02.05.2021 23:07
Bankamálið
Árið 1914 sendu þrír frammámenn verslananna á Eyrarbakka erindi til sýslumaður Árnessýslu um að hún reyndi að fremsta megni að stuðla að því að annar hvor bankinn, sem þá voru Landsbankinn og Íslandsbanki, settu upp útibú í sýslunni. Sýslunefndin skoraði þá á landsstjórnina að beita sér fyrir stofnun útibús sem styddi verslun og atvinnuvegi á suðurlandi. Landsstjórnin tók þessu erindi fálega og vísaði þessum hugmyndum frá 1915. Að vísu var á Eyrarbakka öflugur sparisjóður sem starfaði með blóma, en útlánaheimildir hans þó mjög takmarkaðar.
Menn lögðu þó ekki árar í bát, því bankamálið er flutt fyrir alþingi 1917 þannig að heimilt sé að stofna bankaútibú í Árnessýslu. Það datt því engum annað í hug en að bankaútibú yrði stofnað á Eyrarbakka sem þá var fjölmennasta byggðarlagið á suðurlandi og húsakostur betri en annarstaðar þekktist austan fjalls.
Á Selfossi var aðeins eitt hús og örfá kot. Tryggvaskáli sem Tryggvi Gunnarsson lét byggja sem vinnuskála og smiðju fyrir brúarsmiði sína árið 1890. Skálinn var úr timbri og lítt við haldið en þó sæmilega byggt, en þar ákvað Landsbankinn að setja niður útibú sitt þann 4 október 1918 mörgum til mikillar furðu.
Eina skýringin á þessari ákvörðun bankanns getur aðeins verið sú að þeir hafi ekki haft áhuga á versluninni eða útgerðinni við ströndina því sparisjóðurinn gat séð um þá, heldur hinni fjölmennu bændastétt í fjósömustu sveitum landsins. Þarna var brúinn sem tengdi saman Ölfusið, Flóann, uppsveitirnar, Skeiðin og hreppanna. Þá var tekið að hilla undir vélvæðingu landbúnaðarinns, en það sama ár kom fyrsta dráttarvélin til landsins af gerðinni Avery. Sunnlenskir bændur voru hinsvegar íhaldssamir og lítt ginkeyptir fyrir nýjungum þó þeir eigi í dag heimsmet í traktorum á hvern hektara. Sennilega hafa fyrstu traktorar sunnlendinga komið í sveitirnar einhverntíman eftir 1930.
Starfsfsmönnum útibúsins þeim Eiríki Einarssyni útibústjóra, Guðmundi Guðmundssyni féhirði og Guðmundi Helgasyni bókara var komið fyrir í Tryggvaskála sem annars var lítt heppilegur fyrir bankastafsemi, enda átti áinn það til að flæða inn á gólf.
Fyrstu árin var afgreiðslutími stopull viðskiptin sára lítil og innlán óveruleg. Þrátt fyrir það var bankinn þegar farinn að huga að nýju húsnæði. Var það úr að flytja vandað norskt timburhús sem Landsbankinn átti vestur í Búðardal hingað austur þó slík framkvæmd svaraði engan veginn kostnaði. Húsið var tekið niður og flutt sjóleiðina til Eyrarbakka og síðan sleðaflutt á ís upp á Selfoss þar sem það var reist á ný og tekið í notkun seint á árinu 1919. Framundan voru erfið ár, gjaldeyriskreppur og bankakreppan 1930 sem Landsbankinn tórði en Íslansbanki féll.
Nýtt húsnæði var byggt fyrir útibúið, vandað og veglegt steinhús sem tekið var í notkun 1953 og hefur sett svip sinn á bæinn síðan. Hagur útibúsins vænkaðist til muna enda byggðarlagið í örum vexti er hér er komið sögu. Árið 1967 námu innlán 246 milljónum en fyrsta starfsárið aðeins 50 þúsundum.
Seint og um síðir setti Landsbankinn upp útibú á Eyrarbakka og Stokkseyri. Það mun hafa verið árið 1970, fyrst í aðstöðu frystihúsins á Eyrarbakka, síðan í kaupfélagshúsinu og að síðustu með afgreiðslu á hreppskrifstofunni. Tímarnir breytast og þörfin fyrir útibú minnkaði óðum. Afgreiðslunum á Eyrarbakka og Stokkseyri var lokað 2012 og mörg minni sveitarfélög máttu upplifa það sama eftir bankahrunið 2008. Á tímum snjallvæðingar er öll bankaþjónusta komin í snjalltækin og útibú því orðin úrelt.
Bankarnir munu því hverfa sjónum manna í hinum stærri bæjum líka og ráp og biðröð í bankann heyrir sögunni til. Snjalltækin hafa leyst þetta fyrirbæri af hólmi. Þann 27. nóvember 2020 var hið veglega Lansbankahús á Selfossi selt Sigtún þróunarfélagi sem m.a. stendur að uppbyggingu miðbæjar á Selfossi í anda horfinna íslenskra húsagerðar.
Skrifað af oka
Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07