Flokkur: Daglegt líf

23.04.2023 17:45

Hangið í sjoppunni

Á áttunda áratugnum þ.e. 1971+ var lítið um að vera á Bakkanum á kvöldin og félagsstarf fyrir krakka með allra minsta móti. Félagsheimilið Fjölnir rifið sökum aldurs og viðhaldsleysis. Unnið var að því að gera Stað að framtíðar félagsheimili, en í Brimveri húsi UMFE var einhver starfsemi öðru hvoru um helgar. Stéttin fyrir utan Laugabúð var því aðal menningarsetur unglinga á þessum árum. Laugi var með búðina opna flest kvöld, enda var eftirspurn eftir gosdrykkjum, súkkulaði og frostpinnum mikil hjá þessum aldurshópi. Það var því viðtekin venja að hanga fyrir utan Laugjabúð á kvöldin allt fram undir háttatíma.

20.04.2023 20:55

Í sölvafjöru

Hér áður fyr var almennt stunduð sölvatekja og var það gert til heimabrúks á mörgum heimilum, en með tímanum og betri efnahag lögðust þessar búbætur alfarið af. Sölvatekja var þó stunduð í einhverjum mæli til að selja í verslunum. Sigurvin Ólafsson (Venni) á Stokkseyri stundaði þar sölvatekju um nokkura ára skeið í sölu. Sigeir Ingólfsson heitinn (Geiri) stundaði sömu iðju á Eyrarbakka þar til hann fór af Bakkanum fyrir nokkrum árum. Á sjöunda áratugnum var Ingibjörg Jónasdóttir listakona í Sjónarhóli ein þeirra fáu sem enn verkuðu söl til heimabrúks, en hún tíndi líka kuðunga, skeljar og ýmsan sjávargróður sem hún þurrkaði og gerði úr alskyns listmuni.

12.04.2023 21:28

Sauðfjárbúskapur á Bakkanum

Sauðfé var á meira en tuttugu bæjum á Bakkanum á 7. áratugnum og lengur. Yfirleitt stundað meðfram annari vinnu. Eyrbekkingar áttu fjallskil í Skeiðaréttir. Var fé Bakkamanna dregið saman en síðan rekið eða flutt í Eyrarbakkaréttir þar sem dregið var í dilka. Enn eru allnokkrir hobby bændur á Bakkanum sem halda sauðfé í smáum stíl. Fjallrekstur er liðin tíð og er féð alið á heimahögum.

11.04.2023 22:29

Síðasti grásleppukarlinn

Fyrr á tíð lögðu nokkrir Bakkamenn grásleppunet til skamms tíma austur í Hraunslónum. Sá sem lengst hélt sig við þessar veiðar var Jón Valgeir Ólafsson á Búðarstíg. Lagt var upp frá Skúmstaðarvör sem er neðan við samkomuhúsið Stað og róið á fyrri fjörunni austur í Hraunslón svo sem komist var á árabát og netið lagt. Á seinni fjöru var farið í vitjun og netið tekið upp. Aflinn var yfirleitt ekki mikill, 4-6 fiskar þótti góðar heimtur. Ýmist rauðmagi eða grásleppa.

09.04.2023 00:13

Bílamenningin á 8 áratugnum.

Rúnturinn á Eyrarbakka var frá Óðinshúsi, austur að skóla og til baka

 

 

Bílamenningin ef svo þætti kalla náði hámarki á áttunda áratug síðustu aldar og bar keim af þeirri "bílamenningu" sem hafði þróast á Selfossi þeim tíma. Þetta var einkum menning unga fólksins sem eyddi mestum frítíma sínum í bílnum. Fyrsta fjárfestingin var því yfirleitt bíll. Bílaflotinn samanstóð aðalega af bílum frá sjöunda áratugnum, mest breskum svo sem Cortína og Escord sem voru mjög vinsælir á þessum tíma og amerískum bílum t.d Chevy Impala, Ford Maverick og Mustang o.fl. Talsvert af þýskum svo sem Mecedes Bens og Wolksvagen bjöllu. Fáeinir frá öðrum framleiðslulöndum sáust í þessum hópi.

