27.02.2014 20:08
Sú var tíðin, 1936
Útgerðin við ströndina veitir 200 manns atvinnu
Fjórðungsþing fiskideildarinnar kallaði eftir frekari fjárveitingum frá
Alþingi til hafnabóta á Eyrarbakka og Stokkseyri, en fyrir þessa staði sátu
þeir Bjarni Eggertsson og Jón Sturlaugsson, og það sama gerði hafnarnefnd
Eyrarbakka. Þrír vélbátar gengu frá Eyrarbakka á vertíð og tvær trillur að
auki. [Þriðji vélbáturinn "Freyr" frá
Eyrarbakka gerði út frá Sandgerði fyrri hluta vertíðar.] Frá Þorlákshöfn
gengu 5 trillur. Frá Stokkseyri gengu 7 vélbátar og ein trilla, en síðan
bættust tveir bátar (Hásteinn og Hersteinn ) við sem höfðu gert út frá
Sandgerði. Aflahæstur í Þorlákshöfn var
samvinnubáturinn "Jónas ráðherra" en
skipstjóri var Guðmundur J Guðmundsson á Eyrarbakka. Á Eyrarbakka var
"Öldungur" aflahæsti báturinn, en skipstjóri á honum var Sveinn Árnason í Akri.
Á Stokkseyri var " Haukur" aflahæstur og skipstjóri á honum var Ólafur Jónsson.
Þessa vertíð aflaðist einkar vel á heimamiðum, en þá gekk loðna mjög grunnt á
miðin. Böðvar Tómasson útgerðarmaður [vb. "Sísí"] á Stokkseyri setti þar upp
lifrarbræðslustöð sem þjónaði báðum þorpum. [Lifrarbræðsluvélina
smíðaði Guðmundur Jónsson verkfræðingur og kostaði hún 6000 kr.] Á
Stokkseyri unnu 105 menn við sjómennsku en aðeins 45 á Eyrarbakka og 50 í
Þorlákshöfn. Um sumarið var orðið fisklaust á heimamiðum og fóru nokkrir
Stokkseyrarbátar til veiða við Faxaflóa, en Bakkabátum var lagt. Næg vinna var
í landi um sumarið, við fiskverkun og landbúnaðarstörf. Um veturinn töpuðu
Eyrbekkingar einum bát, en það var "Freyja" eign Kristins Gunnarssonar o.f.l.
þegar báturinn losnaði af "bóli" og rak mannlaus út í brimgarð og sökk.
Skipakomur: Enn einu sinni varð fjaðrafok í höfuðstaðnum vegna innflutnings á vörum til Eyrarbakka. Að þessu sinni töldu menn að "Persil" [Þvottarefni, aðalega notað í þvottarhúsum] væri smyglað í stórum stíl með vöruskipum til Kaupfélagsins. [innfluttningur var í höftum á þessum tíma.] Skonnortan "Pax" kom þrisvar um sumarið og "Lydia" kom tvisvar. Þá kom gufuskipið "Eros" eina ferð. Skapaðist allmikil atvinna við þessar skipaferðir.
Formaður "Bjarma" látinn finna til tevatnsins. Heilum bílfarmi af "krötum" sigað á "Bárunna".
Báran samþykkti á aðalfundi nýjar kaupkröfur. Tímakaup í almennri dagvinnu
hækkaði um 10 aura, eða í 1 kr. Skipavinna hækkaði um 10 aura, eða í kr. 1.10.
Eftirvinna hækkaði um 25 aura, eða í kr. 1.40 og næturvinna um 30 aura, eða í kr.1.80. Helgidagavinna var ákveðin kr. 1.60.
Nýr formaður var kjörinn Þorvaldur Sigurðsson kennari og skólastjóri. Aðrir í
stjórn voru kjörnir Vigfús Jónsson ritari og Ólafur Bjarnason gjaldkeri. Í
varastjórn voru Kristján Guðmundsson, Jón Tómasson og Guðmundur J Guðmundsson.
