Flokkur: vísur

03.11.2021 22:11

Félagsmenn vildu kæfa alla sundrung


Eftir að sjómannafélags Báran var stofnuð í Reykjavík 1896 af Ottó N Þorlákssyni og fleiri skútukörlum lá leið þeirra út á land að stofna fleiri Bárufélög. Eitt þeirra var Báran á Eyrarbakka stofnað 16. febrúar 1904. Ekki höfðu margir trú á þessu fyrirtæki í fyrstunni, en góð forysta dró fljótlega til sín flesta vinnandi menn á Bakkanum. Þeir sem stóðu í brúnni á bernskuárum félagsins voru helst þessir: Sigurður Eiríksson stofnandi, Kristján Guðmundsson einn af stofnendum. Bjarni Eggertsson í 35 ár. Eggert Bjarnason um nokkurt skeið. Einar Jónsson um allnokkur ár. Sigurjón Valdimarsson. Andrés Jónsson. Kjartan Guðmundsson, Guðrún Thorarensen og Eiríkur Runólfsson svo einhverjir séu nefndir.
Á eins árs afmæli félagsins var þetta hátíðarljóð eftir Helga Jónsson í Bráðræði sungið:

Hér í kvöld við höldum
hátíð - Báruminni!
Létt nú lífið tökum -
Leikum dátt - til gamans.
Lipran dans nú stigi fögru fljóðin -
Fram með kæti! Syngið gleði óðinn.
Hristum af oss hverstags ryk og drunga.
Heill sé þér vort Bárufélag unga.

Áragömul nú ertu.
Æskan við þér brosir.
-" Mjór er mikils vísir" -
má vel um þig segja.
Í fyrra vildu fáir við þér líta,
en flestir vilja tryggð nú við þér hnýta.
Fram til starfa! Hátt skal hefja merki,
hygg að sönnu, gakk nú djörf að verki.

Báran okkar blómgist,
bræðralag hún styðji,
svæfi alla sundrung,
saman krafta tengi.
Efldu þrótt, - og auktu góðan vilja.
Afl vort sjálfra kenndu oss rétt að skilja.
Lifðu heil og lengi kæra Bára,
lukkan styðji þig til margra ára.

Myndin hér að ofan er samkomuhúsið Fjölnir  sem Bárufélagar, templarar og ungmennafélagið reistu. 

20.01.2015 01:29

Bergsteinn kraftaskáld

Bergsteinn blindi Þorvaldsson var kallaður kraftaskáld, og heldur en ekki þótti honum góður sopinn. Eitt sinn var það, að hann kom í búðina á Eyrarbakka og bað kaupmanninn að gefa sér í staupinu. Kaupmaður tók því fjarri, því að hann væri alveg brennivínslaus. Kvað hann andskotann mega eiga þann dropann, sem hann ætti eftir af brennivíni. Ekki lagði Bergsteinn mikinn trúnað á það og kvað vísu þessa við búðarborðið:

Eg krefst þess af þér,

sem kaupmaðurinn gaf þér,

þinn kölski og fjandi

í ámuna farðu óstjórnandi

og af henni sviptu hverju bandi.

Brá þá svo við, að braka tók heldur óþyrmilega í brennivínstunnu kaupmanns, svo að við var búið að bresta mundu af henni öll bönd. Þorði kaupmaður þá ekki annað en gefa Bergsteini neðan í því og varð feginn að sleppa, áður en verra yrði úr.

Sagt er, að þau yrðu æfilok flökkuskáldsins Bergsteins blinda, að hann kvæði sig sjálfur drukkinn í hel eftir boði annarra, og hafi hann þá verið æfa gamall. En með vissu vita menn það um endalykt Bergsteins, að hann dó á Eyrarbakka út úr drykkjuskap 17. júlí 1635, og þótti þá svo ískyggilegt um dauða hans, að hann fékk ekki kirkjuleg, heldur var hann grafinn utan kirkjugarðs á Stokkseyri. Getur Gísli biskup Oddsson þess í bréfabók sinni, að ekkja Bergsteins hafi "klagað sárlega" fyrir sér, að maður sinn lægi utan garðs, og hafi "séra Oddur Stephánsson helst gengist fyrir því, að hann skyldi ekki innan kirkjugarðs grafinn vera".

(Eftir Jóni Þorkelssyni)

19.10.2013 21:13

Gönguljóð U.M.F.E

Frjálsan, léttan, fagran dans

fram á sléttan völl,

sterklega við stígum;

stynja grundir, fjöll.

 

Viðlag:

Bylur bára við sand,

blika ránar tjöld.

Allan taka Eyrarbakka,

æskunnar völd.

 

Stigu áður álfar dans,

undir kváðu ljóð.

Nú eru vikivakar

að vinna okkar þjóð.

Bylur bára við sand o, s. frv....

 

Glatt, er oft í góðri sveit,

glymur loft af söng. : ,

Tökum allir undir,

Íslands kvæðaföng.

Bylur bára við sand o. s. frv...

 

Fagurt æsku félagslíf,.

frjálst og græskulaust,

hæfir svanna og sveini,

sem eru glöð og hraust.

Bylur bára við sand o., s. frv...

 

Stígum fram og strengjum heit

stokkinn ramma á:

Að við skulum alla :

okkar krafta ljá .

      (viðlag:) "

vorri vaxandi þjóð,

verja okkar land,

Eyrarbakka yrkja og græða

ógróinn sand.

Ókunnur höf. Ort í Fjölni 1929. 


