05.10.2012 00:03
Frostaveturinn 1918
Sjaldan hafa eins miklir kuldar
hrjáð landsmenn eins og veturinn 1918, nema ef vera skildi veturinn 1880 til
1881 sem talinn er að hafi verið mun kaldari. Engu að síður var veturinn 1918 nefndur
"Frostaveturinn mikli". Mesta kuldatíðin hófst 6. janúar og stóð tæpar þrjár
vikur hér sunnanlands en lengur fyrir norðan. Á sama tíma hafði verið
viðvarandi kolaskortur í landinu til upphitunar vegna veraldar stríðsins sem
þarfnaðist óhemju magns kolaeldsneytis. Á Stokkseyri og Eyrarbakka voru menn
hræddir um að ísalög mundi brjóta bátana og þann veg eyðileggja útræðið í
byrjun vetrarvertíðar, því með ströndinni mældist stundum -22°C og hefur þá mörgum
þótt kalt í beituskúrunum á Bakkanum. Sumstaðar á landinu var þó mun meira
frost, eða allt að -30 stigum. Hagalaust var á suðurlandi um veturinn alveg fram
í febrúar, en þá tók að hlána hratt við suðurströndina með austan stórviðrum í
stað norðan kaldviðra og um miðjan febrúar voru grös tekin að grænka. Hafþök
voru þá fyrir öllu Norðurlandi, vestan fyrir Horn og suður með Austurlandi, en
rekís eða íshrafl alveg suður að Papey. Tvö bjarndýr að minstakosti voru skotin
á þessum vetri, annað í Sléttuhlið, hitt á Melrakkasléttu. Hvalir sáust dauðir
í hafísvök norður af Siglufirði. Mannheldur ís var um tíma á höfninni í
Reykjavík og á Seyðisfirði var lagnaðarísinn 10 þumlunga þykkur. Þá skemdist
mikið af útsæðiskartöflum landsmanna vegna kuldana og sumstaðar fraus í brunnum.
Í Vestmannaeyjum var sjávarhitinn aðeins 1 gráða þegar kaldast var. Drapst þá koli
og sandsíli þar í hrönnum í höfnni. Sunnlenskir sjómenn töluðu um að hafstraumar
væru harðari en venjulega þennan vetur, en yfirleitt er talið að óvenju mikil
hafísmyndun, norðanstormar og háþrýstingur hafi orsakað þennan mikla kulda á landinu.