09.08.2010 08:59
Aftur til fortíðar
Um næstkomandi helgi 14-15. ágúst verður blásið til stórhátíðar á Eyrarbakka. Hestarnir, kindurnar, geiturnar og hænurnar, mennirnir, konurnar og börnin bjóða ykkur velkomin á hina árlegu þorpshátíð. Íbúar og gestir klæða sig uppá í anda aldamótanna 1900. Fornbílamenn og konur eru heiðursgestir hátíðarinnar og margir bjóða á rúntinn í glæsivögnum fortíðar. Bakkablesa dregur aldamótavagninn góða og Thomsensbíllinn rennir sér um göturnar. Við opnum húsin okkar og bjóðum gestum að kíkja inn í kaffi og pönnsu. Harmonikkur duna og það má sjá söluborð og markaðstorg um allar götur, tún og engi auk hins vinsæla skottmarkaðar sem haldinn var í fyrsta sinn á Eyrarbakka í fyrra. Listsýningar, hlöðuball með Klaufunum, tónleikar, skrúðganga, kappsláttur , fornbílar, bændamarkaður, kaffihús, veitingahús, gisting og síðast en ekki síst fá allir að smakka kjötsúpuna okkar góðu sem er hvergi eins góð og á Bakkanum.
Á Eyrarbakka má finna hið heimsfræga veitingahús Rauða-húsið, menninga og listaverstöðina Gónhól, en þar er líka gott kaffihús. Vesturbúðina, landsfrægu sem selur næstum allt milli himins og jarðar og litla kaffiskúrinn Bakkabrim við höfnina, litla kósí gallerýið hennar Regínu, Söfnin þjóðkunnu, Húsið og Sjóminjasafnið, þar sem er að finna afar gamalt og merkilegt dót. Tjaldstæðið góða þar sem auðvelt er að sofna við sjávarnið. Búðargluggana gömlu með minningum um horfna tíð. Gamlir karlar munu svo örugglega bjóða í nefið við brúsapallinn. Þá mun bakaraættin halda ættarmót á Bakkanum og rifja upp gömlu góðu daganna.