27.03.2012 23:15

Formannavísur

Guðfinnur Þórarinsson,(1867-1927) formaður af Eyrarbakka var sægarpur mikill. Bjó hann að Eyri.
Mótorskip hans "Sæfari" er áður hét "Framtíðin" fórst á Bússusundi 25.apríl 1927 með allri áhöfn.
Eftirfarandi vísa og þær sem á eftir koma voru samdar fyrir árið1916.

Stýrir flausti fengsamur.

fjarðar-roða-eiðir,

gætinn, hraustur Guðfinnur,

gegnum boðaleiðir.

Lætur þreyta "Fálkann" flug

flóðs um reiti kalda,

drengja sveitin sýnir dug,

sær þótt bleyti falda 

Ívar Geirsson, af Eyrarbakka: Bjó hann í Sölkutóft og réri fyrir Eyrarbakkaverslun.

Kafteinn ör á öldujó

Ívar Geiri borinn,

æ með fjöri sækir sjó,

seigur, eirinn, þorinn.

"Vonin" flýtur ferða-trygg,

- faldar hvítu boðinn -

sundur brýtur báru-hrygg,

byrjar nýtur gnoðin.

 
Jóhann Guðmundsson (f.1872), frá Gamla-Hrauni:

Jóhann eigi hefur hátt,
Hrönn þótt veginn grafi,
hleður fleyið fiski þrátt,
fram á regin-hafi.
Lætur skeiða "Svaninn" sinn
sels- um breiða móa,
hefur leiði út og inn,
oft með veiði nóga
.

 

Jón Jónsson, frá Norðurkoti á Eyrarbakka:

Jón við Norður- kendur kot,
kappa forðum jafninn,
ljet úr skorðum skríða á flot
skötu-storðar-hrafninn.
"Færsæl" hleypir hnýsu tún,
hjálmunvalar gætir,
ærið gneypur undir brún,
Unn þá fjalir vætir.

 

Jón Sigurðsson, af Eyrarbakka: Bjó hann að Neistakoti, en síðar að Steinskoti.

Heldur geyst um síla-svið
súða-teistu á floti,
jafn að hreysti og jöfrasið
Jón frá Neistakoti.
"Marvagn" hleður hetja kná,
- hlakkar voð í gjósti.
Syngja veður svignar rá,
sýður froða á brjósti.

 

Kristinn Þórarinsson, af Eyrarbakka.Hann var frá Neistakoti. Féll útbyrðis af vélbáti 1917 og druknaði.

Einn er Kristinn aflakló

af álma-kvistum haldinn,

kjark ei misti kempan, þó

Kári hristi faldinn.

"Margrjet" hryndir hart á mið

Hljes- und strindi breiða

Hamist vindur, hugað lið

herðir í skyndi reiða.

Heimild: Ægir 2 tbl.1916

24.03.2012 22:02

HÁEYRARDRÁPA

Guðmundur Ísleifsson á HáeyriVeturinn 1910 var umræða manna á meðal um að danskur skipstjóri hefði  fengið heiðurspening úr gulli frá konunginum fyrir það, að bjarga tveimur strákhvolpum upp úr sjónum inni á höfn hér við land, en Guðmundur gamli á Háeyri - hann fengi ekki neitt fyrir sín afreksverk. þá var þetta kveðið:



 

Guðmundur heitir

garpurinn frægi

úti á gamla

Eyrar-bakka.

Ef hans er kuggur

kyrr í lægi,

þorir enginn

við Unnir makka.

 

Guðmundar eru' ei

gelur viltar:

Á miðjum degi

dimmir á Bakka..

Kallar hann þá:

"Komið, piltar,

verið fljótir

í verstakka".

 

Segl hann þenur

og sjónhending

hleypir þráðbeina

til Þorlákshafnar.

Þar er í stormum

þrauta-lending,

víkin aðdjúp

og varir jafnar.

 

Vaskra formanna

foringi er hann,

þeirra er ýta

frá Eyrar-bakka.

Eins og höfðingi

af þeim ber hann.

Fjölmargir honum

fjör sitt þakka.

 

Segir hann hvast

við sveina horska:

"Við förum eigi

færi að greiða;

í dag á ekki

að draga þorska;

nú skal á mið

til mannveiða".

 

Formenn tuttugu

fara á eftir,

eins og svani

ungar fylgja,

hreppa lendingu

hart að kreptir.

Sleppifeng

varð fár-bylgja

 

Helblind eru sker

og hár hver boði

úti fyrir

Eyrar-bakka.

Þegar sjó brimar

er búinn voði,

ef lagt er fleyi

leið skakka.

 

Teinæringinn

út hann setur.

Byrstast hvítar

brúnir á Ægi.

Guðmundur öllum

öðrum betur

kann í sundum

að sæta lagi.

 

Ef þið komið

á Eyrar-bakka,

kvikur er enn

í karli dreyri.

En leitið ekki

um lága slakka.

Hetjan býr

á Há-eyri.

 

Það var á vetrarvertíð

einni,

árdagur fagur

og útlitsgóður;

vermönnum þótti

venju seinni

Guðmundur til,

að greiða róður.

 

Skamt fyrir utan

sker og boða

tuttugu ferjur

fljóta' á bárum,

ætla sjer búinn

beinan voða,

fáráðar, líkt og

fuglar í sárum.

 

Manna er hann

mestur á velli,

herði-breiður

og brúna-þungur,

kominn langt

á leið til elli,

sifelt þó

í sinni ungur.

 

Hann í allar

áttir starir,

snýr svo breiðu

baki að sandi:

"Einráðir skuluð

um ykkar farir,

en jeg mun í dag

drolla í Iandi"

 

En þegar gamla

garpinn sjá þeir

renna skeið

úr skerja-greipum,

kviknar hugur,

krafta fá þeir,

óhræddir fyrir

öðru en sneypum.

