20.05.2019 21:57
Baugstaðir (1)
Baugstaðir er elsta byggt ból á
Stokkseyri og kennt við Baug Rauðsson, fóstbróðir Ketils hængs, er hafði þar
aðsetur hinn fyrsta vetur er hann var á Íslandi um árið 890 en fór síðan og nam
Fljótshlíð og bjó á Hlíðarenda. Svo er sagt að Baugur hafi haft samflot við með
Katli til Íslands og stýrt sínum knerri hvor eftir víg þeirra á
Hildiríðarsonum. Þegar Hásteinn Atlason kemur út, e.t.v. áratug síðar nemur hann allt það land sem
tilheyrði Stokkseyrarhrepp hinum forna, en mági sínum Hallsteini Þorsteinssyni gaf
hann vesturbakkann þ.e. Eyrarbakka. Þegar synir Hásteins skiptu arfi sínum
hlaut kom eystri hlutinn í hlutskipti Atla í Traðarholti, ásamt Baugstöðum.
Staðurinn var því í eigu Hásteins, sona og niðja alla landnáms og söguöld.
Í byrjun 13 aldar bjó þar Börkur
Grímsson er var sá 7. í beinan karllegg frá Hásteini. Flosi prestur Bjarnason,
tengdasonur Barkar tók síðan við jörðinni, en seldi hana 1226 Dufgúsi
Þorleifssyni. Um 1270 átti Þeobaldus Vilhjálmsson jörðina, en skipti við Árna
biskup Þorláksson á Dal undir Eyjafjöllum.
Komst jörðin þá undir Skálholtsveldi og var svo næstu 500 ár.
1738 Magnús Jónsson og Einar
Jónsson kaupa jörðina á uppboði. Hefur jörðin síðan að nokkru eða öllu verið í
eigu afkomenda þeirra. Erfingjar Magnúsar voru Bjarni eldri á Baugstöðum og
Bjarni yngri á Leiðólfsstöðum. 1806 Bjarni eldri kaupir bróður sinn Bjarna
yngri út úr jörðinni og fellur jörðin síðan til ekkju hans Elínar Jónsdóttur og
seinni manns hennar Hannesar Árnasonar á Baugstöðum. Af þessum helmingi gekk 5/6
partur til Bjarna í Nesi Hannessonar, síðan til Gríms í Nesi Bjarnasonar, síðan
til Guðmundar stútendts Grímssonar er seldi partinn Jóni bónda Magnússyni á Baugstöðum
um aldamótin 1900, en 1/6 hafði Jón hlotið í erfðir frá föður sínum Magnúsi Hannessyni.
Helming Einars Jónssonar erfir
einkasonur hans, Jón hreppstjóri á Baugstöðum
Einarsson og síðan ekkja hans Sesselja Ámundardóttir og seinni maður hennar
Þorkell Helgason að nokkru og Einar í Hólum Jónssonar hreppstjóra Einarssonar að nokkru. Þann part
erfir Bjarni sonur hans, en part Sesselju erfir dóttir hennar Margrét á
Minna-Núpi Jónsdóttir. Báða þessa parta eignast Guðmundur Margrétarson Jónsson á Baugstöðum með
erfð og kaupi. 1910 Guðmundur Jónsson og Jón Magnússon eru eigendur
jarðarinnar. Eftir það Páll Guðmundsson og Ólafur Gunnarsson, uppeldissonur
Jóns Magnússonar verða eigendur jarðarinnar.
-----------------------Ábúendur---------------------------
890 Baugur Rauðsson ruggu frá Naumudal hafði þar vetursetu, en nam síðan land í
Fljótshlíð.
1000 eða síðar hafa búið þar niðjar Hásteins Atlasonar
landnámsmanns á Stokkseyri.
1222 Börkur Grímsson,Ingjaldssonar, Grímssonar glammaðar Þorgilssonar
örrabeinsstjúps í Traðarholti, Þórðarsonar dofna, Atlasonar, Hásteinssonar landnámsmanns, Atlasonar. Börn Barkar voru Herdís, móðir
Nikulásar Oddssonar í Kalmarstungu og Ragnhildur kona Flosa prests Bjarnasonar.
1222-1226 Flosi Bjarnason prestur Bjarnasonar, Flosasonar,
Kolbeinssonar,Flosasonar,Valla-Brandssonar. Kona hans var Ragnhildur
Barkardóttir á Baugstöðum Grímssonar. Börn þeirra voru: Einar, sr. Bjarni,
Halla í Odda, Þórdís á Hvoli, Valgerður, og Guðrún. Fyrir átti hún Benedikt
Vermundarson.
1226-1237 Dufgús Þorleifsson skeifu í Hjarðarholti
Þormóðssonar Skeiðagoða Guðmundssonar og Þuríðar Hvamm-Sturludóttir Þórðarsonar.
