25.09.2012 00:13
Moðsuða íslenskra húsmæðra
Moðsuða var stundum notuð af íslenskum húsmæðrum á fyrri styrjaldarárunum (1914-1918) þegar kol skorti mjög hér á landi: Aðferðin fólst í því, að taka matarpottana af eldinum, þegar soðið hafði hæfilega lengi í þeim, og birgja þá síðan svo vel, að ekkert loft komist að; við þessa einföldu aðferð hélst suðan í pottinum nægilega lengi til þess að sjóða matinn að fullu. Að þessu var eldiviðarsparnaður,og tímasparnaður við eldamennskuna, því ekki þurfti að standa við pottana til þess að hræra í þeim; grauturinn passaði sjálfan sig í moðsuðunni. Kassarnir sem pottarnir voru byrgðir í, voru venjulegast troðnir upp með moði eða heyi vegna þess að hey fellur svo vel að pottunum, en vel mátti nota fleira en hey til þessa, t. d. gamlar, hreinar tuskur eða samanundin dagblöð. Aðferð þessi var oftlega notuð í Húsinu á Eyrarbakka á fyrrihluta 20. aldar, en var einnig alþekkt aðferð erlendis á fyrri tímum.
Íslendingum mörgum þykir orðið "moðsuða" vera eitthvert skammaryrði um illa gerðan hlut, en vel má vera að landanum hafi sjaldan tekist vel með moðsuðuna og því tileinkað sér þetta orðfæri í þessari merkingu. Guðmunda Nielsen lýsir útbúnaðinum svo: Venjulegast eru notaðir algengir trékassar, en vel má nota ýms önnur ílát, t. d. ker, kirnur, tunnur o. fl. Á stórum heimilum er ágætt að nota tunnur, sem sagaðar eru sundur í miðju, og getur maður þannig fengið tvö góð moðsuðuílát úr einni tunnu. Lok eiga að vera í öllum moðsuðuílátum og falla þétt og vel. Ef trékassar eru notaðir, er bezt að hafa lokin á hjörum og festa þau niður með hespu og keng. Það er skemtilegast að láta smíða hæfilega kassa, en oftastnær má fá hjá kaupmönnum tilbúna kassa, sem geta verið ágætir. Hlemmarnir þurfa að vera góðir og falla vel að pottunum, því komist gufan upp úr þeim, fer suðan fljótlega af og maturinn verður kaldur og slæmur. Bezt er að hafa tréhlemma. Koddarnir þurfa helzt að vera tveir, annar minni og hinn stærri; litli koddinn er lagður beint ofan á pottinn, þegar byrgt er, og stóri koddinn þar ofan á; hann þarf að vera það stór, að hægt sé að troða honum niður með potthliðinni. Báða koddana má fylla með heyi, en þó er enn betra að hafa fiður í hinum minni. Utan um koddana þarf að hafa ver, sem hægt er að taka af og þvo þegar þörf gerist. Þá segir Guðmunda m.a. að grautar þurfa að standa í moði 2-3 tíma, en þola þó vel 5-6; sumir grautar, t. d. hafragrautur, geta vel staðið í moði heila nótt, en eru þá farnir að kólna töluvert að morgni.
Heimild: Guðmunda Nielsen, Þjóðólfi 1917