Notaðir breskir bílar voru tiltölulega ódýrir  og því hagstætt ungu fólki með lítil fjárráð, en aftur á móti mjög bilanagjarnir og entust illa. Margir vildu heldur slá um sig á Amerískum kagga þó rekstrarkostnaður þessara bíla væri mjög hár og þurftu stundum nokkrir að leggja saman í bensín til að fara á helgarrúntinn.

Til að vera maður með mönnum þurftu bílarnir að vera útbúnir hljómflutningstækjum (Casettu tæjum) og sumir voru einnig með cb talstöðvar til samskipta. Það voru nánast alltaf strákar undir stýri á kvöld og helgarrúntinum og snerist málið apalega um að bjóða stelpunum á rúntinn, bíó eða í bæinn eða bara upp á kók og pulsu í Hafnarsjoppunni á Selfossi. Þar var hið svokallaða 'Hallærisplan' Selfyssinga. Þar safnaðist rúnturinn saman til að sýna sig og sjá aðra.
Ein bílasala var á Selfossi með gamla notaða bíla á þessum tíma, en úrvalið var ekki mikið, þannig að flestir sóttu bílasölur í borginni eða á uppboði í sölu varnaliðseigna. Mest lesna blaðsíða dagblaða voru auglýsigar bílasala.

Snemma á níunda áratugnum hvarf þessi bílamenning eins og dögg fyrir sólu. Kaggarnir hurfu af götum og þeir bresku fóru í brotajárn. Landið fylltist af rússneskum lödum,  japönskum Landcruserum og allskonar slyddujeppum.

 

18.07.2021 23:03

Mannfjöldi á Eyrarbakka 1927-30


Árið 1926 voru 692 skráðir til heimilis í Eyrarbakka kauptúni og þá enn með stærri kauptúnum landsins. Aðeins Akranes, Bolungarvík, Húsavík, Norðfjörður og Eskifjörður voru stærri kauptún.

Árið eftir (1927) fækkaði íbúum á Eyrarbakka um 52 einstaklinga og stóð íbúafjöldi í 640. Þá fóru Keflavík og Sauðárkrókur framúr í fólksfjölda.

1928 fjölgaði Eyrbekkingum í 648, en árið eftir (1929) féll íbúatalan niður í 621. Þá fóru Búðir í Fáskrúðsfirði framúr í fólksfjölda.

1930 var íbúafjöldinn á Bakkanum fallin í 608 skráða íbúa. Þessi þróun hélst næstu árin þar til íbúafjöldi komst í jafnvægi um 500 manns og hefur haldist á þessu bili 5 - 600 manns síðan. Í dag eru 590 íbúar skráðir á Eyrarbakka. (Á þessum árum var Selfoss rétt að byrja að byggjast upp og því ekki getið í heimildum)

Í Eyrarbakka læknishéraði (Flóinn) létust 208 manns á þessu tímabili. Úr barnaveiki 1, úr gíghósta 7, kvefsótt 2, taugaveiki 3, blóðsótt 1, gigtsótt 1, lungnatæringu 21, heilaberklabólga 5, berkum 3, sullaveiki 1, drukknun 9, slysförum 4, sjálfsmorð 2, meðfæddum sjúkdómum 3, elli 46, krabbameini 14, hjartaáfalli 12, aðrir hjartasjúkdómar 1, æðasjúkdóma 1, heilablóðfalli 18, flogaveiki 1, langvarandi lungnakvefi 2, lungnabólga 19, brjósthimnubólgu 3, garnakvefi 1, botlangabólgu 2, kviðslit 1, langvarandi nýrnabólgu 1 og önnur ótilgreind dauðsföll 7.

Heimild: hagskýrslur um mannfjölda þróun.