Kona hans var Halla Bjarnadótir og börn þeirra voru: Svarthöfði, Björn drumbur,
Björn kægill, og Kolbeinn grön, og allir hinir mestu garpar. Eftir það búa þau
á Strönd í Selvogi. Þar lét Gissur Þorvaldsson ræna þau búfé öllu.
1243-1265 Börkur Ormsson frá Þingnesi í Borgarfirði. Dóttir
hans var Margrét á Baugsstöðum.
1265-1272 Þeóbaldus Vilhjálmsson í Odda Sæmundssonar
Jónssonar og Margrét Barkardóttir Ormssonar. Þau seldu jörðina til Árna biskups
Þorlákssonar í Skálholti fyrir Dal undir Eyjafjöllum. Komust Baugstaðir þá undir
Skálholtsstól og hélst svo nærri næstu 500 ár.
1272-1277 sr. Magnús frá Dal Þorláksson af Svínafelli
Guðmundssonar gríss alsherjargoða og prests á Þingvöllum Ámundssonar, og bróðir
Árna biskups.
1277-1284 Ásgrímur Þorsteinsson riddari og sýslumaður Árnes
og Rángárþings, Jónssonar í Hvammi Vatnsdal.
Bróðir Eyjólfs ofsa, er stóð fyrir Flugumýrarbrennu og þá vinur Árna biskups. Hann
flutti síðan að Traðarholti, þegar fullur fjandskapur brast á með þeim Árna
biskupi. Kona hans var Guðný Mánadóttir frá Gnúpufelli í Eyjafirði. Synir
þeirra voru Eyjólfur sýslumaður í Traðarholti og Máni. Ásgrímur átti með
Geirlaugu jónsdóttur á Stokkseyri, sr. Jón og sr. Þorstein.
1284-1625 Á þessu tímabili eru ábúendur óþekktir með öllu,
og tímabilið að mestu hulið myrkri. Þess er vert að geta að innan þessa tímabils
geisaði "svartidauði" er lagði margar sveitir í eiði og hálfri öld síðar kom "plágan"
sem var mjög mannskæð. Kólnun veðurfars og loftslagsbreytingar ollu búsifjum,
svo kúabúskapur dróst verulega saman, en sauðabúskapur jókst á móti. En e.t.v. urðu þessi harðindi vegna stórfeldra
eldgosa, svo sem í Heklu og Kötlu snemma á þessu tímabili og í Grímsvötnum,
Heklu og Kötlu og Öræfajökli alloft á
14. öld og voru einhver hin mestu öskugos íslandsögunnar. [Það er vel þekkt að stórfelld öskugos hafa gríðarleg áhrif á loftslag
um allan heim] Á öndveðri 17. öld
gengu miklar deilur um ábúð jarðarinnar, eða hin svokölluðu "Baugstaðamál" og er
þaðan hægt að rekja ábúendur að nýju.
1625-1632 Þorlákur Gunnarsson á Hólum, er kemur við sögu í Baugstaðamáli.
1628-1632 Gissur Þorkellsson, er kemur við sögu í
Baugstaðamáli.
1632-1634 Sigurður Jónsson
skrifari Gísla biskups Oddsonar.
1636-1637 Erlendur, (Ekki er meira um hann vitað)
1637-1657- Pétur Filippusson. Börn hans voru: Gunnar á Baugstöðum, Vigfús í Tungu í Flóa,
Valgerður og Filippus, húsmaður á Skúmstöðum Eyrarbakka.
-1659- Gunnar Pétursson, er fyr er getið Filippussonar. Hann
varð "bjargþrota ómagi" á framfæri Höllu dóttur sinnar. Börn Gunnars voru:
Ólafur í Vöðlakoti í Flóa, Halla í Gerðum í Flóa og Pétur í Snóksnesi.
-1666 --1681- Magnús Jónsson . Dóttir hans var Ingiríður á
Skipum.
-1666 --1681- Guðmundur Jónsson . Sonur hans var Jón á
Skipum.
1690-1700 Jón Guðmundsson á Skipum.
1700 - 1722 Brynjólfur lögréttumaður Hannesson hreppstjóra
Tómassonar á Skipum. Brynjólfur bjó síðar á Skipum. Hann kól bæði á höndum og fótum
í "kyndilmessufjúkum" 1697 og fékk þá
viðurnefnið "Stúfur". Sonur af fyrra hjónabandi var Hannes í Hróarsholti er fór
úr stóru-bólu. Seinni kona Brynjólfs var Vigdís Árnadóttir í Súluholti,
Gíslasonar lögréttumanns í Ölvesholti Brynjólfssonar af ætt Torfa í Klofa. Börn
þeirra voru: Kristín í Hraungerði,
Valgerður á Egilsstöðum í Ölfusi, Gísli - dó ókvæntur, Sesselja á Skipum, Bjarni
á Baugsstöðum, Steinunn í Hólum, Margrét í Þorlákshöfn. Frá þeim er komin
svonefnd "Baugstaðaætt".