Verkalýðsfélögin Báran á Eyrarbakka og Bjarmi á Stokkseyri ákveða að vinna
saman að baráttumálum sínum og skipuðu af því tilefni sameiginlega nefnd til að
vinna að samvinnu allra verkalýðsfélaga í landinu til þess fyrst og fremst, að
knýja fram kaupgjaldshækkun auk annara sameiginlegra hagsmunamála. [Þessa nefnd skipuðu þeir Gunnar
Benediktsson í Stíghúsi, form. Kristján Fr. Guðmundsson Stokkseyri og Árni
Jóhannesson Stokkseyri. Öllum félögum var sent bréf varðandi málið 18. febrúar
1936, og þau hvött til samvinnu og að skora á Alþýðusambandið að veita málinu
stuðning. "Samfylkingarnefndin" vann sjálfstætt að þessum hugsjónarmálum og
sendi jafnframt Alþýðusambandinu og Stjórnarráðinu samskonar hvatningabréf.]
Þetta var til þess að skapa óróa meðal Alþýðuflokksins sem var annar
stjórnarflokkurinn ásamt Framsókn, og svo Alþýðusambandsins, sem var einskonar
einveldi krata og ekki síst fyrir þá sök að nefndarmennirnir umræddu voru kommúnistar,
eða "Samfylkingarmenn" eins og þeir kölluðust. Alþýðusambandið lét formann
Bjarma á Stokkseyri sem þá var Björgvin Sigurðsson, finna til tevatnsins í
opinberum skrifum, og mátti hann þykjast ekki kannast við málið, þó nefndin
starfaði fullkomlega í umboði beggja félaga. Svo fór að Björgvin hét
Alþýðusambandinu að koma í veg fyrir svona "leynistarfsemi" og bréfið sem sent
var túlkað á þann hátt að væri "falsað", enda ekki sérstaklega tekið fram í
fundargerðum félaganna að nefndinni væri heimilt að skrifa bréf. Björgvin og
ASÍ fengu það þvínæst "óþvegið" frá Gunnari Benediktsyni fyrir að "sundra" í
stað " hjálpa". Upphófst af þessu mikill rígur milli Björgvins og Gunnars og í
framhaldi ofbeldisfullar tilraunir A.S.Í. til þess að láta reka Gunnar úr
félaginu. [Mikill lýðræðishalli þótti
innann Alþýðusambandsins á þessum árum] Skömmu fyrir páska var haldinn
fundur í verkamannafélaginu Bárunni á Eyrarbakka. Frá Reykjavík var þá sendur
heill bílfarmur af krötum til að "leiðbeina" fundarmönnum undir forustu Guðjóns
Baldurssonar. Stjórn Bárunnar sá sæng sína útbreidda og þótti vænlegast að
hlýða flokksfélögum sínum og mæla með þvi að Gunnar yrði rekinn, en tillagan
var kolfelld, því aðeins 7 menn greiddu með tillögunni atkvæði, þar af
stjórnarmennirnir þrír. Gunnar bar þá upp tillögu fyrir fundarstjóra um að
félagið skoraði á A.S.Í að beita sér í "vegavinnumálinu" en hann neitaði að bera
tillöguna upp. [Fundarstjóri var Þorvald
Sigurðsson, form. Bárunnar, en honum stóð nú hugur til að hverfa af Bakkanum,
því hann sótti skömmu síðar um skólastjórastöðu í Reykjavík.] Á haustfundi Bárunnar var samþykkt tillaga, um
að skora á A.S.Í og væntanlega
sambandsstjórn til að stuðla að samvinnu milli stjórnmálaflokka, smábænda og
verkalýðsins til að sporna gegn fasistavæðingu í landinu. Á næsta fundi Bárunnar voru gefin fyrirheit um stuðning félagsins
við "einingu" verkalýðsins um allt land. Þá var A.S.Í átalið fyrir þá afstöðu
