04.03.2012 00:24
Ferskfisk-flutningurinn
Einu sinni sem oftar var talsvert atvinnuleysi á Eyrarbakka vegna fiskleysis, en 30 manns störfuðu jafnan við fiskvinslu í frystihúsinu á fyrstu árum þess. Til að bregðast við vandanum tóku Eyrbekkingar upp á því haustið 1954 að kaupa togarafisk úr Reykjavík og fluttu hann austur yfir Hellisheiði til vinnslu í frystihúsinu á Eyrarbakka. Að öllum líkindum var þetta í fyrsta sinn sem flutningar á ferskum fiski fór fram á þjóðvegi milli landshluta. Til flutninganna voru notaðir 2-3 tonna vörubifreiðar. Ekki máttu Eyrbekkingar alfarið sjá um þessa flutninga, þar sem bifreiðastjórafélagið "Þróttur" í Reykjavík kom í veg fyrir það. Var það því að samkomulagi að flutningunum yrði skipt jafnt á bifreiðastjóra frá Eyrarbakka og Reykjavík og var venjulega flutt 15-20 tonn í einu. Ekki höfðu Eyrbekkingar þó stöðuga atvinnu af þessu fyrirtæki, þar sem togarafiskurinn fékkst ekki keyptur, nema þegar þannig stóð á að fiskvinnslur í Reykjavík hefðu ekki undan að vinna afla sem barst á land. Flutningarnir þóttu þó það kosnaðarsamir að vinnslan gerði ekki meira en að standa undir sér. Síðarmeir var ekki óalgengt að fiskur væri sóttur suður til Hafnafjarðar og lengri leiðir til vinnslu á Eyrarbakka.
Heimild: Morgunblaðið 19.02.1954