08.11.2011 21:46
Eyrarbakkaþjófnaðurinn 1886
Til sögunnar eru nefndir Þorfinnur Jónsson (f. 10. júní 1867), Magnús þorláksson (f.18. september 1866), Jón Magnússon í Svarfhóli (f. 24. marz 1852), Eyjúlfur Símonarson á Reykjavöllum (f.6. febrúar 1857) og Loptur Hansson (f.2. júní 1824). Voru þeir Þorfinnur og Magnús vinnumenn að Laugardælum í Flóa hjá Guðmundi lækni Guðmundssyni, veturinn 1886. Þorfinnur, Magnús og Jón stunduðu á árunum áður sauðaþjófnað og ýmiskonar gripdeildir, en Eyjúlfur og Loptur nutu yfirleitt góðs af með þeim félögum. Að kvöldi dags hinn 2. febrúar ákváðu þeir félagar Þorfinnur og Magnús að fara fótgangandi í ránsferð niður á Eyrarbakka og höfðu þeir með sér skaröxi eina til verksins. Smá föl og svellalög voru yfir allri mýrinni og tunglbjart sem gerði þeim gönguna léttari. Undir miðnætti voru þeir komnir í þorpið og brutust þeir fljótlega inn um glugga í Lefolii-verslun, (Guðmundur Thorgrímsen var þá verslunarstjóri) kveiktu þar ljós og stálu ýmsum búðarvarningi, svo sem dúkum, tóbaki, sykri, talsverðu af brauði, hnífum sem þeir prófuðu bitið á með því að skera gólfteppi í lengjur, speglum, þjölum, treflum, lérefti, sjölum, stígvélum, skyrtum, klútum, sápu, smjöri, vínflösku o. fl. matarkyns, sem þeir létu ofan í 2 poka, er þeir einnig tóku í búðinni. Þeir fóru því næst út úr húsinu sömu leið og þeir komu inn í það, og höfðu pokana með sér; tók þá Þorfinnur skíðasleða, er hann fann í bæjarþorpinu á Eyrarbakka og óku þeir þýfinu um nóttina á sleða Þessum heim að Laugardælum og fólu Það í heyi í heygarðinum en komu sleðanum niður um vök í Ölfusá. Síðar tóku þeir þýfið Þaðan og geymdu það um stund í Coghillsrétt (John Coghill sauðakaupmanns )og víðar, allt þar til eftirhreitur þýfisins fannst og málið komst upp. Höfðu þá allir fyrnefndir félagar hagnýtt sér hluta þýfisins á einhvern hátt. En þetta var ekki fyrsta ránsferðin niður á Bakka; Á þorra 1885 stálu þeir félagar, Þorfinnur, Jón og Eyjúlfur, jakka á Eyrarbakka, tilheyrandi Jóni í Norðurkoti, og lenti hann hjá þorfinni á endanum. Þá stálu þeir ýmsu lauslegu frá Guðmundi bókbindara Guðmundssonar sem og húsbónda sínum að Laugardælum.
Sýslumaður og lögreglustjóri var þá Þórður Guðmundsson í Gerðiskoti. Daginn eftir fyrrgreinda ránsferð voru sleðaförin eftir þjófanna rakin allar götur upp í Laugardælahverfi, en þá var orðið svo dimt að ekki var rakið lengra þennan daginn, en um nóttina snjóaði og huldi fönnin allar slóðir næsta morgun. Leitarmenn höfðu fundið í sleðaförunum sykurmolar, kaffibaunir og tvíbökur. Þeir töldu því ranglega í fyrstu að slóðin hefði verið gerð til að villa um fyrir leitarmönnum.
Í þessu máli voru átta manns lögsóttir, tvær konur sýknaðar og 6 dæmdir.
Þorfinnur og Magnús voru dæmdir í landsyfirréttardómi 1887 til 3 ára betrunarhúsavinnu. Jón og Eyjúlfur voru dæmdir til 4 ára betrunarhúsavinnu, en Loptur fékk 20 daga fangelsi við vatn og brauð. Þá var Hólmfríður Loptsdóttir (f. 18. nóvember 1837), vinnukona Lopts 5 daga fangelsi við vatn og brauð fyrir að matreiða hin stolnu matvæli úr Eyrarbakkabúð.
Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum
Þjóðólfur 1886 og 1887.