Alþýðusambandsþingsins sem haldið var þá um haustið, þar sem fram kom greinilegur
ósamvinnuvilji þeirra alþýðuflokksmanna við Kommúnistaflokk Íslands.[samþykkt tillaga Gunnars Ben. í Bárunni,
en tilefnið var að Alþýðuflokkurinn
hafði gert þá samþykkt að engar deildir hans skildu hafa nokkur mök við
kommúnista] Þessi tillaga G.B. fæddi af sér enn eitt vandræðamálið fyrir
Þorvald, sem sá sig knúinn til að sverja af sér allt samneyti við kommúnista og
sverja Alþýðuflokknum trúmennsku og hollustu. Að "einingin" verði að lokum
aðeins undir merkjum Alþýðuflokksins var það leiðarljós sem hann kysi. Þar með
voru fyrirheitin um "einingu" verkalýðsins orðin harla lítils virði. Hinsvegar
brá svo við á verkalýðsfundi "Bjarma" [24. nóvember 1936] að helstu atvinnurekendur þar, sem voru
yfirlýstir íhaldsmenn sóttu fast að ganga í félagið, en verkamennirnir sem voru
af Alþýðuflokki, Kommúnistaflokki og Framsókn, stóðu fastir gegn þessari
"innrás" íhaldsins. Í desember héldu bæði félögin, Báran [06.12.1936] og Bjarmi fund, en þar mætti erindreki krata Jón
Sigurðsson. Virtist nú allt fallið í ljúfan löð, en á fundinum ályktaði Báran
að alþýðan öll þyfti að sameinast í einum flokki, og með hvatningu til allra
sem enn voru utan A.S.Í, að ganga þar inn.
Kommúnistadeild
stofnuð, Sjálfstæðismenn í "krossferð"
Deild innan kommúnistaflokksins var stofnuð fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri og
nágrannasveitir fyrir forgöngu sr. Gunnars Benediktssonar er þá var nýlega
fluttur á Bakkann og gengu þegar inn 20 manns. Stjórnmálafundur haldinn á
Stokkseyri átaldi ríkisstjórnarflokkanna fyrir að svíkja kosningaloforð með því
að hækka tolla á nauðsynjavörum. [Þá var
landsstjórnin í höndum Hermanns Jónssonar, Framsóknarflokki ásamt Alþýðuflokki]
Þá vildu Stokkseyringar að öll alþýða sameinaðist gegn fasistahættunni.
Samskonar fundur á Eyrarbakka vildi að kaupgjald í vegavinnu yrði hækkað í 1
krónu og að fangavinna yrði stöðvuð, en það samþykktu einnig Stokkseyringar. Þá
vildu menn m.a. að ofurlaun opinberra starfsmanna yrðu lækkuð og að lúxusskatti
yrði komið á. Ungir jafnaðarmenn úr Reykjavík héldu fund á Stokkseyri, en áttu
síðan skamma viðdvöl á Eyrarbakka. Vörður, félag sjálfstæðismanna hélt fund í
báðum þorpum. Voru sjálfstæðismenn þar að hefja krossferð gegn samfylkingu vinstrimanna.
Það bar við á fundinum að hópur ungmenna ataðist við fundarhúsið á Eyrarbakka
og viðhöfðu "skrílslæti" sem heimamenn voru þó ekki óvanir. Höfðu Varðarmenn
það fyrir satt, að þessi ungmenni kæmu frá uppeldisstöðvum rauðliðanna á
Eyrarbakka og væri það til marks um yfirgang og ofsa "Bolsanna". "Krossferð"
Varðarfélaganna hleypti illu blóði í verkamennina á Stokkseyri, sem sökuðu nú
sjálfstæðismenn um að reyna að ná yfirtökum á félagi þeirra "Bjarma", enda
höfðu nokkrir atvinnurekendur sótt það fast að ganga í félagið.
Sandkorn.