12.06.2021 23:21

Dæmigerður smábóndi


Líf smábóndans á Bakkanum  á fyrri hluta 20. aldar:
Smábóndinn bjó í litlu íbúðarhúsi á einni hæð með kjallara, átti 2 til 3 kýr nokkrar kindur, hænsn og áburðarhesta. Fjós og lítið útihús ásamt hlöðu. Konu og krakkastóð. Stundaði vetrarvertíð hjá einhverjum útvegsbóndanum upp á hlut þegar gaf á sjó frá febrúar og fram í miðjan maí. Nokkuð af aflanum vann hann í skreið og lagði upp í versluninni sem af mátti missa. Um vorið og sumarið pjástraði hann við eigið skeppnuhald og heyskap. Fór í uppskipunarvinnu þegar bauðst, eða tók törn vegavinnu í nærliggjandi sveitum. Hann átti kanski árabát og lagði fyrir grásleppu, tíndi söl og verkaði og stundum heppnaðist honum að skjóta sel. Haustið fór mest í stúss heima fyrir, slátrun og sláturgerð, ullarverkun og aðdyttur. Um veturinn fram að vertíð var lítið við að vera annað en reglulegar gegningar.

Hjá húsmóðurinni var nægur starfi allt árið um kring. Hún kveikti upp í eldamaskínunni, sótti vatnið í brunninn sá um matseld, frágang og tiltekt. Barnauppeldið var á hennar herðum, klæði og skæði. Prjónelsi, saumaskapur og þvottar og baðvatn. Þegar bóndinn var fjarri bættust gegningarnar við og vinna við heyskap og sláturgerð var ekki undanskilin húsmóðurstarfinu. Stálpuð börn tóku virkan þátt í heimilisstörfum og hverju sem til féll við búskapinn.

Þá var farið til messu á sunnudögum að hlýða á predíkun prestsins. Á fremstu bekkjum sat fyrirfólkið, héraðslæknirinn, sýslumaðurinn lyfsalinn og kaupmennirnir ásamt frúum sínum og börnum. Framarlega voru líka sýsluskrifarinn, póstafgreiðslumaðurinn, vegaverkstjórinn, sandgræðslustjórinn og símaverkstjórinn með sínu liði. Útvegsmenn, bakarinn, steinsmiðurinn og trésmiðirnir, beykirinn, skósmiðurinn, úrsmiðurinn gullsmiðurinn, rokkadreyjarinn og ullarragarinn deildu þeim bekkjum sem eftir voru. Smábóndinn tróð á svalaloftinu með sínu skilduliði og öðru tómthúsfólki og ungdómi sem horfðu niður á hinn fagra flokk kirkjugesta og spáðu kanski meira í fagurkæddar og barmamiklar ungfrúrnar en tilkomumikla predikun guðsmannsins.

Þegar út var komið tóku menn spjallið um tíðarfarið og gæftirnar en konurnar krítiseruðu ræðu prestsins og hvort kirkjukórinn hafi mögulega sungið betur núna en síðast.





01.05.2021 23:36

Síðara blómaskeið þorpsins

Það má segja að síðara blómaskeið Eyrarbakka hafi hafist laust fyrir 1960 með aukinni vélbátaútgerð, fiskvinnslu og iðnaði. Þetta blómaskeið stóð þar til aldamótin 2000 þegar nýtt hnignumarskeið hófst. Hápunkturinn mun hafa verið í kringum 1970 með stórauknum hafnarframkvæmdum.

Árið 1967 var aðalatvinnuvegur Eyrbekkinga sjávarútgerð en þá voru fimm 60tn bátar á vertíð og tvær fiskvinnslustöðvar, Hraðfrystihúsið og Fiskiver sf. en stuttu síðar bættist Einarshöfn hf. við með saltfiskverkun og áratug síðar hófst sameiginleg togaraútgerð með Selfossi og Stokkseyri.

Hjá þessum fyrirtækjum og bátum störfuðu á bilinu 140 - 150 manns.
Plastiðjan hf. skaffaði störf fyrir 15 manns.
Vélaverkstæði Guðjóns Öfjörð var með 3-4 menn í vinnu og trésmiðir voru nokkrir.
Litla Hraun mun hafa veitt 10-12 þorpsbúum vinnu en líka fólki utan hreppsins. Í verslun munu hafa starfað 7-10 og við kennslu 4-5 og annari opinberri þjónustu 4-5. Við garðyrkju og annan landbúnað störfuðu um 10 manns að staðaldri. Allnokkrir sóttu vinnu utan hreppsins, aðalega í vegagerð.

