26.09.2022 23:11

Í kaffi hjá Geira biskup

Geiri var kokkur á einum Bakkabátanna þá er útgerð var í hvað mestum blóma á Eyrarbakka um 1970. Hann hét fullu nafni Sigurgeir Sigurðsson, en var ávallt kallaður Geiri biskup, en það kemur til að hann var alnafni Eyrbekksings Sigurgeirs biskups þjóðkirkjunnar (1939-1953)
Við strákarnir höfðum það fyrir sið að taka á móti bátunum þegar þeir komu í land seinnipart dags. Þegar kalt var úti var gott að fá að fara um borð og hlýja sér í kokkhúsinu. Ég var aufúsugestur hjá Geira biskup. -villtu molakaffi, taktu þér krús þarna af króknum-  Kaffið sauð á könnunni á olíueldavélinni og ilmandi kaffilyktin fyllti loftið í káetunni. Kaffi með sykurmola voru bestu veitingar fyrir okkur 10 ára guttanna. Raggi Run renndi á kaffilyktina og kom í lúgkarið - Alla Badda Rí Fransjí, svart kaffi og biskví- glettið viðkvæði Ragga vörubílstjóra sem enginn skildi en fékk okkur til að brosa að. Geiri var grannvaxinn og kominn vel yfir miðjan aldur, ávallt klæddur hlýrabol með tattó á upphandlegg.  - það voru bara sigldir menn sem höfðu tattó á þessum tíma.-
Um sumarið bar ég út póstinn á Austurbakkanum. Geiri bjó í Bjarghúsum og þegar póstur var til hans stóð ekki á því að bjóða upp á molakaffi. Hann átti hund sem hét Neró, ekta Collie. Við urðum miklir vinir ég og Neró, þó sjaldnast fari vel á með póstmanni og hundi, - var einu sinni bitinn illa af öðrum hundi í þessu sumarstarfi-.

Ekki veit ég hverra manna Geiri var eða konan sem hann bjó með, en hann hafði verið sjúklingur framan af æfi og líklega þau bæði. Höfðu verið á Vifilstöðum sennilega samtíða Lalla bakara frænda mínum þegar hann lá þar berklaveikur. Það var einmitt hann sem hafði reddað Geira húsnæði og vinnu á Bakkanum.
Um haustið dó Lalli frændi 54 ára að aldri. Hann hafði aldrei náð sér af sjúkdómnum. Smám saman fjaraði undan útgerðinni og bátunum fækkaði og þeir síðustu lögðu upp í Þorlákshöfn. Ekki hafði ég frekari kynni af Geira biskup eftir þetta en með þessari kynslóð fór líka ákveðinn sjarmör og kúltúr af þorpslífinu.

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00