Flokkur: Umhverfi

12.05.2023 23:17

Trjágróður í húsagörðum

Tré fyrir framan Björgvin og Heiðmörk

Það var ekki fyr en á 6. áratugnum að trjágróður fór að sjást í húsa görðum á Eyrarbakka. Það var þó ekki almennt en í einstaka görðum lagði fólk sig frammi við að rækta tré. Aðstæður til trjáræktar voru hinsvegar erfiðleikum háðar. Jarðvegur sendinn og næringasnauður. Trén þurftu því bæði vökvun og áburð og þótti hrossatað hentugur áburður í trjábeðin. Í annan stað gátu seltuáhrif verið mikil í vetrarstormunum svo nærri sjó og trén urðu því að vera í einhverju skjóli fyrir hafáttinni. Þá var einnig hætta á kali á veturna þegar lagðist í frosthörkur og norðaustanátt sem getur staðið vikum saman hér um slóðir. Í fyrstu var eingöngu um að ræða reynitré, greni og rifsberjarunna. Sumir tjölduðu striga yfir trén á meðan þau voru ung, einkum grenið. Á 9.áratugnum færðist mjög í vöxt að setja niður hekk, einkum tröllavíði. Á 10. áratugnum fór að bera meira á ösp sem virðist plumma sig bærilega í sendnum jarðveginum og þurfti lítið að hugsa um og birki sem annars var lítið um á Bakkanum.

04.07.2021 22:32

Óðinshús, hús með sögu og sál.

Óðinshús, lengst af í eigu útgerðafélagsins Óðinn hf. sem rak þar netaverkstæði. Útgerðafélagið var í eigu Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf. Þar var áður Rafstöðin á Eyrarbakka og Slökkvistöð síðar. Upphaflega byggt sem pakkhús fyrir Kaupfélagið Heklu árið 1913 og er eitt elsta steinsteypta húsið á landinu. Árið 2002 keypti Sverrir Geirmundsson í Ingólfi Óðinshús og rak þar vinsælt lista gallery og vinnustofu í allmörg ár. Þar hafa málverk margra núlifandi íslenskra listamanna prýtt veggi og ýmsir aðrir menningaviðburðir lítið dagsins ljós. Ýmsir listmálarar hafa fundið fyrir andardrætti listagyðjunar á Bakkanum,  t.d. Jón Ingi Sigurmundsson og Gunnsteinn Gíslason sem hefur haft vinnuaðstöðu í Ólabúð sem einnig er gamalt og merkilegt verslunarhús. Árið 2019 var Óðinshús auglýst til sölu. Dana Marlin Maltverskur efnafræðingur keypti húsið og hyggst opna þar brugg og kaffihús innan tíðar, þar sem sjávarþangið kryddar tilveruna.






06.04.2021 00:29

Álfur og Álfstétt

Álfur hét madur Jónsson sem lét sér fátt fyrir brjósti brenna og drykkfeldur nokkud. Vinnumadur var hann ad Óseyrarnesi ásamt konu sinni um 1847 (ábúd á ödrum Nesbænum 1855). Fluttist sídan ad Nýjabæ á Eyrarbakka og ad sídustu austur á Hól í Hraunshverfi og þadan upp ad Medalholtshjáleigu í Flóa. Þad var mikil fátækt um midbik 19 aldar og reyndar allsleysi hjá flestum í þorpinu. Álfur var duglegur til allra verka, hagur á járn og tré og réri til sjós í Þorlákshöfn þá er hann var í Óseyrarnesi. Sídan af Bakkanum hjá Þorleifi ríka á Háeyri, formadur á skipi hans og frá Loftstödum. Á þessum árum voru gerd út 30 - 40 áraskip á Eyrarbakka og sjón ad sjá þessum skipum radad upp medfram allri ströndinni og birgin og beituskúranna þar upp med sjógardinum. Þá var mikid um ad vera, skipin tví og þríhladin af fiski og stundum med seilad aftanní. Stundum voru menn sendir út á skerin til ad taka vid seilunum og draga upp í fjöru. Vermenn komu úr sveitum alstadar ad og nóg var af brennivíni til ad skola sjóbragdid úr kverkunum. Svo rammt kvad ad drykkjuskap ad menn seldu jafnvel skó og sokka barna sinna og naudsynjar heimilanna fyrir krús af brennivíni, og sáu ýmsir höndlarar sér leik á bordi um vertídina. Fæda þorpsbúa um þessa tíd var adalega fiskur, söl og grautur úr bankabyggi. Í hallæri var þad líka 'Mura' rótartægjur. Kál stód stundum til boda. Til hátídabrigda var keypt skonrok. Á jólum var börnum bodid í Faktorshúsid upp á graut med sýrópi og eitt tólgarkerti hvert til ad fara med heim. Um sumarid fylltist þorpid af lestarmönnum ofan úr fjarlægustu sveitum med ullina sína. Þá var líka eins gott ad nóg væri til af brennivíni ofan í gestina.

Þarna gátu menn litid augum og heilsad upp á Þurídi formann, lágvaxin kona sem ávalt gekk um í karlmannsfötum, en landsfræg eftir ad hún sagdi til Kambránsmanna. En hún var ekki sú eina, því medal lestarmanna var kerling ein eftirtektaverd. Hún hét Ingirídur, stórskorinn, hardeygd og tröllsleg. Hún gekk med hatt og í karlmannsfötum og gaf ödrum körlum ekkert eftir.

En aftur ad Álfi. Hann átti frumkvædi ad því ad leggja veg þann á Eyrarbakka er enn ber nafn hans, þ.e Álfstétt. Vegurinn var lagdur medfram og yfir fúakeldur og fen svo fólk ætti betra med ad komast upp í mógrafir (mór notadur til eldsneytis) og slægjulanda sinna. Þetta var fyrsti vegarspottinn sem sérstaklega var byggdur sem slíkur á Eyrarbakka.

12.10.2019 22:34

Tröð, Stígur, Gata, Vegur, Braut.