Byrjað var á hafnargerðinni um 1960 og hafnargarðinum mikla 1963 en fullgerður átti hann að vera 330 metrar, en nú fyrir allöngu hefur landtenging hans verið fjarlægð.

Um 1980 var sýnt að byrjað væri að fjara undan og var þá reynt að sporna við fótum með brú á Ölfusárósum og álpönnufyirtækinu Alpan. En um aldamótin 2000 var öll  stærri fiskvinnsla að leggjast af ásamt megninu af útgerðinni. Banki og pósthús hvarf úr þorpinu ásamt verslun. Það sama henti iðnfyrirtækin svo á skömmum tíma var ekkert eftir nema Litla-Hraun, Elliheimilið og Skólinn.

Ferðaþjónusta tók að ryðja sér til rúms eftir fjármálakreppuna 2007 og átti sinn góða tíma fram að heimsfaraldrinum sem hófst veturinn 2019.

22.03.2020 01:00

Í skugga kórónuveiru

Um það leiti sem landsmenn voru að kveðja jólahátíðina og búa sig undir langan og harðan vetur á hinu komandi ári 2020, barst sú fregn um netheima að í Whuhanborg í Kína hefði uppgötvast ný og áður óþekkt veira af kórónastofni sem átti upptök sín á markaði með villtar dýraafurðir þar í borg. Óvætturinn reyndist bráð smitandi og barst um eins og eldur í sinu um gervallt Hubei hérað og varð öldruðum og veikum skjótt að aldurtila. Engin bóluefni eða lyf voru til gegn þessari veiru. Kínversk stjórnvöld voru sein að átta sig á alvarleika málsins, en hófu þó gríðarlegt stríð við veiruna um síðir og urðu vel ágengt, en því miður of seint fyrir heimsbyggðina. Veiran hafði stungið sér niður í nálægum löndum, eitt og eitt tilfelli hér og hvar. Tilfellum fjölgaði smátt og smátt, en sumstaðar náði hún sér mjög á strik einkum í Íran og síðan á Ítalíu, Spáni og víðar.

 

Norður Ítalía er mjög þekkt fyrir textíliðnað sinn en einnig fyrir ferðamennsku skíðaiðkenda. Þannig háttaði til að eignarhald á mörgum af þessum textílverksmiðjum eru í höndum Kínverja og verkamennirnir koma flestir frá Wuhan og héruðunum þar í kring. Beint flug var frá Wuhan til norður Ítalíu og þannig barst vírusinn þangað og breiddist út á eldingshraða, einkum vegna samskiptaháttu íbúana þar. Það var því ekki að sökum að spyrja að vírusinn stingi sér niður á skíðahótelunum sem er vinsæll dvalarstaður evrópskra skíðaiðkenda. Ítalir voru seinir til aðgerða, það var eins og þeir tryðu því ekki að "Wuhan" var að raungerast hjá þeim og það var ekki fyrr en í óefni var komið að norðurhéruðunum var lokað og síðan allri Ítalíu og útgöngubann sett á, en þá blasti hryllingurinn þegar við og fólk deyjandi hundruðum saman. Stjórnvöld í evrópu voru líka sein til viðbragða, og voru heldur ekki að trúa því að þetta væri í raun að gerast með þessum skelfilega hætti. Nokkuð sem hefur ekki gerst meðal nokkura liðinna kynslóða. Brátt fóru lönd að loka landamærum sínum og reið Danmörk fyrst á vaðið með stórtækum aðgerðum og að síðustu Evrópusambandið í heild sinni. Þá voru Bandaríkin þegar búin að skella í lás og þóttu íslenskum stjórnvöldum það súrt í broti.