 

Engin hlýtur hann

heiðurs-merkin,

en færið karli

kvæði þetta.

Veit jeg að fyrir

frægðar-verkin

honum mun Saga

sæmdir rjetta.

 

Hjala vermenn:

"Ei var hann bleyða,

en nú er gengið

garpi hraustum".

Bjart var loft

og ládeyða.

Skipin, tuttugu,

skriðu' úr naustum.

 

Aldrei gerast

orðmargar

hetju-ræður,

en hnífi jafnar:

"Við Eyrar er boði,

sem bleyðum fargar,

stefnum því

til Þorlákshafnar".

 

Góður var fengur

Guðmundar,

er fleyin úr voða

færði að sandi.

Skal því honum

til skapa-stundar

hróður vís

á voru landi.

            Gestur.


Guðmundur Ísleifsson í sjóklæðumGuðmundur ísleifsson á Háeyri var fæddur 17. janúar 1850 á Suður-Götum í Mýrdal og ólst upp í fátækt. Hann réðist ungur vinnumaður til Guðmundar Thorgrimsens á Eyrarbakka. Skömmu síðar fór hann að Háeyri og kvæntist þar Sigríði dóttur Þorleifs heitins ríka. Guðmund'ur byrjaði snemma formensku og umbreylti þá bátaútvegi og sjómensku á Eyrarbakka. Sjálfur var hann ágætis formaður og fiskisæll og gengu mikiar sögur héðan af sjósókn hans og formensku fyr á árum, en fæstar þó ratað á blað. Kaupmaður var Guðmundur um eitt skeið; varð verslun hans gjaldþrota. Konungsverðlaun hlaut hann eitt sinn og tvívegis verðlaun úr Ræktunarsjóði. Að Háeyri gerði hann mjög miklar jarðabætur, girt, grafið skurði og aukið matjurtagarða.

Heimild: Tímaritið Óðinn 8. árgangur 1912-1913, 6. tölublað, Blaðsíða 44.

09.11.2011 23:01

Vertíðin 1915

Frá Eyrarbakka voru 10 bátar gerðir út en 17 á Stokkseyri en allnokkrir Eyrbekkingar gerðu út báta frá Þorlákshöfn og verða þeir taldir hér síðar. Formenn á Eyrarbakka vertíðina 1915 voru þessir; Árni Helgason í Akri með motorbát, Guðjón Jónsson á Litlu Háeyri með áraskip Guðm. Ísleifsson á Stóru Háeyri með áraskip, Haraldur Jónsson á Stóru-Háeyri með áraskip  Jón Bjarnason í Eyfakoti með áraskip, Jón Einarsson í Mundakoti með áraskip, Jón Jakopsson í Einarshöfn með áraskip, Loftur Jónsson í Sölkutóft með mótorbát, Magnús Arnason á Búðarstíg með áraskip, Sigurður Gíslason í Suðurgötu með mótorbát.

Öll áraskipin á Eyrarbakka voru tíróin á þessum tíma. Aflanum af vélabátunum var skift í 2 parta, fékk Þá sinn helminginn hver útgerðarmaður bátsins, og hásetar, sem allir áttu hlut sinn sjálfir, en mótorbátarnir öfluðu jafnan meira en áraskipin. Á mótorbátunum voru 7-8 menn en 12-13 menn á áraskipunum. Fyrst var róið á vertíðina með línur, sem voru svo notaðar jöfnum höndum með netum. - í byrjun febrúar aflaðist ekkert nema lítið af smárri Guðmundur Ísleifssonýsu. Net voru lögð 14. s. m. og aflaðist þá dálítið. Annars mjög lítill afli yfir höfuð allan mánuðinn. Heidarafli vertíðarinnar 2.febr.-11. maí voru 26.589 þorskar, 6.707 ýsur og 175 ufsar. Annar slæðingur svo sem hnísur ótalið. Aflahæstir á vertíðinni var Árni Helgason með 6.315 fiska og Loftur Jónsson með 5.925 fiska

Eyrbekkingar sem gerðu út í Þorlákshöfn voru þessir: Guðfinnur Þórarinsson, Eyrarbakka, Ívar Geirsson, Eyrarbakka. Jón Jónsson, (Norðurkoti) Eyrarbakka. Jón Jónsson, Skúmstöðum. Jón Helgason, Eyrarbakka. Jón Sigurðsson, Eyrarbakka. Jón Stefánsson (Brennu) Eyrarbakka. Jóhann Gíslason, Hofi. Jóhann Guðmundsson. Kristinn Þórarinsson, Eyrarbakka. Sigurður Isleifsson, Eyrarbakka. Tómas Vigfússon, Eyrarbakka. Þórarinn Einarsson, Eyrarbakka.


Formannsvísur 1915

Eyrarbakki: a. Róðrarskip.

Guðm. ísleifsson, Stóru Háeyri.

Guðmund arfa ísleifs má
oft á karfa hlöðnum sjá,
hönd með djarfa, hár með grá,
Hlés ber starfið gott skyn á.
                              
Úlfur.

Lætur flakka formaður
fokku-rakka ótrauður,
eiðir stakka alkunnur,
austur- »Bakka« víkingur.

Þótt að hára hvítni krans,
hlýðir »Ársæll« boði manns,
enn þá knár við Drafnar-dans,
drengur fár er maki hans.

Guðjón Jónsson, Litlu-Háeyri.

Guðjón sjáinn ýtir á
oft, þó láin rjúki blá,
hræðast má ei maður sá
marar fláu öskrin há.