Búðarstígurinn er einn elsti "vegurinn" á Bakkanum, En Kaupmannshúsið, kallað "Húsið" var byggt árið 1768. Stígur og síðan braut lá milli verslunarhúsanna og kaupmannshússins.  Aðrir fornir stígar og traðir milli húsaþyrpinga og garða breyttust smám saman í vegi í tímans rás svo sem Eyrargatan, Háeyrarvellir og Hraunteigur. Eiginleg vegagerð hófst með tilkomu hestvagna og aukinni notkun til vöru og heyflutninga. "Álfstétt" heitir vegspotti á Eyrarbakka og  sagður einn elsti vegur í Árnessýslu, byggður einhverntímann fyrir 1880. "Bárðarbrú" sem þó er ekki "brú" í nútíma merkingu, heldur upphaflega púkkaður mjór vegur yfir móa og mýrlendi er lá áður milli kirkju og Húsins upp á engjalöndin vestur undan Sólvang, en þennan veg  gerði Bárður Nikulásson um 1880 og og um 1890 var "Nesbrú" byggð, en það var upphlaðin slóði á leiðinni frá Óseyrarnesi upp mýrarnar, er lá alla leið upp í Kaldaðarneshverfi. Hluti Háeyrarvegar var lagður á svipuðum tíma, en fyrir því stóð Guðmundur Ísleifsson á Háeyri.  Lagning Eyrarbakkavegar frá Ölfusárbrú hófst 1898 undir stjórn Erlends Zakaríassonar, en þá voru hestvagnar að verða helsta flutningatækið. (Trúlega er Steinskotsvegur frá sama tímabili.) Sumarið 1913 komu fyrstu bílarnir akandi þennan veg frá Reykjavík, en það voru Ford-blæjubílar og lítt áræðanlegir til brúks. Hjallavegur og Túngatan hafa  byggst upp smám saman milli 1940-1950 og Merkisteinsvellir um líkt leiti. Hafnabrú er byggð um 1975. Hjalladæl og Hulduhóll eru gerð um  og eftir aldamótin 2000 og Þykkvaflöt um svipað leiti.

Mörg hús á Bakkanum bera nöfn sem kennd eru við þessar umferðaæðar, svo sem Götuhús, Stíghús, Traðarhús, Akbraut, Suðurgata og Vegamót sem var rifið fyrir mörgum árum. Í öðrum tilfellum hafa stígarnir dregið nöfn af húsum, svo sem Bakarísstígur og Háeyrarvegur.

05.10.2019 23:11

Uppfyllingar og kolefnisbinding

Nú á dögum er það til siðs að fylla upp skurði í mýrlendi sem grafnir voru upp í fyrndinni. Það var gert til að þurka upp mýrarnar svo að hafa mætti af því hey sem annars var oft hörgull á. Í nútíma landbúnaði gerist ekki þörf að hirða hey af mýrum sem eru í dag aðalega nýtt sem beitarlönd. Það er þó ekki ástæðan fyrir uppfyllingunum. Í fyrstu var það gert til að örva fuglalíf á tilteknum svæðum svo sem í fuglafriðlandinu á Eyrarbakka. En nú seinni ár til þess að kolefnisbinda jarðveginn. Hópur vísindamanna hafa nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að kolefnisútstreymi í andrúmsloftið sé að valda hamfarahlýnun á jörðinni, með þeim skelfilegu afleiðingum að allir jöklar jarðar bráðni á næstu árum og hækki sjávarborð um tug metra. Það mundi gjörbreyta strandlengjum um allann heim og færa eyjar á kaf. Ekki eru allir vísindamenn sammála um orsök fyrir þessari  hlýnun á heimsvísu sem er mæld upp á ca 1°C það sem af er hlýskeiðinu. Sumir vilja skella skuldinni á ört vaxandi skóga og umfangsmikla skógrækt víða um heim, einkum í Skandinavíu. Er rökstuðningur þeirra ekkert síðri en hinna sem halda með kolefnisfullyrðingunni. Sumir vísindamenn telja hinsvegar aðalorsökina vera reglubundin ca 1000 ára sveiflu í sólinni sjálfri. Uppsafnaður ofurvarmi í miðju sólar sem nær smám saman til yfirborðs hennar og hjaðnar út á nokkur hundruð árum og endar í kuldaskeiði á jörðinni.  Almenningur allur tekur þó kolefniskenninguna trúanlega, enda mikill áróður rekinn fyrir henni. Það hefur aftur skapað mikla taugveiklun og óróa meðal yngri kynslóða á heimsvísu. Stjórnmálamenn lofa hver í kapp við annann að bregðast við þessum heimsendaspám með öllum, eða næstum öllum tiltækum ráðum og til að sýna ungu kynslóðinni að eitthvað sé nú verið að gera, þá er spjótunum beint að bifreiðaeigendum sem keyra á jarðefnaeldsneyti, sem sé stóra málið.

Til gamans má geta þess að elstu skurðirnir á Eyrarbakka voru handgrafnir.  Markaskurðurinn var grafinn 1885-1887. Hraunsskurðurinn var grafinn um 1908 (4,5km) Kjálkaskurðurinn var grafinn 1922-1928. Holræsin miklu voru grafin árið 1929

02.04.2019 22:35

"Letigarðurinn"

Litla-Hraun 90 ára. Upphaflega byggt sem sjúkrahús í þessari mynd, en áður en það komst á laggirnar var því breytt í fangelsi. Hefur gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem - Vinnuhælið- Letigarðurinn og Fæla, En oftast í daglegu tali kallað "Hraunið"

09.02.2019 14:26

Hekluhverfið

Marserað á þjóðhátíðardegi einhvertíman á 5.áratugnum. Hverfið byggðist upp að mestu í þessum stíl á tímum Kf. Heklu sem lengstum var með aðalstöðvar sínar í hverfinu.

09.02.2019 13:58

Hópið

Hópið er tjörn suður af Steinskoti í Háeyrarvallahverfi. Á vetrum var svellið oft notað til hópleikja í frímínútum, en barnaskólinn er skamt frá.

