20.01.2015 01:29

Bergsteinn kraftaskáld

Bergsteinn blindi Þorvaldsson var kallaður kraftaskáld, og heldur en ekki þótti honum góður sopinn. Eitt sinn var það, að hann kom í búðina á Eyrarbakka og bað kaupmanninn að gefa sér í staupinu. Kaupmaður tók því fjarri, því að hann væri alveg brennivínslaus. Kvað hann andskotann mega eiga þann dropann, sem hann ætti eftir af brennivíni. Ekki lagði Bergsteinn mikinn trúnað á það og kvað vísu þessa við búðarborðið:

Eg krefst þess af þér,

sem kaupmaðurinn gaf þér,

þinn kölski og fjandi

í ámuna farðu óstjórnandi

og af henni sviptu hverju bandi.

Brá þá svo við, að braka tók heldur óþyrmilega í brennivínstunnu kaupmanns, svo að við var búið að bresta mundu af henni öll bönd. Þorði kaupmaður þá ekki annað en gefa Bergsteini neðan í því og varð feginn að sleppa, áður en verra yrði úr.

Sagt er, að þau yrðu æfilok flökkuskáldsins Bergsteins blinda, að hann kvæði sig sjálfur drukkinn í hel eftir boði annarra, og hafi hann þá verið æfa gamall. En með vissu vita menn það um endalykt Bergsteins, að hann dó á Eyrarbakka út úr drykkjuskap 17. júlí 1635, og þótti þá svo ískyggilegt um dauða hans, að hann fékk ekki kirkjuleg, heldur var hann grafinn utan kirkjugarðs á Stokkseyri. Getur Gísli biskup Oddsson þess í bréfabók sinni, að ekkja Bergsteins hafi "klagað sárlega" fyrir sér, að maður sinn lægi utan garðs, og hafi "séra Oddur Stephánsson helst gengist fyrir því, að hann skyldi ekki innan kirkjugarðs grafinn vera".

(Eftir Jóni Þorkelssyni)

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06