12.10.2019 22:34
Tröð, Stígur, Gata, Vegur, Braut.
Búðarstígurinn er einn elsti "vegurinn"
á Bakkanum, En Kaupmannshúsið, kallað "Húsið" var byggt árið 1768. Stígur og síðan
braut lá milli verslunarhúsanna og kaupmannshússins. Aðrir fornir stígar og traðir milli húsaþyrpinga
og garða breyttust smám saman í vegi í tímans rás svo sem Eyrargatan, Háeyrarvellir og Hraunteigur. Eiginleg vegagerð hófst með
tilkomu hestvagna og aukinni notkun til vöru og heyflutninga. "Álfstétt"
heitir vegspotti á Eyrarbakka og sagður
einn elsti vegur í Árnessýslu, byggður einhverntímann fyrir 1880. "Bárðarbrú"
sem þó er ekki "brú" í nútíma merkingu, heldur upphaflega púkkaður
mjór vegur yfir móa og mýrlendi er lá áður milli kirkju og Húsins upp á
engjalöndin vestur undan Sólvang, en þennan veg
gerði Bárður Nikulásson um 1880 og og um 1890 var "Nesbrú"
byggð, en það var upphlaðin slóði á leiðinni frá Óseyrarnesi upp mýrarnar, er
lá alla leið upp í Kaldaðarneshverfi. Hluti Háeyrarvegar var lagður á svipuðum
tíma, en fyrir því stóð Guðmundur Ísleifsson á Háeyri. Lagning Eyrarbakkavegar frá Ölfusárbrú hófst
1898 undir stjórn Erlends Zakaríassonar, en þá voru hestvagnar að verða helsta
flutningatækið. (Trúlega er Steinskotsvegur frá sama tímabili.) Sumarið 1913 komu fyrstu bílarnir akandi þennan veg frá
Reykjavík, en það voru Ford-blæjubílar og lítt áræðanlegir til brúks. Hjallavegur og Túngatan hafa byggst upp smám saman milli 1940-1950 og Merkisteinsvellir um líkt leiti. Hafnabrú er byggð um 1975. Hjalladæl og Hulduhóll eru gerð um og eftir aldamótin 2000 og Þykkvaflöt um svipað leiti.
Mörg hús á Bakkanum bera nöfn sem kennd eru við þessar umferðaæðar, svo sem Götuhús, Stíghús, Traðarhús, Akbraut, Suðurgata og Vegamót sem var rifið fyrir mörgum árum. Í öðrum tilfellum hafa stígarnir dregið nöfn af húsum, svo sem Bakarísstígur og Háeyrarvegur.