13.11.2011 17:46
Verslun hefst á Sokkseyri.
Eyrarbakkaverslun var á sínum tíma stórveldi í verslunarrekstri, en til hennar sóttu bæði Árnesingar, Rangæingar og Vestur-Skaptfellingar. Þá höfðu nokkrir einstaklingar verslun á Eyrarbakka með misjöfnum árangri og eru Einar borgari Jónsson og Þorleifur ríki Kolbeinsson kunnastir. Um 1880 bjó ungur maður, Bjarni Pálsson í Götu í bæjarhverfinu á Stokkseyri og hafði hann starfað um skeið hjá Eyrarbakkaverslun. Hann sá hagnaðarvon í því að setja á fót verslun á Stokkseyri, en lestirnar austan úr sýslum runnu þar hjá á leið sinni út á Bakka. Að vísu hafði hann ekki verslunarleyfi, en það sem verra var, að á Stokkseyri var engin löggilt höfn. Þá bar það til eitt vor, að sr. Stefán Stephenson prestur á Ólafsvöllum kemur að Götu og biður Bjarni hann að hefja máls á því á þingmálafundi, að löggilt verði höfn á Stokkseyri. Prestur gerir svo og hafði sitt mál fram á fundinum, þrátt fyrir nokkur andmæli. Um þingtímann var Bjarni í Reykjavík, til þess að útskýra málið, því talsverður andróður var gegn því, en svo lauk, að höfnin var löggilt 1. apríl 1884. Ekkert varð þó úr verslun á Stokkseyri, að sinni, og drukknaði Bjarni á þrítugasta aldursári, árið 1887 er sexmannafar er hann var formaður fyrir, fórst við sjöunda mann í þrautalendingu við Þorlákshöfn.
Um þessar mundir var í bígerð að stofna pöntunarfélag í Árnessýslu. Gekkst Skúli alþingismaður Þorvarðsson á Berghyl fyrir því að nokkru. Sóttist hann eftir liðsinni Rangæinga. Var einn þeirra Þórður alþingismaður Guðmundsson á Hala, og boðaði hann til fundar á Stórólfshvoli árið 1888. Var þar pöntunardeild stofnuð, og Þórður kosinn deildarstjóri. Fjelagið var nefnt "Kaupfjelag Árnesinga". Tilgangur þess var að útvega "betri vörur og betra verð". Á þessum tímum voru allar ár í austursýslunum óbrúaðar, og olli það félaginu miklum erviðleikum. Félagið sótti og sendi vörur sínar til Reykjavíkur, og þótti þeim örðugt, sem lengsta áttu leiðina, eins og von var. Talsverður hagur þótti mönnum að því að versla við félagið, bæði með útlendar vörur og innlendar. Þeir sem ekki áttu mjög langa leið á »Bakkann«, en langt til Reykjavíkur, treystu sér ekki til að halda áfram viðskiptum við félagið, sökum erviðra ferðalaga. Var þetta til umræðu á fundi á Húsatóftum haustið 1889. Börðust þeir Þórður á Hala og síra Jón Steingrímsson í Gaulverjabæ einna mest fyrir því, að skipta félaginu. Vildu uppsveitamenn í Árnessýslu versla áfram í Reykjavík, en Rangæingar og sumir Ámesingar mynduðu nýtt félag, sem kallað var "Stokkseyrarfélagið". Var ákveðið að fá vöruskip að Stokkseyri og kom fyrsta skipið 1891. Þetta skip kom tvisvar um sumarið, en sigldi nær því tómt til baka, í bæði skiptin. Aðalframkvæmdarmaðurinn í öllu þessu mun hafa verið Páll Briem, þá sýslumaður, en síðar amtmaður, fyrir norðan. Hann var formaður Stokkseyrarfélagsins, þangað til hann flutti norður.
Fyrsta verslunarskipið sem kom til Stokkseyrar fór ekki inn á höfnina, en árið eftir (11. Júlí 1892, ) kom Þýska skonnortan"Tankea", rúmlega 90 tonn að stærð og var það fyrsta skipið sem lagðist inn á Stokkseyrarhöfn. Þá var farið að versla með sauði til Englands, og námu viðskiptin 50 þús. kr. fyrsta árið. Verð á sauðum var 16-24 kr. Litlu síðar komust viðskiptin upp í 90 þús. kr. og urðu aldrei hærri síðan. Mestan hnekkir beið Stokkseyrarfæelagsins, þegar innflutningur á lifandi sauðfjé til Englands var bannaður. Komst félagið þá í 27 þús. kr. skuld við umboðsmann sinn, L. Zöllner.
