10.08.2015 23:05

Aldamótahátíðin í máli og myndum

Aldamótahátíðin var haldin um liðna helgi eins og lög gera ráð fyrir. Á sama tíma stóð sem hæst hátíðin "Sumar á Selfossi"í efri byggðum sveitarfélagsins. Veður var stilt og dálitill súldarvottur, en ágætlega hlítt. Hátíðin á Bakkanum hófst með flöggun og skrúðgöngu, sem Bakkabúar mættu í  öllu sínu aldamótapússi samkvæmt hefð innbyggja.  Í framfylkingu fór "Sölvi ÁR"  bátur Siggeirs Ingólfssonar, formanns hátíðarnefndar og var fleyið dregið af öflugum fjór-hjólhesti. Þá dró hin aldna Ferguson dráttarvél Gísla Nilsens, vagn hlaðinn manngripum undir hljómahafi Valgeirs Guðjónssonar tónlistarmanns. Þessi strolla endaði í kjötsúpusvalli miklu við Húsið.

 

Söfnin opnuðu upp á gátt, svo nútímamaðurinn fengi gáttaþef og nasasjón af fornum hefðum Bakkamanna. Á planinu við stað var lífið saltfiskur. Þar tóku þeir sig til Siggeir Ingólfsson og Björn Ingi Bjarnason við upplýsingu upprennandi kynslóðar, hvernig menn báru sig að við saltfiskverkun á fiskveiðiöld Eyrbekkinga. Heyannir fóru fram á Vesturbúðarhól þar sem Bakkabændur tóku slægju með orf og ljá og bundu í sátu upp á gamla móðinn. Að kvöldi dags var haldin átveisla mikil með grilluðum grísum, kanínum og kjömmum.

 

Innandyrar voru uppi sölubásar og fyrsta myndavélasýning sinnar tegundar "Frá Instamatic til Instagram" sem mörgum þótti forvitnileg. Þá var hænsnfuglasýning í boði ERL sem endaði með hænsnbrúðkaupi útvaldra hænsnpara, en Valgeir stuðmaður, stuðaði parið saman.

Höfðu allir sem mættu hið mesta gaman af, enda allt til gamans gert. Í Versluninni "Bakkinn" var afgreiðslan með ofurhraða, enda mætt þar á bak við búðarborðið einginn annar en "Superwoman" í öllu sínu veldi. Og eins og venja er til á þessum degi mátti sjá stöku fornbíl bregða fyrir á rúntinum, þó ökumennirnir séu ekki lengur eins ungir og þeir sem óku rúntinn á gullöld amerísku drossíunnar.


Myndaseria:

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06