19.01.2011 00:04

Elín í Akbraut

Akbraut-Smellið á myndina til að sækja nýja mynd frá Eyrarbakki.isNærri því hvert hús á Eyrarbakka á sína sögu. Sum hús fá ef til vill meiri athygli en önnur vegna þess að þar hafði einhvern tíman búið frægt eða auðugt fólk. Önnur hús eiga kanski ekki síður merkilega sögu vegna þess að tilvist þeirra ber þeirri lífsbáráttu vitni sem háð var, oft að litlum efnum og erfiðleikum. Mörg litlu snotru húsin á Bakkanum eiga á margan hátt sammerka sögu í átakanlegri lífsbaráttu alþýðufólks um aldamótin 1900.

Elín PálsdóttirUm og eftir 1870 voru vesturferðir (til Kanada) mjög í tísku og einn af þeim mörgu sem brá búi sínu í þeim tilgangi var Páll Andrésson í Gróf í Hrunamannahreppi Magnússonar frá Syðra-Langholti og kona hans Geirlaug Einarsdóttir Jónssonar frá Húsatóftum á Skeiðum. Það var árið 1872 sem þau héldu til niður á Eyrar, en þar sem Geirlaug var með barni, hugnaðist henni ekki að halda út á hafið mikla þegar tíminn kom að ýtt skildi úr vör. Þau settust því að á Grjótalæk austan Stokkseyrar. Þar fæddist Andrea Elín Pálsdóttir (1872-1950 ) og fluttu þau þá í Nýjabæ á Eyrarbakka næsta vor, þar sem Páll stundaði sjósókn á egin skipi og búskap jöfnum höndum. Páll fórst með skipi sínu við annan mann á Einarshafnarsundi 1894, en aðrir björguðust, þar á meðal Björgúlfur Ólafsson, er þá var trúlofaður Elínu. Þau settust að í Litlu-Háeyrarhverfi 1897. Eftir stutta sambúð missti hún Björgúlf frá kornungu barni (Pálína) og öðru ófæddu (Björg) og stóð hún ein og vann fyrir sér og börnum með saumaskap og handavinnu þar til árið 1907 að hún giftist Þorbirni Hjartarsyni (1879-1956) frá Auðsholtshjáleigu í Ölfusi og eignuðust þau fjögur börn. Þar sem fyrir var lítill torfbær breytti Þorbjörn í snoturt timburhús og nefndi Akbraut og stendur það enn og er friðað. Eftir þeirra dag bjó Geirlaug  dóttir þeirra, (1914-2007) nær alla sína æfi í Akbraut.

Heimild: Tíminn 34.tbl. 1950-Morgunbl.31.tbl.1950. www.minjasafnreykjavikur.is www.mbl.is/mm/gagnasafn eyrarbakki.is

Sögur margra merkra húsa á Bakkanum má finna á eyrarbakki.is

http://www.eyrarbakki.is/um-eyrarbakka/husin-a-bakkanum
Flettingar í dag: 556
Gestir í dag: 168
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260846
Samtals gestir: 33795
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 19:35:48