Drafnar-ála kannar knör,
klýfur þjála Ægis-skör,
Hönd úr stáli heim í vör
honum »Njáli« beinir för.

Heimild: Guðm. Ísleifss./Ægir 1915

29.10.2011 23:04

"Best verður að fara til Brasilíu"

Þetta var viðkvæði á Eyrarbakka fyrir hart nær 150 árum en það átti þó eftir að breytast.

Maður er nefndur "William Wickmann, danskur að ætt. Hafði hann dvalið um 10 ár á Íslandi sem Washington Island Town Governmentverslunarþjónn, fyrst í Reykjavík og síðan í Hafnarfirði og á Eyrarbakka. Um haustið 1865 fór hann af íslandi áleiðis til Bandaríkjanna, og lenti hann í Milwaukee í Wisconsin-ríki. Hann átti þar ættingja, sem hann fór að vitja. "Wickmann þessi skrifaðist á við fyrrum húsbónda sinn, Guðmund. Tlhorgrimsen á Eyrarbakka  og lét hann í bréfum sínum vel yfir stöðu sinni i hinum nýja heimi. Hrósaði mjög landkostum, og meðal annars áleit hann að fiskurinn i Michigan-vatninu væri stór og óþrjótandi gullkista, sem ýmsar þjóðir ysu úr, og að Islendingar mundu hafa sama rétt og aðrir að seilast ofan í kistuna og fá sinn hlut. Vera kann nú, að Wickmann hafi séð björtu hliðina á sínu nýja heimkynni, og eins og ungum mönnum oft er hætt við, ekki gáð að skuggahliðinni, og þessvegna lofað landið, ef til vill um of. En bréf Williams til Guðmundar Thorgrímssens á Eyrarbakka varð öðrum hvatning til að feta í fótspor hans.

Árið 1870, þann 12. dag maímánaðar, fóru af Eyrarbakka þrír ungir menn til Vesturheims, voru þeir: Jón Gíslason (f.12.12.1849 í Kálfholti í Holtasveit) búðarsveinn við Lefolii-verslun, Guðmundur Guðmundsson (f .8.7.1840 á Litla-Hrauni) formaður á Eyrarbakka og Árni Guðmundsson ( fæddur að Gamlahliði á Álftanesi 24. október 1845.), vinnumaður hjá G. Thorgrímssen  en Jón Einarsson bættist við hópinn í Reykjavík. Hinn fyrst nefndi var forsprakkinn, og lánaði hann hinum tveimur síðast nefndu fé til fararinnar, en Guðmundur fór upp á sínar eigin spítur. Jón hafði tekið arf eftir föður sinn, sem hann hafði óskertan, svo hann stóð betur að vigi en flestir aðrir i þessari byggð til að fara af landi burt, og kom arfurinn honum nú að góðu haldi, og einnig þeim sem slógust í förina með honum.

Jón GíslasonHinn 12. maí lögðu þeir félagar á stað frá Eyrarbakka landveg til Reykjavíkur, og eftir fárra daga dvöl í höfuðborginni tóku þeir sér far með póstskipinu "Díana" til Kaupmannahafnar. Á meðan þeir stóðu við í Reykjavik, reyndu ýmsir að telja þá af að leggja út í þessa glæfraför. Einn var meira að segja fullvissaður um, að ef hann færi vestur, yrði hann étinn upp með húð og hári, en ef ske kynni að hann ekki lenti þar sem mannæturnar héldu til, yrði hann gerður að þræli-svertingja líkast til? En þeir  félagar héldu sinu striki og töku sér far með ,,Diönu", eins og áður er sagt, til höfuðstaðar Danmerkur. Skipið kom við í Færeyjum og Shetlandseyjum, og að endingu lagðist það við festar í Kaupmannahöfn. Þeir félagar stóðu þar við í 4 daga, og notuðu tímann til að hitta ýmsa landa sína þar og skoða hið markverðasta í þeirri fögru borg. Hinn 3. júni lögðu þeir á stað með gufuskipinu "Pacific" til Hull, og eftir að þar var lent, fóru þeir með járnbraut tíl Liverpool. Frá Liverpool fóru þeir á Allanlínu- skipinu "Austrian". Þeir fengu harða og langa útivist-sífelda storma af austri, og var sjógangurinn gríðarlegur, farþegar og farangur kastaðist til og frá í skipinu; tóku þá Eyrbekkingarnir það ráð, að skorða sig milli bekkja niður í skipinu og spiluðu  Vist  dag eftir dag sér til dægrastyttingar. Þeir lentu í Quebec 18. eða 19. júní. Þaðan fóru þeir áleiðis til Milwaukee, en höfðu svo miklar tafir á leiðinni, eins og títt er með vörulestum Guðmundur(freight trains) að þeir komu ekki til Milwaukee fyrr en þann 27. s. mán. Farbréf fyrir hvern kostaði 94 ríkisdali ríkismyntar frá Kaupmannahöfn til Milwaukee. Dvöldu þeir um tíma í Milwatrkee, en Jón fór um haustið til Washington Island og keypti þar land í félagi við William Wickmann, sem áður er getið. Létu þeir félagar þá höggva skóg á landi sínu, og bygðu-útskipunar bryggju o.fl.  Árið 1873 skiptu þeir eignum sínum, og fékk þá Jón mest af landinu, með húsum, en Wickmann bryggjuna, ásamt nokkrum ekrum af landinu. Jón giftist 1877 Ágústu dóttir Einars kaupmanns Bjarnasonar í Reykjavík. Jón setti upp verslun á Vashingtoneyju um það leiti.