09.02.2019 13:52

Skúmstaðahverfi

Skúmstaðahverfið á 6. áratugnum. Vatnslitamynd eftir Sigurð Andersen símstöðvastjóra.

09.02.2019 13:32

Vesturbakkinn

Vesturbakkinn (Búðarstígur) á 6. áratugnum. Þrjú hús á þessari mynd eru horfin.

09.02.2019 13:22

Litla Háeyri í tímans rás.

Litlu-Háeyrartorfan eins og hún leit út á 7. áratugnum.

17.06.2016 17:39

Vesturbakkinn- Skúmstaðir

Vesturbakkinn hafði öldum saman verið miðstöð siglinga, verslunar og menningar á Suðurlandi í bland við landbúnað og fiskveiðar. Þar stóðu Vesturbúðirnar frá 1755 til 1950. Húsið frá 1765 og Kirkjan frá 1890 eru nú hin mesta menningararfleið sem prýða Vesturbakkann ásamt fjölda gamalla húsa.

 

Uppruni örnefnisins "Skúmstaðir" er óþekkt, en gæti dregið nafn sitt af því náttúrufyrirbæri þegar "skúm" dregst þar í fjöruna á heitum dögum með hafgolunni. Á Skúmstöðum hafði löngum verið smá þorp torfbæja, allt frá ómunatíð en ekkert er vitað um ábúendur fyr en jörðin kemst í eigu Skálholtsbiskupa á 16. öld, en Oddur Grímsson og Gyðríður Gestsdóttir sátu jörðina árið 1540 og Magnús Sveinbjörnsson bjó þar samtímis. (Oddur var faðir Odds í Nesi lögréttumanns í Árnesþingi.)  Skúmstaðarbændur höfðu allmikil völd í gegnum vinfengi við Skálholtsbiskupa, svo sem  Árni Pálsson og Ásta Sigurðardóttir til 1678 og Bjarni Árnason og Valgerður Eyjólfsdóttir til 1704. Á þessum árum var allmikil uppbygging að Skúmstöðum, einkum í tíð Gottskálks Oddsonar um 1681 er hafði þar byggingaleyfi og Sigurðar lóðs Jónssonar um sama leiti. Þá var danska verslunin flutt af Einarshöfn og á Skúmstaði, eftir stórflóðið 1653 ásamt Einarshafnarbæjum. Uppbyggingin hélt áfram í tíð Tómasar smiðs Þorsteinssonar og Þórdísar Bjarnadóttur til 1754, en hús hans þóttu í meira lagi og árið 1755 reis fyrsti hluti hinna nefndu "Vesturbúða" og smátt og smátt viku torfbæirnir fyrir nýjum timburhúsum. Núverandi mynd Skúmstaða er að mestu tilkomin um og eftir aldamótin 1900, en elstu húsin sem staðist hafa tímanns tönn eru Húsið byggt 1765, Kirkjuhús 1879, Assistenthúsið 1883 og Bakaríið 1884 en u.þ.b. 10 - 12 hús standa byggð fyrir 1900. Árið 1816 bjuggu um 100 manns á Vesturbakkanum en um 170 á Austurbakkanum. Af merkisfólki úr Skúmstaðahverfi væri helst að nefna Einar Hansen kaupmann í Húsinu sem árið 1789 var talinn ríkastur Eyrbekkinga. Lambert kaupmaður Lambertsson kaupmanns um 1833. (Hann hafði 10 manns í heimili) Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri og kona hans Sylvía og dóttir hennar Eugenía Nielsen og dætur hennar Guðmunda og Karen. J.A. Lefolii sem var skrifaður fyrir Skúmstaða og Einarshafnarjörðum fram til 1911, dvaldi oft sumarlangt en hann bjó í danmörku.  Um 1930 voru Skúmstaðir komnir undir Landsbankann og færðist síðan undir Eyrarbakkahrepp. Á síðari tímum voru helst nafntogaðir á Vesturbakkanum að öðrum ólöstuðum, þeir grannar, Vigfús Jónsson oddviti í Garðbæ, Guðlaugur kaupmaður í Sjónarhól og Hjörtur hreppstjóri í Káragerði.

 

Ábúendatal Skúmstaðir frá 1540 - 1930:

Oddur Grímsson og Gyðríður Gestsdóttir um 1540. (Magnús Sveinbjörnsson samtímis)

Þórður Ormsson 1616-1617.

Jón Guðnýjarson (Guðný dóttir hans) 1621.

Sveinbjörn Geirmundsson og Ingunn Gísladóttir til1635. (Ingunn var áður í tygjum við Kvæða-Eyjólf. Sveinbjörn leyfði flutning Einarshafnarbæja á Skúmstaði.)

Ormur Jónsson og Guðrún Sveinbjarnardóttir til 1665. (á hálfri jörðinni)

Árni Pálsson og Ásta Sigurðardóttir til 1678. Árni naut vinfengis við Skálholtsbiskupa þá Brynjólf og þórð og hafði umboð þeirra fyrir öllum reka á Eyrarbakka og víðar.

Bjarni Árnason og Valgerður Eyjólfsdóttir til 1704. Bjarni var einnig í vinfengi við þá biskupa Brynjólf og þórð og hlaut mikil völd.

Gottskálk Oddson var þar einnig um 1681 og hafði þar byggingaleyfi.

Jón Ormsson og Guðrúnar og Ástríður Snorradóttir á svipuðum tíma.

Ástríður Snorradóttir ekkja til 1688. (Þá ráðstafar biskup hennar parti.)

Sigurður lóðs Jónsson fékk byggingabréf á Skúmstöðum þetta ár.

Guðmundur Lafranzson og Guðrún Eyjólfsdóttir um 1703. (hjá Garðinum-hjáleiga) Þá eru í Skúmstaðaþorpinu 30 kýr. (Háeyrarhverfi 41 kýr á sama tíma)

Valgerður Eyjólfsdóttir ekkja til 1714. (afsalar þá ábúð til Bjarna Jónssonar)

Bjarni Jónsson og Þórdís Snorradóttir til 1747.