Fyrsti afgreiðslumaður félagsins var ívar Sigurðsson, en hann varð fyrstur til að fá borgarabréf á Stokkeyri árið 1889. Hann hafði byrjað að versla í mars það ár í smábúð á Stokkseyri í litlu húsi, sem Grímur Gíslason í Óseyrarnesi átti þar. Hafði verið svo til ætlast, að þeir Grímur og Bjarni í Götu hefðu þar smáverslun, en það fórst fyrir við fráfall Bjarna sem fyrr er getið.
Það stóð verslun á Stokkseyri talsvert fyrir þrifum að þar var engin vörugeymsla fyrir hið nýja félag og rættist ekki úr því fyr en 1894, að Grímur í Nesi réðst í að byggja tvílyft geymsluhús, sem var 40 álna langt, 12 álna breitt. (brann til kaldra kola 1927) Ólafur Árnason var umsvifamikill kaupmaður á Stokkseyri um langt skeið. Hann stofnaði verslun árið 1894 í skjóli Stokkseyrarfélagsins í fyrstu en sá svo um pantanir þess síðustu árin. Árið 1907 stóð Ólafur að stofnun kaupfélagsins Ingólfs ásamt bændum einkum úr Rangárvallasýslu. Formaður fjelagsins var kosinn Eyjólfur Guðmundsson í Hvammi. Kaupfélagið Ingólfur rak mikla verslun fram yfir 1918 með útibúi á Eyrarbakka en starfsemin lognaðist útaf 1923.
Við manntalið 1890 voru á Stokkseyri 269 menn, þar af örfáir þurrabúðarmenn, en 1914 bjuggu þar 658 manns (allt þurrabúðarmenn) en þá var Stokkseyri í mestum blóma. Á þessum árum voru flest allir torfbæirnir rifnir og timburhús byggð.
Aðrir verslanarekendur á Stokkseyri undir lok 19. aldar: Árið 1896 byrjaði Jón Þórðarson, kaupmaður í Reykjavík, með verslun á Stokkseyri, en Björn Kristjánsson flutti þangað vörur um tveggja ára skeið. Árið 1898, keypti Edínaborgarverslunin í Reykjavík reksturinn og hafði hún þarna útibú í nokkur ár en þá tók Jón Jónsson & Co við henni. Umsvifamikil vínsala var í þessum verslunum og drykkjuskapur óhóflegur á þessum árum. Verslunarfélagið "Ingólfur" tók síðan þessa verslun yfir. Þá má geta þess að Lefolisverslun á Eyrarbakka hafði útibú á Stokkseyri um nokkur ár, til saltgeymslu og fisktöku, m. fl. Um 1928 var rekin verslun á Stokkseyri undir nafninu "Brávellir" en síðan var Kaupfélag Árnesinga lengst af með útibú á Stokkseyri.
Stokkseyrarhöfn: Eins og fyrr er getið hafði Bjarni Pálsson haft orð fyrir löggildingu hafnar á Stokkseyri skömmu eftir 1880. Grímur Gíslason í Óseyrarnesi lét síðan setja þar landfestar. Ólafur Árnason kaupmaður, hafði forgöngu um, að fengnir voru kafarar frá Danmörku, til að dýpka skipaleiðina og víkka höfnina. Var unnið að þessu í þrjú sumur og mun verkið hafa kostað um 24 þús. krónur. Lagði landssjóður til 16 þús., en Rangárvallasýsla, Árnessýsla og Ólafur Árnason afganginn. Höfnin var þó aldrei hættulaus, því alls hafa slitnað upp á höfninni fjögur verslunarskip, og þrjú hafa strandað annarstaðar, áður en þau næðu höfn. Af þessum 7 skipum strönduðu þrjú, sumarið 1906. Ekkert gufuskip komst inn á sjálfa höfnina, en fyrsta gufuskipið sem sigdi til Stokkseyrar var sænska skonortan "Toncea".
Heimildir: Páll Bjarnason /Tímarit kaupfjelaga og samvinnufélaga 1914. http://www.landogsaga.is/section.php?id=9&id_art=141&id_sec=172
http://www.heimaslod.is/index.php/Blik_1971/P%C3%A1ll_Bjarnason,_sk%C3%B3lastj%C3%B3ri,_fyrri_hluti
http://eyrbekkingur.blogspot.com/2011/03/sjoslys-i-rorum-vi-eyrarbakka.html