23.03.2011 00:20
Sjaldan vísar ormur á veiðistað
Þann 28. maí 1881 var tungl ný útsprungið og hádegisfjara. Sjómenn fóru í maðkasand að venju, en áttu þó ekki von á miklu því leiran var svo til uppurin. En þó brá svo við að þessu sinni að maðkurinn óð uppi og aflaðist meira en þörf var á til róðursins, en það voru tvö skip og einn bátur sem réru þennan dag. Það var trú manna og reynsla að ef "maðkur óð uppi" þá gaf sjaldan með hann svo að gagni yrði og sú varð reyndin í þetta sinn.
Sjór var lágdauður og lygn en loft í drunga. Lóðirnar voru beittar í skyndi og haldið út á miðin. Er tími kom til að draga inn lóðirnar var sjór farinn að ókyrrast allmikið og flest brimkenni gerðu vart við sig. Drjúg undiralda, sog og straumiður strektu lóðirnar. Purpuralitar marglyttur flæktust um árablöðin og sjór allur rauðflekkóttur eins og blóðvöllur víkinga. Straumfallið jókst svo ört að skipin bar af leið meðan dregið var inn, en varla kvikindi var á nokkrum öngli. Skipin leituðu lands svo fljótt sem verða mátti, því brátt myndu öll sund lokast. Tvö skip komust inn áfallalaust en þriðji báturinn (fjögramanna far) barst á með fimm mönnum og skolaði tveim bakborðsræðurum í brimgarðinn með árum og ræðum án nokkurar vonar um björgun. Torfi hét maður og var Jónsson, réri hann við annan mann á stjórnborðið og tók nú til sinna ráða. Skaust sem elding á bakborð með ár sína og réri við hné sér á bert borðið og komust þeir þannig heilir inn úr brimgarðinum.
Heimild: Austantórur.
(Í öðrum heimildum er þessi bátur sagður frá Stokkseyri og má vel vera að saga þessi sé þaðan upprunalega)