Tómas smiður Þorsteinsson og Þórdís Bjarnadóttir um 1754, en þá verður hún ekkja. (Tómas gerði út áttæring og hús hans þóttu í meira lagi.)

Magnús hreppstjóri Bjarnason Jónssonar til 1781. Hann hafði 11 hjáleigumenn, 13 húsmenn, en undir hans stjórn samtals 153 menn.(59 á Skúmstöðum, 8 í Einarshöfn og 85 á Háeyri)

(Á árunum 1748-1773 höfði nokkrir afnot af jarðarpörtum:

Sigríður Álfsdóttir, Filippus Þorsteinsson, Sigurður Þorsteinsson, Jens Lassen kaupmaður Húsinu, Brynjólfur Klemensson, Símon Eyjólfssonar sterka, Haagen verslunarmaður.)

Húsið: D.KR. Petersen kaupmaður 1788-1795 eða lengur. (Hann hafði tvo róðrabáta og 20 manns í heimili, og talsvert bú.)

Haagen Möller beykir og Hallgerður Jónsdóttir til 1804. (Þau missi nær aleiguna í flóðinu mikla 1799) Gunnar Jónsson er á Skúmstöðum samtímis.

Kristján Berger verslunarþjónn og Jarþrúður Magnúsdóttir samtímis.(og síðar í Garðinum)

Jón lóðs Bjarnason frá 1793. (Byggði laglegan bæ á Skúmstöðum)

Bjarni hreppstjóri Jónssonar lóðs til 1804 ásamt Kristjáni Berger og Haagen Möller.

Húsið : Einar Hannsen kaupmaður til 1817. (talinn ríkastur Eyrbakkinga 1798)

Maddama Pedersen 1815.

Húsið: Níls Lambertsen kaupmaður og Birgitta Guðmundsdóttir til 1822 (hafði talsvert bú. 1 mann á Skúmstöðum, 5 kýr, 159 fjár, og 13 hross. Að auki 4 róðraskip átta og tíuæringa og 2 báta fjögra og sex æringa) Kálgarður var, eins og við flesta bæi og hús. (Ekki þótti Nils vel liðinn.)

Fr. Kr. Hólm verslunarþjónn til 1819.

Birgitta Guðmundsdóttir ekkja á Skúmstöðum til 1827.

Filippus Þorkellsson og Guðný Teitsdóttir til 1855.

Ólafur Nikulásson og Ingibjörg (laundóttir Sveins Sigurðarsonar verslunarstjóra) til 1847

Þorleifur Kolbeinsson 1826, síðar Háeyri.

Erlendur Jónsson húsmaður og Guðrún Guðmundsdóttir 1829.

Teitur lóðs Helgason og Sigríður Sigurðardóttir 1826-1834, einnig í Einarshöfn.

Sigurður sakamaður Jónsson 1838. (Bú hans stórt og mikið gert upptækt.)

Húsið: Lambert kaupmaður Lambertsson kaupmanns um 1833. (10 manns í heimili og talsvert bú í Garðinum, sem var hluti af Skúmstaðatorfunni)

Sigurður Sívertsen verslunarstjóri á svipuðum tíma. (var einnig með stórt bú í Garðinum)

Þá voru einnig með jarðaafnot, Oddur Halldórsson og Einar Loftsson,

Vigfús Helgason og Sigríður eldri Brynjólfsdóttir til 1867.

Oddur Snorrason frá Gaulverjabæ og bústýra Soffía Friðfinnsdóttir 1846.

Jón Jónsson frá Vindheimum Ölf. og Guðrún Jónsdóttir 1844-1871. (kv. síðar Guðríði ekkju Bjarnadóttur frá Háeyri) Lítið bú.

Jón Jónsson frá Stk. og Ragnheiður Vernharðsdóttir til 1871. Lítið bú.

Brynjólfur Bjarnason og Sigríður Eiríksdóttir prestsekkja um 1857.

Teitur Teitssonar í Einarshöfn Helgasonar og Hólmfríður Vernharðsdóttir um 1866 og síðar í Einarshöfn. Fóru til Ameríku 1873.

Sigríður Brynjólfsdóttir ekkja Vigfúsar um 1873.

Gísli Einarsson frá Hólum og Guðný Jónsdóttir um 1869.

Jón Ormssonar í Einarshöfn til 1879. (forfaðir Norðurkots-fólksinns)

Jón snikkari Þórhallsson frá Vogsósum og þórunn Gísladóttir um 1870, þó ekki talinn hafa ábúð.

Magnús lóðs Ormssonar í Einarshöfn og Gróa Jónsdóttir um 1871.

Jón Stefánsson og Sigríður Vigfúsdóttir til 1875.

Húsið: Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri. Hélt Skúmstaði alla til 1897.

Húsið: Pétur Níelsen, verslunarstjóri hélt Skúmstaði til 1910.

J.A. Lefolii stórkaupmaður telst skrifaður fyrir Skúmstaða og Einarshafnarjörðum 1911. en er ekki búandi hér.

Húsið: Jens D Nielsen verslunarstjóri til 1919.

Guðmundur Guðmundsson kaupfélagsstjóri og Ragnheiður Björgvnsdóttir 1926 í Garði.

Þorleifur þingmaður Guðmundsson frá Háeyri og Hansína Sigurðardóttir í Garði til 1930. Þá voru Skúmstaðir komnir undir landsbankann.

Jón Íshúsvörður Stefánsson og Hansína Jóhannsdóttir nutu einhvers afraksturs af landinu í tíð Kaupfélags Árnesinga. Jörðin féll síðan undir Eyrarbakkahrepp.