Stærsta gulrófa af uppskeru Eyrbekkinga vóg
kg. 5,250 og kom hún upp í garði Gísla læknis Péturssonar. Það slys
vildi til að þegar 11 ára sonur Hannesar Andréssonar verkamanns var staddur í járnsmiðjunni, þar sem smiður
var að berja glóandi járn á steðja, að brennheit járnflís lenti í auga hans og
stórskaðaði. Þórður Jónsson dálkahöfundur,
mælist til þess að vegur verði byggður um þrengsli til að bæta samgöngur að
vetrarlagi, en Hellisheiði var þá mikill farartálmi vegna snjóþyngsla. Frá
Samvinnuskólanum útskrifaðist Ingibjörg Heiðdal, frá Litla-Hrauni. Magnús
Torfason sýslumaður lætur af störfum. Hafði hann þá gengt embættinu á fimmta
áratug. [Í hans stað var skipaður Páll
Hallgrímsson Kristinssonar fyrrum forstjóra Sambandsins]. Glímufélagið
Ármann í R.vík kom í heimsókn og hélt hér sýningu. [Félgaið stofnaði Guðmundur Guðmundsson, kaupmaður í Heklu á Eyrarb.]
Nýtt hús, "Mörk" var byggt fyrir Póst og
Síma, Búnaði var komið fyrir á símstöðinni svo hún gæti þjónað að nóttu sem
degi í neyðartilvikum, en neiðarhringing var 5 stuttar hringingar. Sláturdilkar
frá Eyrarbakka voru 755 þetta haust. Meðalþungi var 12 kg. Verkstjóri við
atvinnubótavinnuna i "Síberiu" var Haraldur Guðmundsson frá Háeyri.
Látnir: Jón Ólafsson (80). Hann var um árabil þjónn Níelsen hjónanna í Húsinu. Jón Einarsson (70) hreppstjóri og formaður í Mundakoti. Kona hans var Guðrún Jóhannsdóttir, þau voru foreldrar Ragnars, er kendur var við smjörlíkisgerðina í Smára [Ragnar í Smára]. Guðmunda J Níelsen, (51) eftir langvarandi veikindi. Hún var merkiskona og skörungur. Vert í Tryggvaskála, höndlari á Eyrarbakka, söngvaskáld og organisti m.a. en bjó í Reykjavík síðustu ár. Sighvatur Jónsson (31) stýrimaður af mb. Þorsteini. Hann féll fram af höfninni í Örfisey. Bjó þá í Reykjavík. Þorsteinn Einarsson (15) í Sandvík. Sigríður Finnbogadóttir (11) í Suðurgötu. Jóhann Jóhannesson (0) Breiðabóli.
Lagðir fjarri: Jón Vigfússon (John W Johnsson) í Bellingham Wash.t. U.S.A. han starfaði um nokkur ár við Háeyrarverslun. Kona hans var Kristín Magnúsdóttir frá Garðbæ. Matthías Ólafsson Trésmiður í R.vík. Hann nam iðn sína hér á Bakkanum hjá Eiríki Gíslasyni.
Af nágrönnum: Í Sandvíkurhreppi ("Síberíu") var tilbúið land undir kornyrkju fyrir 10 samyrkjubú, sem þar var áætlað að reisa. Enskur togari strandaði úti fyrir Loftstöðum. Bifreiðaslys var við Kögunarhól. Voru sjö manns í bifreiðinni þegar framfjaðrirnar brotnuðu undan henni og endasentist hún út í skurð með þeim afleiðingum að fjórir menn slösuðust og eitt barn.
Tíðin: Norðanátt var algengust út febrúar, en í apríl var kominn góð tíð sem hélst fram á sumar. Um heiskapartímann lagðist í rigningar fram á vetur. Fyrsta haustlægðin olli tjóni á Sjógarðinum, en lægðinni fylgdi mikill sjógangur. Sjógangur var óvenju mikill fram á vetur og olli stundum smá skemdum á sjógarðinum, en þann 19. nóvember gerði mesta flóð síðan 1925 og eiðilagði nokkuð af matjurtagörðum þegar sjór flæddi yfir sjógarðinn, en ekki urðu verulegar skemdir á sjógarðinum sjálfum fyrir þorpinu, en þar sem hann liggur milli þorpanna urðu allmiklar skemdir. Kartöflukláði gerði vart við sig og olli það mönnum miklum heilabrotum.
Heimild: Alþýðubl. Morgunbl. Nýji Tíminn, Skutull, Verklýðsbl. Vísir, Ægir