 

Nokkru fyr gekk allt  sinn vana gang á Íslandi og landinn var á ferð og flugi og gerði víðreist ofar skýjum á vélflugum sínum til sólríkari landa, eins og íslendingurinn er orðinn hvað vanastur, þrátt fyrir að segjast stundum vera með "flugviskubit" svona til að friða blessuðu samviskuna gagnvart loftslagsmálum, en meinar auðvitað ekki neitt með því.

 Á norður Ítalíu var staddur nokkur hópur skíðaáhugamanna, einkum úr mennta og heilbrigðisgeiranum. Margir myndu kanski ætla þessum stéttum að hafa vaðið fyrir neðan sig öðru fólki fremur, en eins og íslendingum er tamast þegar á þá sækir ferðahugur, að skilja vitið eftir heima en þess í stað að trysta hópsálinni fyrir för. Með þessum forvörðum íslensks samfélags smuglaði óvætturinn sér til vors lands. Viðbragðsteymi Íslenskra stjórnvalda brugðust þegar við með aðgerðum stig af stigi eftir því sem faraldurinn náði meiri fótfestu í landinu og lýstu fljótlega yfir neyðarástandi. Það er mál flestra manna að vel sé að verkinu staðið, en þó er ljóður á að ekki mátti styggja ferðamennsku að einu né neinu leiti í þessum aðgerðum, enda treystu landsmenn betur á ferðamannin en lóuna til að kveða burt snjóinn og leiðindin. Það var þó sjálfhætt því ferðamaðurinn hvarf hraðar af landi brott en frostrósir undan sólu, en einhverjar spurnir hafa þó verið af blessaðri lóunni þrátt fyrir hjarnavetur.

 

Í dag er veikin sem kölluð er Covid-19 af alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) að breiða úr sér hægt og bítandi og róðurinn þyngist stöðugt hjá heilbrigðisstofnunum. Á fimta hundrað veikir þegar þetta er ritað og yfir 5.000 í sóttkví. Þeir sem geta vinna heima en aðrir við ýmsar skipulagðar takmarkanir, einkum í skólum og stofnunum. og enn eru boðaðar hertari aðgerðir. Ríkisstjórnin hefur lagt fram björgunarpakka fyrir fyrirtæki og starfsmenn þeirra, þó sitt sýnist hverjum eins og von er og vísa.

En þá hingað heim og að kjarna málsins. Á suðurlandi er mesta útbreiðsla smits fyrir utan sjálft höfuðborgarsvæðið, samtals 34 smitaðir og 210 í sóttkví. Ákveðin stígandi er að komast í útbreiðslu veikinar. Eina ráðið til að kveða þessa óværu niður er að setja á algert útgöngubann í tvær vikur hið minnsta ef nógu snemma er gripið til þess og setja á ferðatakmarkanir til og frá landinu. Þannig má hlífa fjölda manns við að taka veikina með ófyrirsjánlegum afleiðingum. Þetta er eina aðferðin sem dugar eins og er og mörg ríki að taka upp, en þó virðist það ekki gert fyrr en í algert óefni er komið í mörgum tilvikum.

 

Það er nær öruggt að við næðum að kveða vírusinn niður með þessum hætti, en síðan yrði að fara ofur varlega þegar opnað verður á ferðalög að nýju og garentera að veiran komist ekki aftur inn í landið. Ef evrópa sem og öll önnur lönd væru samtaka í þessu yrði hættan að mestu liðin hjá í sumarbyrjun.

