13.02.2010 23:54
Jón Helgason frá Bergi
Einn hinna fræknu formanna í upphafi vélbátaaldar var Jón Helgason frá Bergi. Hann var fæddur í Nýjabæ á Eyrarbakka 24.janúar 1886 sonur Helga Jónssonar bónda og formanns í Nýjabæ (síðar á Litlu Háeyri) og Guðríðar Guðmundsdóttur frá Gamla Hrauni.
Árið 1915 lét Jón smíða sér skip á Eyrarbakka stórt og veglegt með kútterlagi, því honum líkaði ekki alskostar við hið Sunnlenska skipslag, en Jón hafði varið sínum ungdómsárum á þilskipum við Faxaflóa og þekkti því vel til skútulagsins. Hann fékk því smið sem kunni til verka á kantsettum skipum með skútulagi og lét búa skip sitt seglum eins og þilskipunum. Kútterarnir þóttu góð sjóskip og vildi Jón geta bjargað sér á seglunum ef vélin bilaði. Skip hans var það stæðsta sem gert var út héðan á þessum árum.
Freyr hét skipið góða og stýrði Jón því í hart nær 30 ár, bæði héðan frá Eyrarbakka og Sandgerði. Jóni farnaðist alltaf vel þó fast væri sótt á sjóinn og Freyr reyndist happasælt og aflaskip mikið. Dag einn varð Jón þó að sjá á eftir þessu happaskipi sínu í fang Ægisdætra þar sem það lá við festar í Þorlákshöfn. Það hafði brostið á aftaka veður með austan roki og stórsjó sem varð til þess að Freyr slitnaði upp af legufærum sínum og rak upp í kletta og brotnaði í spón. Það var bæði honum og áhöfn hans mikill harmur að missa Frey, enda þót Jón léti ekki árar í bát, þá varð engin af bátum hans eins aflasælt og Freyr.
Jón var fróður um margt, gjafmildur þeim er þurftar voru og glettin við börn, enda eltu þau hann gjarnan í halarófu. Jón lést 81 árs að aldri (10.10.1967), en hann hafði átt við vanheilsu að stríða hin síðari ár.
Heimild: Morgunblaðið.239 tbl.
Fólkið.