 

Fólk kom víða að einkum úr sunnlenskum sveitum á 18 og 19 öld og settust að á Vesturbakkanum. t.d. Nikulás Þorsteinsson á Skúmstöðum 2 er kom frá Hrífunesi í Skaftártungu með börn sín Jón og Sesselju. Filippus Þorkellsson úr Hraungerðishrepp og hans kona Guðrún Teitsdóttir frá Skálmabæ í Leiðarvallahreppi. Börn þeirra voru Hjálmar, Gróa og Sesselja.

Árið 1816 áttu 21 einstaklingur heima í Kaupmanns og Assistenthúsi (Húsið). Þá bjuggu þar Cristian Fredric Holm factor frá Rudköbing á Fjóni og kona hans Frederikke Lovisa Holm frá Eskifirði. Börn þeirra Jacobina Cristiane Holm, Frederikke Holm, Hans Wolrath Holm, Jacob Holm, Frederik Cristian Holm, Wolrath Cristian Holm. Ekkjan Elisabeth Marie G Petersen og sonur hennar Wilhelm Andres Petersen. Vinnukonurnar Ingveldur Þorkellsdóttir frá Kökki og Margrét Þorsteinsdóttir frá Vaðlakoti, og vinnumenn Ari Jónsson frá Stokkseyri og Einar Jónsson Hallvarðssonar frá Vífilstöðum. Verslunarmennirnir Sigurður Sívertsen frá Gróttu og Eiríkur Sverrisson af Síðu. Í Assistent húsinu bjuggu á sama tíma Hans Símon Hansen assistent frá Reykjavík og kona hans Marie Hansen frá Eyrarbakka. Fósturbarn þeirra Einar Pedersen Hansen og jómfrú Inger Margrete Hansen og vinnukonan Þorbjörg Hannesdóttir frá Eyrarbakka.

 

Skamt frá þessu auðmannahúsi stendur annað er Norðurkot heitir, þá torfbær  og voru fátækt og sjálfsbjörg þar í ráðuneyti. Þar bjuggu Jón Geirmundsson frá Götu og Halla Jónsdóttir frá Syðri Gengishólum með niðursetninginn Guðrúnu Jónsdóttur og börn þeirra Sigríði og Sigurð ásamt vikapiltinum Snorra Geirmundssyni, bróðir Jóns.

 

Jón þessi var nokkuð séður, en hann keypti aflóga húðjálka til slátrunar fyrir lítið sem ekkert og seldi síðan af þeim kjötið, en reyktar hrossalappirnar seldi hann fátækum fyrir slikk. Kölluðu gárungarnir því fyrirtæki þetta "Skankaveldi", en af þessu efnaðist hann nokkuð. Jón hafði reikning í Eyrarbakkaverslun er hann tók út á ýmsan búðarvarning og seldi svo dýrar á vetrum þegar vöruskortur gerði vart við sig eins og aðrir smáhönlarar þess tíma. Sumt af því sem var til sölu í "Skankaveldi" var talið illa fengið, en Jón var kenndur við þjófafélag nokkurt er í voru Snorri Geirmundsson lausamaður og Páll Hafliðason tómthúsmaður á Skúmstöðum, en þeir voru grunaðir um að sækja sér varning í verslunina að næturlagi.

Fyrri kona Jóns hét Halla dóttir Jóns-lána. Hún þótti forkunnar fríð og efnileg. Gerði hún sér gjarnan dælt við Sigurð stúdent Sívertsen er þá var við Eyrarbakkaverslun, en þó í mesta sakleysi. Jón var hinsvegar afbrigðissamur mjög og er hann gallt líku líkt með Gróu Jónsdóttur vinnukonu á Skúmstöðum leiddi það til óléttu. Það var til þess að Halla gekk frá honum og fór til Sigurðar stúdents sem hún giftist síðar. Jóni varð svo um þennan eftirmála að hann lokaði sig inni, bar grjót fyrir hurð og kveikti í kotinu. Menn sáu reykinn stíga upp, en komust eigi inn fyrr en Eiríkur Sverrisson kom á staðinn. Hann var tveggja manna maki að afli og hljóp hann á hurðina sem brotnaði í spón. Tókst þá að bjarga Jóni er nær var andaður og lá hann lengi á eftir. Um þennan atburð var ort vísa:

 

Heiftin geisar hart um torg,

herðir kölski ganginn.

Skankaveldis brunnin borg,

buðlung hennar fanginn.

22.05.2016 21:19

Staldrað við á Austurbakkanum 2

Betra er lítið heimili en ekki neitt, segir í Hávamálum, en það er einmitt einkennandi fyrir Litlu-Háeyrarhverfi, Suðurgötu og nágreni. Fyrir aldamótin 1900 voru þarna nokkrir torfbæir sem í bjó efnalítið fólk, en skömmu eftir aldamótin risu þessi litlu hús, sem í dag gætu flokkast undir "Mínimalisma" og eru þessi elst: Akur, Akbraut, Blómsturvellir, Deild, Frambæjarhús, Eyri, Helgafell, Tjörn og Þorvaldseyri það stærsta, sem byggt var í hverfinu á fyrsta áratug 20. aldar. Sennilega eru mörg þessara húsa byggð á grunni torfbæja eða þurrabúða.

 

Litla-Háeyri heita öll þessi hús, en það fremsta þeirra og elsta er þá var uppistandandi bjó síðast Guðlaugur Eggertsson, en húsið var rifið eftir hans dag. Torfbæjarhverfi mun hafa staðið þarna fyrum.



Á Akri bjó lengst af Árni Helgason formaður og frækin sjósóknari, ásamt konu sinni Kristínu Halldórsdóttur og áttu þau 7 börn. Áður bjó á Akri, er þá var lítill torfbær, Sigurður Jónsson formaður á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn. Sonur hans Jón var skipstjóri á  Hilmi RE 240.

 

Í Akbraut  bjó Þorbjörn Hjartarson og Elín Pálsdóttir frá Nyjabæ ásamt 7 börnum. Þar var fyrir lítill torfbær, en húsið byggði Þorbjörn á grunni gamla torfbæjarinns.

