09.05.2019 23:33
Húsanöfn á Stokkseyri fyrir 1950 / F-G
1. Fagridalur - Byggður 1912 af Jóni
Þorsteinssyni Járnsmið, áður Garðbæ*
og Brávöllum*
2. Félagshús - Vörugeymsluhúsið mikla er
Grímur í Nesi (Eyrarb.) reisti á Stokkseyri 1893. Það var 36x12 álnir að
flatarmáli og á þrem hæðum, sterklega viðað og þiljað í hólf og gólf. Árið 1896
keypti Björn Kristjánsson og verslunarfélagar hans austurhlutann. Árið 1898
keypti Edinborgarverslunin í Reykjavík hlutinn. 1903 keypti Ólafur kaupmaður
Árnason hlutinn. 1907 Kaupir kaupfélagið Ingólfur hlutinn. Vesturhlutann seldi
Grímur 1895 Stokkseyrarfélaginu (Zöllnersfélaginu), fékk þá húsið þetta nafn.
1914 tekur Kauðfélagið Ingólfur við vesturhlutanum einig. Húsið brann 9-10
desember 1926 í Stokkseyrarbrunanum mikla, svonefndum. Á grunninum var síðar
byggt Hraðfrystihús Stokkseyrar, en þær byggingar brunnu 30. maí 1979. Stuttu
síðar var hafist handa við að endurbyggja hraðfrystihúsið. Hin mikla bygging
gegnir nú hlutverki Menningarverstöðvar og ferðaþjónustu.
3. Folald - Sama og Kumbaravogskot* Þannig
nefndu flóamenn ýmis afbýli, en einnig var til að þau væru nefnd "Kuðungur".
4. Garðbær - Byggður 1886 af Magnúsi
Teitssyni hagyrðing. Bærinn var einn af Beinteigsbæjum. 1891 keypti Jón
Þorsteinsson járnsmiður frá Kolsholtshelli bæinn og bjó þar til 1908 þá er hann
byggði Brávelli* við Garðbæ var
allstórt smiðjuhús og var oft gestkvæmt í smiðjunni, er menn ræddu þar landsins
gagn og gamann, eða sögðu sögur af samferðafólki sínu. Urðu þar til margir
kviðlingar af vörum Magnúsar Teitssonar.
5. Garðhús - Byggð 1890 af Einari
Einarssyni, áður bónda á Buglum.
6. Garðstaðir - Einn af Beinteigsbæjunum, Það
var upphaflega sjóbúð Magnúsar Teitssonar. Þegar hann seldi Garðbæ, 1881 flutti
hann sig í sjóbúðina og gerði hana upp og kallaði Garðstaði. Bjó þar til 1896
er hann byggði Brún*. Jón Eiríkur Jónsson úr Klofa og Halla Sigurðardóttir frá
Beinteig, keyptu þá Garðstaði og byggðu bæinn upp að nýju, en notuðu sjóbúðina
fyrir kindakofa. Síðar var steinhús byggt á lóðinni.
7. Garður - Byggt árið 1941 af Böðvari
Tómassyni útgerðamanni (d.1966). Það er timburhús á steyptum kjallara og
múrhúðað að utan.
8. Geirakot - Upphaflega sjóbúð Sigurðar
Árnasonar í Hafliðakoti, en er kennt við Olgeir Jónsson frá Grímsfjósum,
einsetumanns er bjó þar frá 1920.
9. Gimli - Samkomu og þinghús hreppsins.
Byggt árið 1921 timburhús á steyptum kjallara. Á níunda áratugnum hýsti það
bókasafn, en er nú veitinga og handverkshús í þágu ferðaþjónustu. -
Góðtemplarahús var reist fyrir aldamótin 1900 og stóð fyrir framan Vinaminni* en Grímur í Nesi gaf lóð
undir það. Verkalýðsfélagið Bjarmi keypti húsið og flutti á þessa lóð og var um
tíma aðal samkomuhús staðarins, eða þar til Gimli var byggt vestast á lóðinni.
Verkalýðsfélagið seldi þá húsið Andrési Jónssyni kaupmanni á Eyrarbakka er verslaði
þar um tíma. Jón Adólfsson keypti síðan húsið og verslaði þar einig. Kaupfélag
Árnessinga keypti síðan húsið og hafði þar útibú til margra ára, og síðar í
nýju húsnæði skamt frá, eða þar til félagið verður gjaldþrota árið 2003.
Góðtemplarahúsið var síðar rifið ásamt seinni tíma viðbyggingum.
10. Grímsbær - Byggður 1889 af Njáli
Símonarsyni. Árið 1903 var bærinn skírður upp og hét þá Hólmur*
11. Grímsfjós -
Hjáleiga frá Stokkseyri fyrir árið 1703. Árið 1880 keypti Grímur í Nesi hjáleiguna og tók
hún nafn af því. Hann keypti svo Stokkseyrarjörðina 1889 ásamt Einari Jónssyni
borgara.
12. Grund - Byggð árið 1906 af Gísla
Gíslasyni áður bónda á Bugum.
13. Gústafshús - Kennt við Gústaf Árnason
trésmið (Sjá Ártún II*)
14. Götuhús - Byggð árið 1897 af Sæmundi
Steinsmið Steindórssyni frá Stóru-Sandvík