24.08.2019 23:09

Þegar iðnbyltingin barst til Eyrarbakka

Tóvinna er elsta iðngrein sem stunduð var á Bakkanum og fór sú vinna að miklu leiti fram í dönsku verslunarhúsunum í lok 19. aldar og fram á annann áratug 20. aldar. Tóvinna var einig mikið stunduð til sveita og voru unnar bæði voðir og prjónles. Prjónles skiptist í duggarales og smáles (smáband). Smáband og annað prjónles var verslunarvara. Snældustokkar og rokkar voru algengir og til á flestum bæjum í lok 19 aldar. [Upphaflega var mest spunnið á halasnældu en hjólrokkar tóku ekki að berast til landsins fyrr en á miðri 18. öld og fram yfir miðja 20. öld tíðkaðist að nota halasnældur meðfram til að tvinna.] Vefstólar voru hinsvegar sjaldgæfari en þó munu þeir hafa verið notaðir við tóvinnu á Eyrarbakka. Snældudustokkar og rokkar voru yfirleitt íslensk smíði, en vefstólarnir erlendir þó dæmi séu um íslenska vefstóla. Um miðja nítjándu öld höfðu vefstólar útrýmt gömlu kljásteinsvefstöðunum, en þeir stóðu lóðrétt með steinaröð neðst. Helstu framleiðsluvörurnar voru vaðmál og voðir, en einnig peysur, föðurland, sokkar, húfur og vettlingar sem konur framleiddu heima. Mikilvægt var að ullin væri vel þveginn fyrir vélarnar og sem dæmi var ull frá Bitru í Flóa höfð til sýnis á Eyrarbakka vorið 1916 sem all vel þvegin ull.

17.08.2019 21:30

Hnísuveiðar

Páll Grímsson á Óseyrarnesi og Gisli Gíslason silfursmiður í Þorlákshöfn gerðu tilraunir með hnísunet á vertíðinni 1903. Á miðöldum og allt fram til loka 19. aldar voru miklar hnísuveiðar stundaðar við Fjón í Danmörku, og notuð sú aðferð er enn tíðkast í Færeyjum, það er að hvölunum er smalað á land, en elstu þekktar heimildir hér á landi eru frá 1823 en þá voru 450 marsvín rekin á land í Reykjavík.  og 1823 voru 450 marsvín rekin á land í Njarðvík. Síðasti rekstur sem vitað er um var  árið 1966 en þá fundu sjómenn á tveim trillubátum marsvínavöðu með á annað hundrað dýrum í Faxaflóa út af Reykjavík og ráku þau til lands.

Á árunum milli 1880-90 voru margir, sem fengust við hnísuveiðar, en þá voru notaðir rifflar við veiðarnar.  Þrjár hnísuskyttur voru allfrægar. Það voru þeir Otúel Vagnsson frá Dynjanda, bóndi að Snæfjöllum, Páll Pálsson bóndi í Þernuvík í Ögurhrepni og Pétur Halldórsson bóndi að Kleifum í Skötufirði og að öðrum ólöstuðum Guðmundur J. Friðriksson, afi Gvendar jaka verkalíðsforingja.

Hnísan var aðalega nýtt til beitu, en líklaga voru þeir Páll í Óseyrarnesi og Gísli silfursmiður fyrstir til að reyna markvissar hnísuveiðar í net hér á landi.

Heimildir: Lesbók Morgunbl.20.tbl.1955. Wikipedia.Ísmús.

02.04.2019 22:35

"Letigarðurinn"

Litla-Hraun 90 ára. Upphaflega byggt sem sjúkrahús í þessari mynd, en áður en það komst á laggirnar var því breytt í fangelsi. Hefur gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem - Vinnuhælið- Letigarðurinn og Fæla, En oftast í daglegu tali kallað "Hraunið"

07.03.2019 20:57

Þá var líf í Bakkabúð og brennivín var nóg.

Einarshafnarverslun, eða "Vesturbúðirnar" eins og þessi hús voru þekktust að heiti, en "Bakkabúð" var hún einig stundum nefnd. Lengst af í eigu danskra kaupmanna og var Lefolii síðasti danski eigandi verslunarinnar. Síðar í eigu kaupfélags Heklu og að síðustu kaupfélags Árnesinga sem lét rífa húsin um 1950. Veslunin seldi m.a. brennivín og hresstust knapar skjótt eftir langa reið allt autan úr Skaptafellssýslum. það hefur ugglaust verið líf og fjör í búðunum þá.

03.03.2019 21:56

Í lok skútualdar

Skútuöldinni að ljúka og gufuskipaöldin að taka við. Frá Einarshöfn Eyrarbakka
Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260597
Samtals gestir: 33734
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:02:39