09.02.2010 22:38

Kambsránið 1827

Tugthúsið var ekki komið þegar Kambránsmenn voru uppi og voru þeir sendir til danmerkur.Rán það sem svo er nefnt var framið að Kambi í Árnessýslu aðfararnótt 9.dags febrúar árið 1827. Þá nótt komu þeir ránsmenn Sigurður Gottsveinsson, Jón Geirmundsson, Jón Kolbeinsson og bróðir hans Hafliði að Kambi. Voru þeir skinnklæddir og höfðu strigatuskur og dulur fyrir höfðum sér og fyrir andlitum, til þess að gera sig torkennilega. Foringi þeirra Sigurður Gottsveinsson var útbúinn með langt og oddhvast saxi, sér til varnar og móttstöðu ef á þyrfti að halda.

Þeir komu að bænum um miðnætti í hinu mesta illviðri og brutust inn í bæinn. Fólk allt, Hjörtur bóndi Jónsson, vinnukonur hans tvær og barn 6 ára gamalt voru í fasta svefni. Ránsmenn gengu að rekkjum og gripu heimafólk nakið og færðu niður á gólf og bundu á höndum og fótum. Síðan dysjuðu þeir það allt á gólfinu undir reiðingi, sængurfötum, kvarnastokki, kistu og öðru þvílíku sem þeir náðu að þrífa til í myrkrinu.

Þá tóku þeir til við ránið, brutu upp kistu og kistil sem peningar Hjartar voru geymdir í, en ógnuðu honum á meðan, og kváðust mundu skera hann á háls ef hann segði ekki til peninga sinna. Þá er þeir höfðu rænt meira en 1.000 dala virði í peningum og að auki ýmsum öðrum munum er þeir töldu sig hafa not fyrir, hurfu þeir á braut og skildu fólkið eftir bundið á gólfinu. Foringi þeirra Kambránsmanna vildi leggja eld að húsinu við brottför þeirra en meðreiðarsveinar hans löttu til þess og varð því ekki úr því illvirki.

Þjófafélag þetta hafði ástundað mörg eignarrán á ýmsum stöðum í Árnessýslu, m.a. úr Eyrarbakkaverslun, þar til að upp um þá komst fyrir tilstilli hinnar skarpskyggnu konu Þuríðar formanns á Stokkseyri.

Þennan dag:1913 Aftaka veður og sjógangur, sjógarðar brotna.1972 Loðnufrysting hefst hér.

Flettingar í dag: 2108
Gestir í dag: 189
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266435
Samtals gestir: 34326
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 10:49:47