06.01.2011 22:55

Helga í Regin og Oddur

Helga MagnúsdóttirHelga Magnúsdóttir talsímakona  f. 2.10.1867 í Vatnsdal í Fljótshlíð og maður hennar  Oddur  gullsmiður Oddsonar hreppstjóra á Sámstöðum fluttu til Eyrarbakka og byggðu sér hús á flötunum skammt frá Merkisteini árið 1898 og var húsið 8 x 11 m á stærð, loftbyggt með skúr fyrir annari hlið og gafli, mjög vönduðum. Húsið brann til kaldra kola tæpu ári síðar (Um miðnætti 19. janúar 1899). Það vildi þó til happs að Þorgrímur í Réttinni, kunnur Eyrbekkingur, var á leið til skips. Varð hann eldsins var og vakti heimilisfólkið. Mátti ekki tæpara standa og tókst fjölskyldunni með naumindum að komast úr eldslogunum. Einungis sængurfötum af einu rúmi var bjargað. Skautbúningar, ættargripir fjölskyldunnar og allir innanstokksmunir brunnu með húsinu. Talið var að eldsupptök hefðu verið frá skari af kertaljósi sem notað var við mjaltir kýrinnar þá um kvöldið. Helga og Oddur bjuggu síðan í Túni, Regin og Ingólfi. Þau hjónin tóku að sér símstöðina á Eyrarbakka þegar hann var lagður 1909 og mun Helga einkum hafa sinnt talsímaþjónustunni, en Oddur sá um línulagnir, viðgerðir og framkvæmdir auk gull og silfursmíði. Í þá daga var síminn handvirkur, þannig Oddur Oddson, afi Davíðs Oddsonarað tengja þurfti hvert símtal á skiptiborði og gat það orðið ærin vinna. Börn þeirra Magnús og síðan Jórunn tóku við símstöðinni í fyllingu tímans. Helga lést 7. mars 1949 en Oddur 1938.

 

Um Helgu orti Björn Bjarnason í Grafarholti eftirfarandi:

 

"Undra tól er talsíminn

töframætti sleginn.

Heyrir gegnum helli sinn

hún Helga mín í Reginn."

 

("Merkisteinn" brann fyrir nokkrum árum. "Réttin" stóð nokkurn vegin þar sem Litla Hraun er nú.)

 

Heimild: Eyrarbakki.is-mbl.is-tímarit.is, Dagskrá 29.tbl 1899. Þjóðviljinn ungi 23.tbl.1899

Flettingar í dag: 573
Gestir í dag: 171
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260863
Samtals gestir: 33798
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 19:57:00