Guðmundur var formaður á Bakkanum frá því hann var 19 ára gamall þangað til hann fór af landi burt vorið 1870. Hann réði sig til fiskimanna frá Milwaukee sumarlangt, en fór um haustið til Washington Island og stundaði þaðan fiskveiðar. Hann kvæntist 1875, Guðrúnu Ingvarsdóttir frá Mundakoti.

Móðir Guðmundar "Málfríður Kolbeinsdóttir" var hagyrt og hefur varðveist ein vísa eftir hana, sem er svo hljóðandi.

Gísli, Þórður, Guðmundur,

Geir, Jón, Þorsteinn, Mangi,

Jóhannes, Stefán, Hróbjartur,

jafnt þar sjást á gangi,

 

Úr Stokkseyrar ýta vör

einhver fæst til bollinn,

allir þeir á einum knör,

út á Danapollinn."

                      MK

 

(Danapollur var í Stokkseyrarlending)

Árni GuðmundssonÁrni fór 18 ára gamall austur á Eyrarbakka; gerðist vinnumaður hjá G. Thorgrimsen og var hjá honum í 4 ár. Fór síðan til Reykjavíkur, og lærði þar trésmíði hjá Jóhannesi Jónssyni snikkara. Fór hann að því búnu aftur austur á Eyrarbakka, til Thorgrimsens, og var þar vinnumaður og búðarmaður þangað tiil um vorið 1870, að hann fór með þeim félögum til Ameríku. Var hann að fiskiveiðum um sumarið með félaga sínum Guðmundi Guðmundssyni, og fór það haust til Washington eyju. Árið 1880 flutti hann sig til Andabon County í lowa, og var þar i 2 ár við smíðar. Kom aftur til eyjarinnar, og dvaldi þar síðan en giftist ekki.

Jón (f.ca 1850) var um nokkur ár vinnumaöur og meðreiðarmaður dr. Hjaltalíns (var hann því stundum kallaður Jón Hjaltalín). Eftir að hann fór vestur, stundaði hann flskiveiðar, fyrst í Milwaukee og svo á Washington eynni.

Næstu árin fóru margir Íslendingar vestur til Washingtoneyjar og voru allmargir Eyrbekkingar á  meðal þeirra:

1872. Fóru 14 manns af Eyrarbakka; af þeim lentu flestir á eynni. Þrjár persónur af þeim voru þar enn árið 1900: Olafur Hannesson, sonur Hannesar Sigurðssonar og konuhans Guðrúnar Jónsdóttur á Litluháeyri á Eyrarbakka; Árni Guðraundsen, sonur Þórðar kameráðs Guðmundsen, sem lengi var sýslumaður í Arnessýslu, og konu hans Jóhönnu A. Knudsen; og Guðrún Ingvarsdóttir, sem giftist Guðm Guðmundssyni, eins og áður er getið. Hinir aðrir, sem lentu þar úr þessum hóp. voru: séra Hans Thorgrimsen; Dr. Arnabjarni Sveinbjörnsson; Þovkell Árnason frá Eiði á Seltjarnarnesi; og Olafuv Guðmundsson, frá Arnarbæli, en þeir fóru þaðan aftur eftir lengri eða skemri dvöl.

1873. Teitur Teitsson, hafnsögumaður af Eyrarbakka; var faðir hans TeiturHelgason, einnig búsettur á Eyrarbakka. Hann fór þaðan alfarinn 1887, og flutti til Manitoba.

1881. Björn Vernharðsson, ættaður af Eyrarbakka. Fór frá Íslandi til Milwaukee 1873; var þar þar til hann kom til Washingtoneyjar. Hann varr föðurbróðii Björns kaupmanns Kristjánssonar í Reykjavík. Sagðist Björn vera kominn í beinan ættlegg í móðurætt af Þangbrandi biskupi, en í föðurættaf Agli Skallagrímssyni.

1884, Hannes Jónsson af Eyrarbakka, sonur Jóns Jónssonar á Skúmstöðum i Rangárv.sýslu, og konu hans Ragnhildar Vernharðsdóttur. Sigurður Sigurðsson af Eyrarbakka, ættaður frá Skammadal í Mýrdal.

1885. Þórður læknir Guðmundsson, bróðir Árna, sem áður er nefndur -Kom 13. ágúst það ár. Hann dó snögglega 29. janúar 1899.

 

1886. Magnús Jónsson Þórhallasonar, af Eyrarbakka, en móðir Magnúsar var Þórunn Gísladóttir frá Gröf í V.Skaftafelssýslu.

1887. Jón Þorhallason, tiésmiður, faðir Magnúsar. af Eyrarbakka. Jón er ættaður frá Mörk á Síðu, sonur Þórhalls Runólfssonar, sem lengi bjó þar. Bárður Nikulásson, Bárðarsonar Jónssonar, af Eyrarbakka, ættaður úr Skaftártungu: var móðir hans Sigríður Sigurðardóttir, frá Hvammi, Arnasonar frá Hrísnesi.

 

1888. Þorgeir Einarsson, ættaður af Eyrarbakka. Kom til Milwaukee 1873, en dvaldi i Racine og Walworth Counties í 15 ár. Faðir hans, Einar Vigfússon fór með honum. (Sigurður Jónsson, Arnasonar Magnússonar Beinteinssonar, ættaður úr Þorlákshöfn. Móðir hans var Þórunn Sigurðardöttir frá Skúmstöðum í Landeyjum, og voru því foreldrar hans bræðrabörn. Kom til Minneapolis frá Kaupmannahöfn 1885).