 

Á Blómsturvöllum bjó Jóhann Pétur Hannesson sjómaður, er þetta hús byggði ásamt konu sinni Elínu Vigfúsdóttur. Jóhann Pétur fórst í innsiglingunni á Eyrarbakka árið 1920 og flutti fjölskylda hans þá til Eyja.  -Þeir Jóhann Pétur, Oddur Snorrason í Sölkutóft og Jóhann Bjarnason voru að koma á smábát framan úr vélbát, er þeir höfðu róið á til fiskjar út í Hafnarsjó, en lagt á legunni hér í höfninni og tekið aflann í smábátinn. Fylti bátinn í lendingunni rétt við fjöruborð, og soguðust þeir Jóhann og Oddur út og drukknuðu, en Jói Bjarna náði að synda í land.- Seinna áttu heimili á Blómsturvöllum Kristín Vilhjálmsdóttir og Þorbjörn Guðmundsson frá Einkofa. Kristín var móðir Steins í Vatnagarði Einarssonar. Síðar bjó þar Runólfur Guðmundsson úr Borgarfirði Eystra og Guðlaug Eiríksdóttir, ættmóðir margra Eyrbekkinga.

 

Í Deild bjuggu Sigurður Daníelsson gullsmiður og Ágústa Ebenezerdóttir gullsmiðs Guðmundssonar ásamt þrem dætrum. Sigurður var hálfbróðir Ágústínusar Daníelssonar í Steinskoti.

Helgafell byggði Helgi Jónsson verslunarmaður. Jóhann V Daníelsson kaupmaður og kona hans Sigríður Grímsdóttir keyptu það síðan og hélst húsið þaðan í ættinni.

Frambæjarhús er elsta húsið  í hverfinu, upprunanlega frá 1895, en eldra hús er þar stóð var rifið. Eftir 1900 bjó þar Vigfús Halldórsson  frá Simbakoti. Síðan Guðlaugur Eggertsson (Laugi Eggerts) formaður slysavarnardeildarinnar Bjargar. Gestur Sigfússon (Gestur í Frambæ) og Helga Jónsdóttir frá Stokkseyri. Dóttir hennar 17 ára, Kristín Sigurjónsdóttir lést í bílslysi á Eyrarbakka 1941.

 

Eyri byggði Sigurður Gíslason, en síðan bjó þar Guðfinnur Þórarinsson formaður og Rannveig kona hans. Guðfinnur fórst með vélbát sínum og allri áhöfn 1927   en húsið hefur haldist í ætt þeirra.

 

Á Tjörn bjuggu um hríð Bjarni Eggertsson búfræðingur og kona hans Hólmfríður Jónsdóttir, en síðan dóttir þeirra, Aðalheiður Bjarnadóttir og Anton Halldór Valgeirsson. Um tíma bjó í þessu húsi Guðmundur Daníelsson rithöfundur og skólastjóri ásamt konu sinni Sigríði Arinbjarnadóttur.

Á Þorvaldseyri bjuggu Ólafur E Bjarnason vegaverkstjóri og Jenný Jensdóttir. Þau áttu 12 börn og þótti það jafnvel í meiralagi á þessum árum. 

 

10.05.2016 23:35

Staldrað við á Austurbakkanum 1.

Hópið og Steinskotsbæir eru áberandi kennileiti á Háeyrarvöllunum. Hópið, fornt sjávarlón, sennilega hluti af sömu láginni og Háeyrarlónið. Háeyrará rann úr því áður fyr til sjávar á þeim slóðum sem Barnaskólinn stendur nú. Hópið var eitt aðal leiksvæði barna í hverfinu og nýttu það til siglinga á allskyns fleytum, en á vetrum aðal skautasvell þeirra Austubekkinga. Nú er Hópið næsta þurt mestan part ársins.

Steinskot, var fyrsta hjáleiga Háeyrar og tvíbýlt. Torfkofar eða fjárhúsin sem stóðu innan garðshleðslunar eru nú löngu horfin. Síðustu ábúendur í vestari bænum voru Guðmundur Jónsson, Sigurðssonar frá Neistakoti og Ragnheiður Sigurðardóttir.  Þarna fæddist Guðni Jónsson sonur þeirra, og fyrsti formaður V.lf. Bárunnar. Guðni var stór vexti og mikill á velli. Hann var sagður sterkur með eindæmum á sínum yngri árum og hlaut þá viðurnefnið Guðni- Sterki. Ein sagan segir að hann hafi oft lyft fullri lagertunnu upp á brjóst sér og síðan brugðið neglunni úr með tönnunum og drukkið af eins og um hálf anker væri að ræða. Margir sáu hann einnig tæma fulla brennivínsflösku í einum teig. Guðni var hinsvegar stilltur mjög og gæfur svo eftirtekt vakti. Hann var lengi vinnumaður hjá Andrési Ásgrímssyni en stundaði einnig sjósókn og var formaður á róðrabát og þótti sókndjarfur og aflasæll.Vestri bærinn er nú gistihús.

Í Eystri bænum bjó samtíða þeim  Águstínus Daníelsson eða Gústi vagnstjóri og Ingileif Eyjólfsdóttir. Águstínus stundaði vöruflutning á hestvagni. Ein saga segir að einhvern tímann fyrir langa löngu komu menn frá heilbrigðiseftirlitinu til þess að ransaka vatn í brunnum þorpsbúa og reyndist það misjafnlega, til dæmis í Steinskoti, en þar var vatnið talið ónothæft og jafnvel eitrað. Þá sagði Ágústínus (Gústi í austurbænum) það er nú varla bráðdrepandi því hún hefur drukkið vatnið í yfir 90 ár og benti á Guðbjörgu húsfreyju í vesturbænum og hafði hann greinilega ekki mikið álit á mælingum embættismanna.-

Síðar tók við búi sonur þeirra Eyjólfur, ávallt nefndur Eyfi í Steinskoti, maður þéttur á velli og gekk alltaf í gúmmiskóm og oft með hjólið sitt í taumi. Í þá tíð þurftu menn stundum Eyfa heim að sækja er skemtun stóð fyrir dyrum. Hann átti þá gjarnan eitthvað til að létta lundina. Frá Eystri bænum hefur verið stunduð hestamennska hin síðari ár.

Rétt austan Hópsins er vinnuhælið Litlahraun, en það átti upphaflega að verða sjúkrahús, og þar var áður fjárrétt sem hét "Fæla" og þótti þar reimt. Hjáleigan Litla-Hraun var þar fyrrum og þar bjó Eyjólfur-Sterki Símonarson frá Simbakoti, sá er lyfti upp björgum og glímdi við blámanninn, og líklega er "Veðmálsglíman" frægasta glíma Íslandssögunnar, en um hana hafa spunnist fjölmargar þjóðsögur undir ýmsum nöfnum. 

Fyrir sunnan Hóp standa kotin Ós og Bjarghús, og sunnan við þau stóð tómthús er Grímstaðir hét. Þekktust búenda á Grímsstöðum voru t.d. Bergur dáti og Toggi í Réttinni, en bærinn var stundum nefnt "Réttin" eftir fjárrétt sem þar var. Á Ósi bjuggu eitt sinn þau Sveinn Sveinsson, sjómaður frá Simbakoti og Ingunn Sigurðardóttir. Þar fæddist dóttir þeirra Þórunn, síðar söguleg persóna í Vestmannaeyjum. Í Bjarghúsum bjuggu Runólfur Eiríksson og Elín Ólafsdóttir ættforeldrar margra Vestur-íslendinga. Þekktastur búenda í Bjarghúsum á síðari tímum var óneitanlega Sigurgeir Sigurðsson sjómaður, kallaður "Geiri biskup".  Vestan við Hópið er samnefndur bær "Hóp" bjó þar Sigurður Ingvarsson vörubifreiðarstjóri og Guðbjörg Þorgrímsdóttir frá Grímsstöðum, en síðast bjó þar sonur þeirra Gísli á Hópi, kallaður.


03.05.2016 23:47

Staldrað við í Hraunshverfi

Horn heitir þessi tóft í Hraunshverfi og stendur vestan við Gamla-Hraun á vesturhluta túnsins. Tóftin sem og aðrar í nágreninu minna á að á þessum slóðum var nokkur byggð svokallaðra "Tómthúsa" en þar bjó svo nefnt tómthúsfólk fyr á tímum. Þessir torfkofar voru jafnan byggðir af vanefnum og þóttu litlar gersemar á þeim tíma og lengi síðar, og hafa fáar varðveist. Þessar tóftir í Hraunshverfi minna á merkilega sögu, og þó svo húsin þættu ekki merkileg báru þau sum skondin nöfn, eins og: Horn, Fok, Salthóll, Stéttar, og Folaldið. Mörg bæjarnöfn í Hraunslandi má finna í ritinu Örnefni á Eyrarbakka og Eyrarbakki.is. Áf þessum söguslóðum er sennilega frægust sagan um "Skerflóðs-Móra" úr bókinni "Saga Hraunshverfis"  og þar má líka læra um líf þessa fólks er þarna bjó. Frægust persóna frá þessari byggð er eflaust kvenskörungurinn og sjókonan Þuríður formaður Einarsdóttir, en hún var fædd og ólst upp á Stéttum. Af bókunum "Saga Eyrarbakka" og "Austantórum" má einig  að miklu leiti setja sig inn í líf og störf fólksins er Hraunshverfi byggði. Þessar tóftir tilheyra landi Gamla-Hrauns vestra og hafa ábúendur þar í hyggju að byggja þær upp og gera að safni og þannig veita nútímafólki innsýn í forna lífshætti.

 

 [Tómthúsfólk, eða Þurrabúðarmenn var  sá hópur landlausra húsmanna kallaður sem áttu lítið annað en hróflatildrið sem það hlóð úr grjóti og torfi með leyfi landeigenda. Voru oft daglaunamenn, réðust undir árar á vertíð og heyskapar að sumri. Aðrir óvinnufærir drógu fram lífið á sveitarstyrk. Í Hraunshverfi árið 1755 bjuggu við tómthús, Jón Jónsson smiður kona hans og fjögur börn. Jón dauði svokallaður bjó þar í tómthúsi með konu og tvö börn. Þá voru þeir Bauga-Guðmundur og Páll Hafliðason taldir letingjar mestir hér um slóðir. Síðasti tómthúsmaðurinn á Bakknanum var Berþór Jónsson (1875-1952) eða Bergur dáti eins og hann var kallaður, en hann bjó að Grímsstöðum  í Háeyrarhverfi.]

 

Það má að mestu leiti þakka Guðna Jónssyni frá Gamla-Hrauni að saga þessa byggðar hafi ekki horfið með fólkinu sem það byggði. Eitt ritverk Guðna sem geyma m.a. heimildir þessa tíma er "Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka  og kom út 1958 en þar eru raktar ættir Guðna og allar þær ættarsögur sem sem geimst höfðu í minnum fólks.

 

Ábúendatal:

Hraunshverfi tiheyrði landi Stóra-Hrauns, (Jörðin var áður undir Framnesi, þá er síðar hét Hraun) en hún var setin sem hér segir frá 1546:

Oddur Grímsson 1546-1562

Oddur Oddson lögréttumaður til 1581 (Síðar á Seltjarnarnesi)

Þórhallur Oddsson um 1600

Katrín á Hrauni Þormóðsdóttir til 1656. (Maður hennar var Magnús Gíslason en hún talinn ekkja. Katrín gerði út skip eftir mann sinn, en það fórst með 11 mönnum árið 1640)

Benedikt Þorleifsson Skálholtsráðsmaður til 1681. (Þá Stóljörð Skálholts)

Helga Benediktsdóttir til 1708 (Maður hennar var sr.Þorlákur Bjarnason að Sokkseyri en hún hér ekkja)

Þorlákur lögréttumaður Bergsson (bróðurbarn Helgu) og Guðný Þórðardóttir til 1707.

