04.01.2011 23:42
Bakkakonur- Ólöf í Simbakoti
Ólöf Gunnarsdóttir f. 1868 í Moldartungu (Marteinstungu í Holtum) var einsetukerling er bjó í Simbakoti. Hún þótti stór og stæðileg og varð fjörgömul. Hún flæktist um og bætti flíkur fyrir fólk út um sveitir í mörg ár, þar til hún þurfti að leita til læknis á Eyrarbakka og upp frá því vildi hún hvergi annarstaðar vera. Hún gerðist ráðskona í Kirkjubæ um skamma hríð en keypti síðan Simbakotið af ekkju einni er Bjarghildur hét og bjó hún þar í fjölda mörg ár og stundaði, hænsnabúskap og kartöflurækt, þar til hún flutti í Vinaminni, það fræga hús sem nú var eitt minnsta og hrörlegasta timburhúsið á Bakkanum, þegar henni var gert að flytja þangað árið 1950, því til stóð að reisa samkomuhús og skóla á Simbakotslóðinni, en aldrei varð þó úr þeim framkvæmdum á þessum stað, annað en nokkuð stór hola. Hænsnabúskap hennar lauk þegar minnkur komst í búið sem enn var í uppistandandi baðstofunni í Simbakoti, og drap þær flestar, en hún hafði þá átt 20 verpandi hænur. Þá var Ólöf á níræðis aldri, en hún dó 1970 þá 102 ára. Í hjáverkum spann hún þráð og prjónaði og bætti flíkur á börn. Hafði hún af þessu lífsiðurværi sitt þar til hún fluttist á elliheimili í Hveragerði.
Heimild: Guðmundur Daníelsson-Þjóð í Önn 1965
Í Vinaminni bjuggu frægir menn, eins og Vilhjálmur S Vilhjálmsson rithöfundur og Hannes á Horninu kallaður. Sigurður Gíslason trésmiður og fleiri mætir menn og konur.