 

Heimild: Almanak Ólafs  S. Thorgeirssonar 1900. http://brim.123.is/blog/record/425257/  http://brim.123.is/blog/2010/02/24/436646/

25.09.2011 21:33

Örebak gamle Faktorbolig


Húsið og skáldkonan:
 Hún hét Thit Jensen, systir Johannesar V. Jensens, hins mikla Danaskálds. Hún hafði verið unnusta Íslensks námsmanns i Kaupmannahöfn, en síðar slitnaði með þeim, en hún kom hingað á eftir honum og dvaldi tvö sumur I "Húsinu" á Eyrarbakka, 1904 og 1905. Þá orti hún um "Húsið" á Bakkanum, "örebak gamle Faktorbolig", og ibúa þess:

Gamle Specier i et gammelt Gemme, 
Skabe, Gulve fuld af dulgte Lemme,
en mystisk Mand sig engang hængte,
underlige Ting i Mængde.
Glimtvís vejrer man Tragedier,
brudstykvis af Livs-Komedier
- ingen ved, hvordan de endte.
Det er li'som man kan höre
Poesien sive fra Panel og Döre,
sagte Sange om den eminente
Gæstfridhed, som her er givet
- samt om mange underlige Ting i Livet 

Í ljóðinu talar hún um hina fornu hluti
sem leynast í gömlum geymslum. Um
skápa og gólf með huldum hirslum og
dularfullan mann sem sig eitt sinn
hengdi. Um gnótt undarlegra hluta.
Fegurð í harmleiknum sem brýst upp
í skoplegar hliðar lífsins og endalokin
sem engin þekkir. Það er bara eins og
 maður geti heyrt ljóðin seitla frá
veggjum  og dyrunum með stórkostlegum
söng tileinkað gesti hússins, sem
og hinum undarlegu  kynjum lífsins
 


Thit Jensen (Maria Kirstine Dorothea Jensen 1876-1957)  var fædd á heimili dýralæknis í Farso og var elsta barn í 12 manna systkynahóp. Sem ung stúlka var hún kölluð "Himmerlands skønhed" (himnesk fegurð). Um aldamótin 1900 flutti hún til Kaupmannahafnar til að skrifa um vandamál sinnar tíðar og gaf hún út mörg rit t.d. um kvenréttindamál, en auk þess hélt hún fyrirlestra. Einhverju sinni kallaði einn áheyrandinn og vitnaði í söguna um Adam og Evu og eplið, "og þar með olli kona fyrstu syndinni", en Thit svaraði um hæl, "Má vera, en þegar Adam hafði barnaði Evu, kom fyrsti kjáninn í heiminn". Thit Jensen fékk margar viðurkenningar fyrir skrif sín um ævina. Hún var gift 1912-1918 málaranum Gustav Fenger

Heimild: Tíminn 06.02.72- Wikipedia.

09.04.2011 16:35

Þokan

Gömul veðurspávísa úr Austantórum.

Þokubakkinn þegar færist nær,
þar að ströndu, er móti vestri liggur,
þá mun brimið brjótast fram og sær,
bráðlega ærast, fyrr en nokkur hyggur.

03.04.2011 00:29

Skankaveldi

Svo var fyrirtæki nefnt er stýrði Jón Geirmundsson í Norðurkoti á Eyrarbakka. Jón keypti aflóga húðjálka til slátrunar fyrir lítið sem ekkert og seldi síðan af þeim kjötið, en reyktar hrossalappirnar seldi hann fátækum fyrir slikk. Kölluðu gárungarnir því fyrirtæki þetta "Skankaveldi", en af þessu efnaðist hann nokkuð. Jón hafði reikning í Eyrarbakkaverslun er hann tók út á ýmsan búðarvarning og seldi svo dýrar á vetrum þegar vöruskortur gerði vart við sig eins og aðrir smáhönlarar þess tíma. Sumt af því sem var til sölu í "Skankaveldi" var talið illa fengið, en Jón var kenndur við þjófafélag nokkurt er í voru Snorri Geirmundsson lausamaður og Páll Hafliðason tómthúsmaður á Skúmstöðum, en þeir voru grunaðir um að sækja sér varning í verslunina að næturlagi.

Fyrri kona Jóns hét Halla dóttir Jóns-lána. Hún þótti forkunnar fríð og efnileg. Gerði hún sér gjarnan dælt við Sigurð stúdent Sívertsen er þá var við Eyrarbakkaverslun, en þó í mesta sakleysi. Jón var hinsvegar afbrigðissamur mjög og er hann gallt líku líkt með Gróu Jónsdóttur vinnukonu á Skúmstöðum leiddi það til óléttu. Það var til þess að Halla gekk frá honum og fór til Sigurðar stúdents sem hún giftist síðar. Jóni varð svo um þennan eftirmála að hann lokaði sig inni, bar grjót fyrir hurð og kveikti í kotinu. Menn sáu reykinn stíga upp, en komust eigi inn fyrr en Eiríkur Sverrisson kom á staðinn. Hann var tveggja manna maki að afli og hljóp hann á hurðina sem brotnaði í spón. Tókst þá að bjarga Jóni er nær var andaður og lá hann lengi á eftir. Um þennan atburð var ort vísa:


Heiftin geisar hart um torg,

herðir kölski ganginn.

Skankaveldis brunnin borg,

buðlung hennar fanginn.