Sigurður Bergsson, bróðir Þorláks á sama tíma. Guðný þá ekkja til 1712.

Brynjólfur Þórðarson lögréttumaður og Guðný Þórðardóttir til 1730 (Síðari maður hennar)

Jón Þorláksson Bergsonar til 1735.

Magnús Þórðarson (Hjáleigumaður) og Ingveldur Bjarnadóttir til 1755.

Brynjólfur sýslumaður Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir 1740 til 1746. Ekki er víst að þau hafi setið mikið á jörðinni á þessum árum, en hjáleigjendur líklega haft samtíða, þá Filippus Gunnlaugsson, Björn Pálsson og Þorsteinn Pétursson.

Þórður Gunnarsson og Guðríður Pétursdóttir 1759 til 1773.

Steindór Finnsson biskups og Guðríður Gísladóttir til 1780.

Upp úr aldamótunum 1800 urðu til margar hjáleigur á jörðinni og ekki hægt að henda reiður á hverjir sátu á höfuðbóli og hverjir í hjáleigum þessa öld.

(Magnús Bjarnason og Halla Filippusdóttir til 1815. Keyptu jörðina 1788, en sátu þar fyrst til 1801 og svo tvö síðustu árin. Annars á Ásgautsstöðum. Magnús seldi Gamlahraun frá jörðinni ásamt Salthóli 1807. Afgangi jarðarinnar var síðan skipt milli erfingja 1815 og var seinni konu Magnúsar, Þóru Magnúsdóttir ánafnað Litla Hrauni, er hún sat til 1818 þá ekkja og seldi síðan kameráðinu- Þórði Guðmundsyni sýslumanni.)

Jón Snorrason 1801 til 1815, líklega hjáleigjandi. (Síðar á Ásgautsstöðum.)

Þórður Thorlacius sýslumaður 1813 til 1819. Líklega aðeins á hluta jarðarinnar.

Kristófer Jónsson 1818 til 1822. Líklega hjáleigjandi

Þuríður formaður Einarsdóttir frá stéttum 1821, líklega þar í rúmt ár í Kristofersbæ. (Fyrr í Götu og síðar í Grímsfjósum og víðar)

Jón Kambránsmaður Geirmundsson til 1823 (eitt ár í Kristofersbæ) Hann stundaði áður verslun í Noðurkoti sem nefnd var "Skánkaveldi" (Seldi reyktar hrossalappir)

Stefán Jónsson sjómaður og Hildur Magnúsdóttir garðyrkjukona frá 1823 til 1832. (Hildur þá ekkja, líklega hjáleigendur. Árið 1828 8. apríl. Á Stokkseyrarsundi fórst róðraskip Jóns Jónssonar á Gamla-Hrauni með 10 mönnum. (Þ.a.m. var Ingimundur Grímsson frá Háeyri og Stefán Jónsson á Stóra-Hrauni).)

[1826 3. júní. Róðraskip fórst af Eyrarbakka. 4 menn drukkna.(m.a. Rafnkell Hannesson á Litla-hrauni og vinnumaður þar Guðmundur Jónsson]

Jón drejari Jónssonar sýslumanns og Steinun Arngrímsdóttir 1831 (Líklega hjáleigjendur)

Jón Bjarnason 1832 (tók við af Hildi og var í eitt ár)

Þorleifur Kolbeinsson 1833 til 1841 (Líklega hjáleigjandi, var síðar á Háeyri)

Eiríkur Guðmundsson samtíða Þorleifi.

Sigurður stútendt Sívertsen og Halla Jónsdóttir 1841 til 1864 (Halla var áður kona Jóns Kambránsmanns Geirmundssonar)

Kristján Jónsson og Salgerður Einarsdóttir (Systir Þuríðar formanns) 1844 (eitt ár og líklega hjáleigjendur)

Bjarni Magnússon og Guðbjörg Jónsdóttir kambránsmanns Geirmundssonar 1848 til 1857.

Þórarinn Árnason jarðyrkjumaður og Ingunn Magnúsdóttir alþingismanns Andréssonar 1864 til 1866. (Var þá jarðbaðstofan á Stóra-Hrauni endurbætt veglega.) Og Ingunn ekkja til 1868.(Ingunn flutti síðan til Reykjavíkur og hafði umsjá með geðsjúkling á heimili sínu (Jón Blöndal) sem læknaðist í vistinni, lærði trésmíði og flutti svo til Ameríku.)

Ari Símonarson frá Gamla Hrauni 1868 til 1890.

[1891 25. mars. Fórst skip Sigurðar Grímssonar (meðhjálpara, frá Borg í Hraunshverfi) við brimboða á Músarsundi við Stokkseyri með allri áhöfn, 9 mönnum. (Stokkseyrarformenn treystust ekki til að reyna björgun og fengu átölur fyrir).]

Gísli Gíslason hreppstjóri og Halldóra Jónsdóttir 1868-1893.

sr. Ólafur Helgason og Krístín Ísleifsdóttir frá Keldum. 1893 til 1904.

Krístín ekkja Ísleifsdóttir og sr. Gísli Skúlason til 1910. Síðan þar í nafni Gísla til 1915 er þau sleppa ábúðinni, en hafa búsetu þar til þau flytja í "Prestshúsið" í Einarshafnarhverfi 1938.

Árni Tómasson og Magnea Einarsdóttir til 1920.

Hálfdán Ólafsonar prests Helgasonar til 1928.

Þá verður jörðin ríkiseign og fellur undir fangelsið Litla-Hraun, en eins og fram kemur hafði stórjörðin skipst í nokkra hluta upp  úr aldamótunum 1800. (Stóra-Hraun, Litla-Hraun, Salthól, Gamla-Hraun og Borg)

 

Heimild: http://eyrbekkingur.blogspot.is/2011/03/abuendur-jara-eyrarbakka.html  http://eyrbekkingur.blogspot.is/2011_03_01_archive.html

Flettingar í dag: 415
Gestir í dag: 131
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260705
Samtals gestir: 33758
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:23:57