1722 - 1758 Bjarni Brynjólfsson Hannessonar er fyr er getið
og hreppstjóri Stokkseyrarhrepps. Kona hans var Herdís Þorsteinsdóttir frá
Hróarsholti Jónssonar. Börn þeirra voru: Ólöf í Traðarholti, síðar Baugsstöðum. Ingunn
á Mið-Kekki og Vilborg á Baugstöðum.
1758 - 1775 Herdís Þorsteinsdóttir, ekkja. Eftir hana taka
tengdasynir hennar Einar og Magnús við sinn helmingnum hvor, og er síðan tvíbýlt
á Baugstöðum.
Baugstaðir 1
1775-1792 Einar Jónsson ríka í Skúmstaðarhverfi Eyrarbakka
(Jón gamla Pálssonar og Þórunnar Álfsdóttur í Mundakoti Ólafssonar). Einar var
hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og þingvitni. Kona hans var Vilborg Bjarnadóttir
á baugstöðum Brynjólfssonar. Sonur þeirra var Jón hreppstjóri á Baugsstöðum.
1792 - 1824 Jón Einarsson hreppstjóri. (Kemur við sögu
Þuríðar formanns og Kambránsins) Fyrri kona Jóns var Margrét Sigurðardóttir frá
Vorsabæ í Flóa, Péturssonar Sigurðssonar og systir Bjarna riddara í Hafnafirði.
Börn þeirra voru: Einar í Hólum, Guðmundur er druknaði í Tunguósi 1810, Vilborg
-dó uppkomin og Guðrún í Hvassahrauni. Seinni kona Jóns var Sesselja Árnadóttir
smiðs í Syðra-Langholti. Börn þeirra voru: Margrét á Minnanúpi, Sigríður á
Bjólu, Ólafur í Eystra-Geldingaholti og Jónas -drukknaði ungur.
-1824- Sesselja Árnadóttir ekkja, en giftist aftur.
1824 - 1826 Þorkell
Helgason frá Eystra-Geldingaholti. Kona hans var Sesselja Árnadóttir, áður
ekkja. Þau voru barnlaus.
1826 - 1846 Ólafur Nikulásson, áður Eystara Geldingaholti og
Solveig Gottvinsdóttir gamla í
Steinsholti Jónssonar. (Hún kemur við
sögu Þuríðar formanns og Kambránsins) Börn þeirra voru: Guðrún -dó ung,
Ingveldur á Vestri-hellum, Sesselja -dó ógift en átti son er Sveinn hét Halldórsson,
Níels í Lindabæ Reykjavík -dó voveiflega (Kemur við í Kambránssögu) Guðbjörg á
Arnarhóli, Guðbjörg önnur og Kristín -Jóns vind yngra Jónssyni á Eyrarbakka.
1846 - 1853 Solveig Gottvinsdóttir ekkja.
1853 - 1875 Guðrún Guðmundsdóttir Gamalíelssonar ekkja. Almennt kölluð
Baugstaða-Guðrún.
1876 - 1882 Þorsteinn steinsmiður Teitsson Jónssonar í Skáldabúðum
Gnúp, og Ingigerður Gísladóttir í Ásum .
Sonur þeirra var Rögnvaldur steinsmiður í Reykjavík.
1882 - 1918 Guðmundur Jónsson frá Minna-Núpi Brynjólfssonar.
Sonur Margrétar Jónsdóttur Einarssonar hreppstjóra er fyr er getið. Kona hans
var Guðný Ásmundsdóttir frá Haga Eystrihrepp. Synir þeirra voru Sigurgeir og
Páll báðir bændur á Baugstöðum.
1918 Siggeir Guðmundsson Jónssonar á Baugstöðum -druknaði í
Baugstaðafjöru sama ár. Kona hans var Kristín Jóhannsdóttir frá Eyvakoti
Hannessonar í Tungu, Einarssonar. Hún giftist aftur Ísleifi Einarssyni á Læk í
Ölfusi. Börn Siggeirs og hennar voru: Guðmundur sjómaður á Eyrarbakka, Jóhann
bílstjóri Reykjavík, Sigurlaug á Syðra-Seli, Ásmundur í Gaulverjabæ og Sigurður
á Læk í Ölfusi.
1918-1977 Páll Guðmundsson Jónssonar á Baugsstöðum og Elín Jóhannsdóttir Hannessonar í Tungu
Einarssonar. Börn þeirra eru: Guðný í Laugarási, Ásta -dó ung, Sigurður, Siggeir
-dó af slysförum 2001.
-1977-2001 Siggeir Pálsson, Kona hans var Una Kristín
Georgsdóttir. Börn þeirra eru: Páll, Svanborg, Elín, Þórarinn og Guðný. Siggeir
lést af slysförum 2001. Siggeir rak búið ásamt bróður sínum Sigurði síðasta
íslenska vitaverðinum, en sigurður var vitavörður í Knarrarósvita til 2010.
Heimild: Guðni Jónsson-Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi