15.11.2011 21:57

Frá Eyrarbakka, út í Vog

Guðmundur Ísleifsson í sjóklæðumSumarið 1919 kom Bjarni Sæmundsson til fiskiransókna á Eyrarbakka og Stokkseyri.  Hér dvaldi hann  frá 9-23. júlí og notaði hann ferðina m.a. til að kynna sér mótorbátaútgerð sem þá var mjög að ryðja sér til rúms hér um slóðir en einig skipalegur þær er hér voru notaðar. þá var starfandi hér fiskifélagsdeildin "Framtíðin", en í stjórn hennar voru árið 1919: Guðmundur Ísleifsson, Sigurjón Jónsson og Einar Jónsson, en félagsmenn munu hafa verðið um 50. Heimamenn fræddu Bjarna um erlenda botnvörpunga sem stunduðu veiðar við landhelgismörkin (4 sj.m.) á árunum áður og fram til 1915, en oft voru 20 erlend skip á miðunum samtímis sem leiddi til aflasamdráttar hjá heimamönnum. Sérstakann áhuga hafði Bjarni á ýsu og lýsuafla á Eyrarbakkamiðum og varð hann margs vísari, en það var aðal fiskaflinn yfir sumarið og einkum veiddur til heimabrúks fram að slætti. Með tilkomu mótorbáta var unt að sækja á dýpri mið, svo sem "Gullkistuna" í Selvogsbanka ef vel viðraði að sumarlagi, en áður höfðu aðeins stærri skip sótt þangað í sumarveiði. - í ágúst 1893 fiskaði kúttarinn "Tojler" úr Reykjavík, skipstj. Sigurður Jónsson, á 60 faðma dýpi, 16 sjómílur SV. af Selvogstöngum þorsk og stútung (legufisk) og um 200 lúður. Í júnímán. 1897 reyndi kúttarinn "Kastor" úr Reykjavík, skipstj. Sölvi Víglundarson, á 56-78 faðma dýpi, 16-19 sjómílur SSV. af Selvogstöngum og fékk þar vænan göngufisk, með síld í maga, og mikið af heilagfiski. í ágúst 1898 fékk sama skip á annað þúsund af þorski á 60-70 faðma dýpi, 12-18 sjómílur SV. af Selvogstöngum. Það var legufiskur, með ýmiskonar fæðu í maga.- Sá sem fyrstur lagði á djúpið  á mótorbát  frá Eyrarbakka og varð þar af leiðandi brautryðjandi í þessu tilliti, var Árni Helgason í Akri, sem þá var einn af ötulustu yngri formönnum á Eyrarbakka. Það var sumarið 1912. Næsta sumar bættust fleiri við, bæði frá Stokkseyri og Eyrarbakka og voru veiðar á þessu svæði  stundaðar ætíð síðan. Stundum fóru bátarnir út í Selvogssjó, Herdísarvíkursjó, og út fyrir Krísuvíkurberg, alt út i Grindavíkursjó (Hælsvík) og brúkuðu lóð eða færi.

Heimild: Andvari 1919 - Ægir 1919

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07