10.09.2022 22:51

Steinskot

https://flic.kr/p/bbngJ


Hópið og Steinskotsbæir eru áberandi kennileiti á Austurbakkanum. Hópið, gamalt sjávarlón, sennilega hluti af sömu láginni og Háeyrarlónið. Háeyrará rann úr því á fornum tíma til sjávar austan við er barnaskólinn stendur núna. Hópið var eitt aðal leiksvæði barna á Háeyrarvöllum er nýttu það til siglinga á allskyns fleytum, en á vetrum aðal skautasvell þeirra Austubekkinga. Nú er Hópið næsta þurt mestan part ársins. Steinskot, var fyrsta hjáleiga Háeyrar og tvíbýlt. Torfkofar eða fjárhúsin sem stóðu innan garðshleðslunar eru nú löngu horfin. Síðustu ábúendur í vestari bænum voru Guðmundur Jónsson, Sigurðssonar frá Neistakoti og Ragnheiður Sigurðardóttir.  Þarna fæddist Guðni Jónsson fyrsti formaður V.lf. Bárunnar. Guðni-sterki nefndur. Ein sagan segir að hann hafi oft lyft fullri lagertunnu upp á brjóst sér og síðan brugðið neglunni úr með tönnunum og drukkið af eins og um hálf anker væri að ræða. Margir sáu hann einnig tæma fulla brennivínsflösku í einum teig. Vestri bærinn er nú gistihús. Í Eystri bænum bjó samtíða þeim  Águstínus Daníelsson og Ingileif Eyjólfsdóttir og síðar sonur þeirra Eyjólfur, ávallt nefndur Eyfi í Steinskoti, maður þéttur á velli og gekk alltaf í gúmmiskóm, klæddur grænni úlpu af þeirri gerð sem tíðkuðust um 1950 og oft með hjólið sitt í taumi, fremur en hjólandi. Hann var handstór að mætti líkja við bjarnarhramma. Eyfi stundaði sauðfjárbúskap og ræktaði eitthvað af kartöflum.  Allt bar hann heim á hjólinu sem var hans eina farartæki. Í þá tíð þurftu menn stundum Eyfa heim að sækja er skemtun stóð fyrir dyrum. Hann átti þá gjarnan eitthvað sterkt og gott til að létta lundina. 

Sjá einig: https://www.flickr.com/photos/[email protected]/115187636/

Flettingar í dag: 700
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 530
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 155717
Samtals gestir: 18372
Tölur uppfærðar: 9.6.2023 23:23:10