Jón fór næst að Stóra-Hrauni árið 1823 og bjó þar í eitt ár, en fór síðan að Stéttum í Hraunshverfi. Hann kvæntist þar Kristínu Hannesdóttur frá Litla-Hrauni. Þá gekk hann í flokk Kambránsmanna sem frægt var og dæmdur til æfilangrar refsivistar eftir þann atburð, en brotamennirnir fengu sakaruppgjöf 1844 að Sigurði Gottsveinssyni undanskildum, en hann var líflátinn fyrir að drepa fangavörð. Jón var ættaður frá Götu á Stokkseyri.
Heimild: Saga Þuríðar formanns.

26.03.2011 00:24

"Svona var að senda flöskuna tóma"

frá EyrarbakkaKolbeinn hét maður Jónson ættaður af Lómatjörn í S-Þingeyjasýslu (f.15.09.1756). Það hafði verið mikill snjóavetur á Suðurlandi og skömmu eftir nýár 1788 var Jón Þórðarson (ríki í Móhúsum) þá ungur að árum, að byggja snjóskála fram af fjósinu hjá fósturforeldrum sínum á Refstokki. Hann verður þess þá var að ókunnur maður stendur og starir þögull á sig. Jóni bregður í brún og spyr hver maðurinn sé, en hinn ansar engu. Spyr Jón þá aftur " Hvaðan ber þig að og hvert er erindið"? Svarar þá maðurinn "Kolur er ég nefndur og kem að norðan, en fái ég gistingu í nótt má vera að meir fáir þú að vita af mér og ferðum mínum, en skaltu nú láta þetta, þér nóg vera". Eftir litla þögn sagði Jón " Þú er drjúgur yfir þér, en svo líst mér að þú sért ekki allur þar sem þú ert séður" Fékk Kolur þá gistinguna og var þeim vel til vina.

Kolbeinn var faðir Jóns Kolbeinssonar eldri (f.1789), Hafliða (f. 1756-Kambránsmanns), Steingríms (f. 1824- drukknaði ásamt Hafliða 1846) og Þorleifs ríka á Háeyri (f. 1798), Sigríðar (f. 1793-Sigga Kola var einsetukona) Helgu (f. 1749-dó ung) Guðbjargar vinnukonu (f.1799), Jóns yngra (f. 1800-Kambránsmanns) Málfríðar (f. 1806-Vesturfara) og Ólafar vinnukonu (f.1807), en kona hans fyrri hét Þuríður Jónsdóttir frá Eyrarbakka, en önnur kona hans var Ólöf Hafliðadóttir úr Holtum, og sú þriðja hét Aldís. Eftir að Jón ríki fór að búa á Móhúsum byggði Kolbeinn bæ þar skamt frá á "Stelpuheiði" er nefdist Upp-Ranakot.

Sagt er að draugur eða álfur hafi haft Kolbein með sér um þriggja daga skeið, en hann lét þó aldrei uppi hvað með þeim fór, en víst var að skuggalegur náungi með skotthúfu hafi leitað Kolbein uppi um langan veg uns þeim bar saman að Upp-Ranakoti. Oft var þröngt í búi hjá Kola og kvað hann svo um sjálfan sig þegar hann kom heim af vertíð með fimm fiska:

Heldur Kolur heim úr veri,

hlut með rýran,

Engan mola á af sméri,

og illa býr hann.

Kolbeinn átti sérstaka og fágæta flösku er af sjó hafði rekið. Hún var áttstrend og þótti forkunnar fögur. Flösku þessa var Kolur vanur að senda Þorleifi á Háeyri og fékk hana til baka fulla af brennivíni, en dag einn kom flaskan tóm aftur frá Þorleifi og setti Kol þá hljóðan. Flöskuna sendi hann ekki oftar. Þegar Kolur var látinn, vildi Þorleifur skenkja líkmönnum brennivín úr flöskunni fögru og lagði hana ofur varlega á borðið, en í þeim svifum klofnar flaskan að endilöngu svo vínið flóði fram og ekki dropi varð eftir. Brá Þorleifi og varð hann fölur og fár við, en sagði svo hálfhátt "Svona var að senda flöskuna tóma"! Var þetta síðan haft að orðatiltæki þegar menn sáu um seinan hvað rétt bar að gera.

Heimild: Austantórur, Saga Þuríðar formanns.

03.03.2011 01:10

Góutungl kviknar í dag

Tunglið eða MáninnNýtt góutungl mun kvikna í dag, en þessi síðasti vetrarmánuður er nú um það bil hálfnaður (Góa 20. febr.) Góuþrællinn er 20. mars og einmánuður hefst 21. á Heitdaginn.

Hér er gömul vísa eftir ókunnan höfund um fyrstu mánuði ársins:

Þorri og Góa, grálynd hjú,

gátu son og dóttur eina.

                         Einmánuð sem bætti ei bú

                          og blíða Hörpu að sjá og reyna.

Um góu og einmánuð er sagt " Góður skildi fyrsti dagur góu, annar og þriðji, þá mun einmánuður góður vera". Þessir dagar voru frostlausir með allt að 9 stiga hita en nokkuð blautur sá þriðji.

26.02.2011 00:19

Veðurvísur


Mattíasarmessa 24. febrúar 
 
Mattías þýðir oftast ís,
er það greint í versum.
Annars kala verður vís, 
ef vana bregður þessum.
Mattías ef mjúkur er
máttugt frost þá vorið ber.
Vindur, hríð og veður hart,
verður fram á sumar bjart. 

 Febrúaris
 
Febris ei ef færir fjúk,
frost né hörku neina.
Kuldinn sár þá kennir búk,
karlmenn þetta reyna.
Ef þig fýsir gef að gætur,

gátum fyrri þjóða.

Páskafrostið fölna lætur,
febrúaris yrri gróða.


