eftir rjómanum jókst mjög eftir því sem kaffidrykkja varð almennari. Upp úr miðri 19. öld fór að bera á ýmsu framandi kryddi og rúsínum og árið 1866 var sennilega boðið upp á hrísgrjónagraut í fyrsta skipti á Eyrarbakka, en það ár hóf Eyrarbakkaverslun innfluttning á hrísgrjónum. Um svipað leiti og te og kaffinnflutningurinn hófst kom einnig sykurinn í búðirnar og hefur hann verið óaðskiljanlegur þessum töfradrykkjum síðan.


Heimild: Fálkinn 17.árg. 1944

24.10.2010 23:55

Rafljósið

Rafljósið. Minnisvarði á Eyrarbakka
Minnisvarðin um rafstöðina á Eyrarbakka var afjúpaður vorið 2004, en það var árið 1919 sem hreppsbúar ákváðu að kaupa rafstöð og byggja yfir hana rafstöðvarhús. Hófst framleiðsla rafmagns 1920 og gekk hún til ársins 1948 þegar tenging kom við Sogsvirkjun. Rafstöðin framleiddi þó aðeins 30.000 kw á ári sem mundi duga u.þ.b. 6 heimilum í dag en dugði þó vel á sínum tíma fyrir þorpið. Hugmyndir um að raflýsa Eyrarbakka má rekja aftur til ársinns 1905 í tengslum við hugmyndir um að virkja Varmá, en árið áður hafði fyrsta rafstöðin í almanna þágu verið gangsett í Hafnafirði, en upp frá því hófst rafvæðing landsinns hægt og bítandi. Nú ríflega öld síðar hefur skotið upp kollinum önnur hugmynd um rafmagnsframleiðslu í bæjarfélaginu okkar, sem nefnd hefur verið Selfossvirkjun og byggist á gamalli hugmynd um beislun Ölfusár, en útfærslan er þó ný af nálinni og í tengslum við brúargerð ofan við Selfoss. Áður en þessi hugmynd verður að veruleika þarf að leysa fjölmörg vandamál, t.d. umhverfis, tæknilegs og fjárhagsleg atriði.

Raforkan knýr áfram flesta atvinnuvegi landsmanna og flest orkuver hafa einhvern göfugan tilgang í þá átt að veita fólki atvinnu, þó umdeilt sé með hvaða hætti það skuli vera. Ég sakna þess að ekkert svo göfugt markmið hafi verið nefnt í atvinnulegu tilliti í okkar sveitarfélagi varðandi Selfossvirkjun þó hún yrði aldrei næginlega öflug til að bræða ál, ætti hún samt að hafa göfugri tilgang en þann einann að selja orkuna inn á landsnetið í hagnaðarskyni, því þá mun hún einungis verða minnisvarði komandi kynslóða um áhættusækni og gróðahyggjuna á okkar tímum.

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00