10.05.2016 23:35

Staldrað við á Austurbakkanum 1.

Hópið og Steinskotsbæir eru áberandi kennileiti á Háeyrarvöllunum. Hópið, fornt sjávarlón, sennilega hluti af sömu láginni og Háeyrarlónið. Háeyrará rann úr því áður fyr til sjávar á þeim slóðum sem Barnaskólinn stendur nú. Hópið var eitt aðal leiksvæði barna í hverfinu og nýttu það til siglinga á allskyns fleytum, en á vetrum aðal skautasvell þeirra Austubekkinga. Nú er Hópið næsta þurt mestan part ársins.

Steinskot, var fyrsta hjáleiga Háeyrar og tvíbýlt. Torfkofar eða fjárhúsin sem stóðu innan garðshleðslunar eru nú löngu horfin. Síðustu ábúendur í vestari bænum voru Guðmundur Jónsson, Sigurðssonar frá Neistakoti og Ragnheiður Sigurðardóttir.  Þarna fæddist Guðni Jónsson sonur þeirra, og fyrsti formaður V.lf. Bárunnar. Guðni var stór vexti og mikill á velli. Hann var sagður sterkur með eindæmum á sínum yngri árum og hlaut þá viðurnefnið Guðni- Sterki. Ein sagan segir að hann hafi oft lyft fullri lagertunnu upp á brjóst sér og síðan brugðið neglunni úr með tönnunum og drukkið af eins og um hálf anker væri að ræða. Margir sáu hann einnig tæma fulla brennivínsflösku í einum teig. Guðni var hinsvegar stilltur mjög og gæfur svo eftirtekt vakti. Hann var lengi vinnumaður hjá Andrési Ásgrímssyni en stundaði einnig sjósókn og var formaður á róðrabát og þótti sókndjarfur og aflasæll.Vestri bærinn er nú gistihús.

Í Eystri bænum bjó samtíða þeim  Águstínus Daníelsson eða Gústi vagnstjóri og Ingileif Eyjólfsdóttir. Águstínus stundaði vöruflutning á hestvagni. Ein saga segir að einhvern tímann fyrir langa löngu komu menn frá heilbrigðiseftirlitinu til þess að ransaka vatn í brunnum þorpsbúa og reyndist það misjafnlega, til dæmis í Steinskoti, en þar var vatnið talið ónothæft og jafnvel eitrað. Þá sagði Ágústínus (Gústi í austurbænum) það er nú varla bráðdrepandi því hún hefur drukkið vatnið í yfir 90 ár og benti á Guðbjörgu húsfreyju í vesturbænum og hafði hann greinilega ekki mikið álit á mælingum embættismanna.-

Síðar tók við búi sonur þeirra Eyjólfur, ávallt nefndur Eyfi í Steinskoti, maður þéttur á velli og gekk alltaf í gúmmiskóm og oft með hjólið sitt í taumi. Í þá tíð þurftu menn stundum Eyfa heim að sækja er skemtun stóð fyrir dyrum. Hann átti þá gjarnan eitthvað til að létta lundina. Frá Eystri bænum hefur verið stunduð hestamennska hin síðari ár.

Rétt austan Hópsins er vinnuhælið Litlahraun, en það átti upphaflega að verða sjúkrahús, og þar var áður fjárrétt sem hét "Fæla" og þótti þar reimt. Hjáleigan Litla-Hraun var þar fyrrum og þar bjó Eyjólfur-Sterki Símonarson frá Simbakoti, sá er lyfti upp björgum og glímdi við blámanninn, og líklega er "Veðmálsglíman" frægasta glíma Íslandssögunnar, en um hana hafa spunnist fjölmargar þjóðsögur undir ýmsum nöfnum. 

Fyrir sunnan Hóp standa kotin Ós og Bjarghús, og sunnan við þau stóð tómthús er Grímstaðir hét. Þekktust búenda á Grímsstöðum voru t.d. Bergur dáti og Toggi í Réttinni, en bærinn var stundum nefnt "Réttin" eftir fjárrétt sem þar var. Á Ósi bjuggu eitt sinn þau Sveinn Sveinsson, sjómaður frá Simbakoti og Ingunn Sigurðardóttir. Þar fæddist dóttir þeirra Þórunn, síðar söguleg persóna í Vestmannaeyjum. Í Bjarghúsum bjuggu Runólfur Eiríksson og Elín Ólafsdóttir ættforeldrar margra Vestur-íslendinga. Þekktastur búenda í Bjarghúsum á síðari tímum var óneitanlega Sigurgeir Sigurðsson sjómaður, kallaður "Geiri biskup".  Vestan við Hópið er samnefndur bær "Hóp" bjó þar Sigurður Ingvarsson vörubifreiðarstjóri og Guðbjörg Þorgrímsdóttir frá Grímsstöðum, en síðast bjó þar sonur þeirra Gísli á Hópi, kallaður.


Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00