12.12.2009 22:03

Barist við brimið

Sunnlenskur teinæringurÞað er bjartur og fagur vetrarmorgun á Eyrarbakka skömmu fyrir aldamótin 1900 og sjómennirnir ganga rösklega til skipa sinna. Veðurglöggir formenn leggja eyrarð við sandinn og hlusta efir dynum og dynkjum hafsins. Hin margvíslegu sjávarhljóð virðast boða gott veður þennan dag. Það er asi á piltunum, enda hefur verið fiskisæld á miðunum undanfarna daga.

 


Páll Andrésson formaður frá Nýjabæ og fleiri formenn af Bakkanum reru teinæringum sínum út af svo kölluðum Hafnarslóðum og dvöldust þar fram eftir degi. Seinni hluta dags bregður til hafáttar og eftir skamma stund er komið snarvitlaust hríðarveður með vaxandi sjávargangi. Teinæringurinn brýst í gegnum hafrótið og ekki sér áralengdina gegnum hríðarmugguna og fjallháar öldurnar kasta þessari bátskel eins og korktappa.

 


Einn hásetanna er Jón Ásgrímsson, þá rösklega þrítugur og harðreyndur sjómaður eftir margar vertíðir. Hann situr undir einni árinni, þriðji maður til hlés og hver vöðvi og hver sin er spennt til hins ítrasta í sameiginlegu átaki þessa lífróðurs. Þeir ná sundinu og marhvítur brimskaflinn gín við sjónum þegar þeir undirbúa síðasta sprettinn til lands. Allt í einu rís brotsjór fyrir aftan skipið og þeir hverfa í hvítfyssandi flauminn.

 

Jón hélt enn fast um árinna þegar honum var bjargað ásamt skipsfélögum sínum um borð í annan teinæring sem var undir formennsku Guðmundar Steinssonar. Ekkert sást til Páls Andressonar og annars félaga þeirra og voru þeir brátt taldir af.

 


Þrjátíu ár líða í tímans ólgu sjó og vélbátar hafa leyst teinæringanna af. Dag einn stendur sextugur öldungur við gluggann sinn og hugar að veðrinu og hann hefur rokið upp í hafátt og undirspilið eru þungar drunur Eyrabakkabrimsins. Fólk tekur að safnast saman í vestasta sjógarðshliðinu og öldungurinn slæst í ört stækkandi hópinn. Jón Ásgrímsson hómopati horfir á litlu ljósdepplanna á mótorbátunum þegar þeir birtast hver af öðrum úti á Bússusundi. Öldungurinn þekkir einn bátinn öðrum fremur því einn af sjómönnunum er einkasonur hans Víglundur að nafni og 30 ára gamall. Allt í einu rís sjór undir hekkið og bátnum hvolfir og hverfur í sortan með manni og mús á þeim sömu slóðum og hann sjálfur barðist við klær brimsins með eina ár að vopni á öld teinæringanna.

 

Þau voru lengi í minnum höfð, þau orð sem öldungurinn lét falla á þessari stundu. "Þá er Villi minn farinn og mér ber að ganga heim og huga að konu hans og börnum"

 


Þessi bátur var Sæfari (áður Framtíðin) og var eigandi hans Sigurjón Jónsson á Litlu- Háeyri og Guðfinnur mágur hans. Báturinn fórst 5. apríl 1927. Jón Ásgrímsson hómopati var fæddur á Stærribæ í Grímsnesi og átti hann 21 systkini. Hann flutti síðar með foreldrum sínum að Gljúfri í Ölfusi og þá næst til Eyrarbakka, en Jón varð hvað manna elstur.

Heimild: Þjóðviljinn 122 tbl.
http://fiskimann.blogspot.com/2004/09/sjslysi-bssu-1927.html
Sjóslysið á Bússu 1927
Skipasmíðar

Flettingar í dag: 1506
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 3735
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 300530
Samtals gestir: 37131
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 08:08:43