26.03.2011 00:24

"Svona var að senda flöskuna tóma"

frá EyrarbakkaKolbeinn hét maður Jónson ættaður af Lómatjörn í S-Þingeyjasýslu (f.15.09.1756). Það hafði verið mikill snjóavetur á Suðurlandi og skömmu eftir nýár 1788 var Jón Þórðarson (ríki í Móhúsum) þá ungur að árum, að byggja snjóskála fram af fjósinu hjá fósturforeldrum sínum á Refstokki. Hann verður þess þá var að ókunnur maður stendur og starir þögull á sig. Jóni bregður í brún og spyr hver maðurinn sé, en hinn ansar engu. Spyr Jón þá aftur " Hvaðan ber þig að og hvert er erindið"? Svarar þá maðurinn "Kolur er ég nefndur og kem að norðan, en fái ég gistingu í nótt má vera að meir fáir þú að vita af mér og ferðum mínum, en skaltu nú láta þetta, þér nóg vera". Eftir litla þögn sagði Jón " Þú er drjúgur yfir þér, en svo líst mér að þú sért ekki allur þar sem þú ert séður" Fékk Kolur þá gistinguna og var þeim vel til vina.

Kolbeinn var faðir Jóns Kolbeinssonar eldri (f.1789), Hafliða (f. 1756-Kambránsmanns), Steingríms (f. 1824- drukknaði ásamt Hafliða 1846) og Þorleifs ríka á Háeyri (f. 1798), Sigríðar (f. 1793-Sigga Kola var einsetukona) Helgu (f. 1749-dó ung) Guðbjargar vinnukonu (f.1799), Jóns yngra (f. 1800-Kambránsmanns) Málfríðar (f. 1806-Vesturfara) og Ólafar vinnukonu (f.1807), en kona hans fyrri hét Þuríður Jónsdóttir frá Eyrarbakka, en önnur kona hans var Ólöf Hafliðadóttir úr Holtum, og sú þriðja hét Aldís. Eftir að Jón ríki fór að búa á Móhúsum byggði Kolbeinn bæ þar skamt frá á "Stelpuheiði" er nefdist Upp-Ranakot.

Sagt er að draugur eða álfur hafi haft Kolbein með sér um þriggja daga skeið, en hann lét þó aldrei uppi hvað með þeim fór, en víst var að skuggalegur náungi með skotthúfu hafi leitað Kolbein uppi um langan veg uns þeim bar saman að Upp-Ranakoti. Oft var þröngt í búi hjá Kola og kvað hann svo um sjálfan sig þegar hann kom heim af vertíð með fimm fiska:

Heldur Kolur heim úr veri,

hlut með rýran,

Engan mola á af sméri,

og illa býr hann.

Kolbeinn átti sérstaka og fágæta flösku er af sjó hafði rekið. Hún var áttstrend og þótti forkunnar fögur. Flösku þessa var Kolur vanur að senda Þorleifi á Háeyri og fékk hana til baka fulla af brennivíni, en dag einn kom flaskan tóm aftur frá Þorleifi og setti Kol þá hljóðan. Flöskuna sendi hann ekki oftar. Þegar Kolur var látinn, vildi Þorleifur skenkja líkmönnum brennivín úr flöskunni fögru og lagði hana ofur varlega á borðið, en í þeim svifum klofnar flaskan að endilöngu svo vínið flóði fram og ekki dropi varð eftir. Brá Þorleifi og varð hann fölur og fár við, en sagði svo hálfhátt "Svona var að senda flöskuna tóma"! Var þetta síðan haft að orðatiltæki þegar menn sáu um seinan hvað rétt bar að gera.

Heimild: Austantórur, Saga Þuríðar formanns.

Flettingar í dag: 573
Gestir í dag: 171
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260863
Samtals gestir: 33798
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 19:57:00