11.06.2011 00:28
Eyravegur eða Eyrarvegur?
Eitthvað hafa menn verið að velta vöngum yfir því á Selfossi hvort sé réttara að tala um Eyrar-veg eða Eyra-veg.
Elstu heimildir um Eyrarveg eru líklega frá 1937 en þar minnist Tíminn (27.tbl.1937) á lagningu Eyrarvegar í umfjöllun um sunnlenska vegi. Um og eftir 1956 er jafnan talað um Eyraveg á Selfossi í dagblöðum. Í aðalskipulagi Árborgar 2005 heitir vegurinn Eyra-vegur en í auglýsingu þar um er einnig talað um Eyrar-veg. "Deiliskipulag lóðanna Eyrarvegur 11-13 á Selfossi.
Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum hefur bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar samþykkt þann 20. október 2005 tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðanna 11-13 við Eyrarveg á Selfossi"
Í símaskránni búa Selfyssingar við Eyraveg en mörg fyrirtæki kenna sig við Eyrarveg á heimasíðum sínum. Á gúggul eru 106.000 atriði þar sem vegurinn er kenndur "Eyrarvegur Selfossi" en 32.500 atriði með "Eyravegur Selfossi".
Upphaflega var vegurinn nefndur "Fluttningabrautin að Ölfusárbrú" þegar hann var lagður um 1900. Síðar var farið að tala um Eyrarbakkaveg enda liggur vegurinn niður á Eyrar-bakka. Þegar Selfossbyggð færðist vestur fyrir brú töluðu Selfyssingar jafnan um "Eyraveg" en í orðanna hljóðan var Selfyssingum einnig tamt að tala um "Austuveg" í stað Austurveg og Eyra-bakka í stað Eyrar-bakka, þeir fóru ekki í Kaup-félagið heldur kau-félagið og bíllinn fór á ver-stæði en ekki á verk-stæði.
Nafnið Eyrar-vegur þekkist víða svo sem á Akureyri, en líkast til er aðeins einn vegur á landinu nefndur Eyra-vegur.