18.07.2010 23:30
Gróðursælt sumar
Á síðustu 30 árum hefur gróðurfar tekið stakkaskiptum á Bakkanum og núorðið er algengt að húsagarðar séu prýddir limgerði eða trjám. Um aldamótin 1900 var sumstaðar ekki stingandi strá því sandfok var stöðugt af fjörunni og eirði engum gróðri. Lengst af 20. öldinni voru aðeins fáir húsagarðar þar sem reynt var að rækta einhvern trjágróður og þótti sumum það hin mesta firra. Nú er öldin önnur og allflestar íslenskar trjátegundir eru ræktaðar í húsagörðum Eyrbekkinga. Síðasta vor var einstaklega gott og tók allur gróður snemma við sér og áfallalaust. Þannig hefur hefur t.d. toppurinn á litla genitrénu hér á myndinni vaxið um 44 sentimetra frá því í vor og hefur annar eins vöxtur ekki orðið á líftíma þess sem gæti verið um 6-7 ár.