(Höfundur ókunnur. Lítilega lagfært. Heimild: Austantórur)


09.01.2011 21:40

Heyrnleysingjaskólinn

Stóra hraun var jafnað við jörðu 1937Á Stóra-Hrauni á Eyrarbakka var heyrnleysingjaskóli 1893-1908. Það bar þannig til að á alþingi 1891 bar Magnús landshöfðingi Stephensen fram tillögu um, að landssjóður legði fram 1000 kr. til þess að styrkja mann til að læra málleysingjakennslu. Var það samþykkt í einu hljóði, og fór séra Ólafur Helgason í Gaulverjabæ samsumars til Danmerkur í því skyni. Séra Ólafur var ungur maður, fæddur 25. ágúst 1867, sonur Helga lektors Hálfdanarsonar og Þórhildar Tómasdóttur prófasts á Breiðabólsstað, Sæmundssonar. Skóli séra Ólafs hófst 1. október 1892. Hann var fyrst í Gaulverjabæ, en síðan að Stóra-Hrauni, þar sem hann byggði sér reisulegt hús 1893. Í skólanum voru 9-12 börn, enda var þar ekki rúm fyrir fleiri. Námstíminn var 6 ár. Séra Ólafur starfrækti skólann í 12. ár. Þá andaðist hann á leið til Kaupmannahafnar 19. febrúar 1904. Ekkja séra Ólafs, Kristín Ísleifsdóttir prests í Gísli Skúlason prófasturKrístín ÍsleifsdóttirArnarbæli, Gíslasonar, hélt skólanum áfram næsta ár. En haustið 1905 tók séra Gísli Skúlason við stjórn skólans. Hann var fæddur 10. júní 1877, sonur Skúla prófasts á Breiðabólstað, Gíslasonar, og Guðrúnar Þorsteinsdóttur prests í Reykholti, Helgasonar. Málleysingjakennslu hafði hann numið í Kaupmannahöfn veturinn áður. Hann hafði skólann 3 ár, þangað til haustið 1908, en þá var skólinn fluttur til Reykjavíkur og gerður ríkisskóli.

sr. Gísli gekk að eiga Kristínu ekkju fyrirrennara síns 15. apríl 1909, og var allan sinn aldur prestur að Stóra-Hrauni. Hann andaðist 19. ágúst 1942. Ekki var málleysingjunum kennd önnur handiðn á Stóra-Hrauni en prjón, enda slæm aðstaða til annara hluta. Var þá um það rætt að flytja skólann til Eyrarbakka, þar sem betri væri aðstaðan að þessu leyti. Af því varð þó ekki, heldur var hann fluttur til Reykjavíkur haustið 1908, eins og fyrr var sagt.



Svo kvað Magnús Teitsson um sr. Ólaf:

Miðlar Guði af málunum,

með því þjóðin launi.

Sorgarinn fyrir sálunum

situr á Stóra-Hrauni.

(Stórbýlið og prestsetrið Stóra- Hraun var rifið og jafnað við jörðu árð 1937)

Heimild Menntamál 1945. Lesbók Morgunbl. 16.tbl.1985

06.01.2011 22:55

Helga í Regin og Oddur

Helga MagnúsdóttirHelga Magnúsdóttir talsímakona  f. 2.10.1867 í Vatnsdal í Fljótshlíð og maður hennar  Oddur  gullsmiður Oddsonar hreppstjóra á Sámstöðum fluttu til Eyrarbakka og byggðu sér hús á flötunum skammt frá Merkisteini árið 1898 og var húsið 8 x 11 m á stærð, loftbyggt með skúr fyrir annari hlið og gafli, mjög vönduðum. Húsið brann til kaldra kola tæpu ári síðar (Um miðnætti 19. janúar 1899). Það vildi þó til happs að Þorgrímur í Réttinni, kunnur Eyrbekkingur, var á leið til skips. Varð hann eldsins var og vakti heimilisfólkið. Mátti ekki tæpara standa og tókst fjölskyldunni með naumindum að komast úr eldslogunum. Einungis sængurfötum af einu rúmi var bjargað. Skautbúningar, ættargripir fjölskyldunnar og allir innanstokksmunir brunnu með húsinu. Talið var að eldsupptök hefðu verið frá skari af kertaljósi sem notað var við mjaltir kýrinnar þá um kvöldið. Helga og Oddur bjuggu síðan í Túni, Regin og Ingólfi. Þau hjónin tóku að sér símstöðina á Eyrarbakka þegar hann var lagður 1909 og mun Helga einkum hafa sinnt talsímaþjónustunni, en Oddur sá um línulagnir, viðgerðir og framkvæmdir auk gull og silfursmíði. Í þá daga var síminn handvirkur, þannig Oddur Oddson, afi Davíðs Oddsonarað tengja þurfti hvert símtal á skiptiborði og gat það orðið ærin vinna. Börn þeirra Magnús og síðan Jórunn tóku við símstöðinni í fyllingu tímans. Helga lést 7. mars 1949 en Oddur 1938.

 

Um Helgu orti Björn Bjarnason í Grafarholti eftirfarandi:

 

"Undra tól er talsíminn

töframætti sleginn.

Heyrir gegnum helli sinn

hún Helga mín í Reginn."

 

("Merkisteinn" brann fyrir nokkrum árum. "Réttin" stóð nokkurn vegin þar sem Litla Hraun er nú.)

 

Heimild: Eyrarbakki.is-mbl.is-tímarit.is, Dagskrá 29.tbl 1899. Þjóðviljinn ungi 23.tbl.1899

Flettingar í dag: 196
Gestir í dag: 64
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260486
Samtals gestir: 33691
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 15:41:27