29.11.2008 23:13

Tíminn bíður ekki

Frá EyrarbakkaÁ árunum 1890-1920 var Eyrarbakki í miklum blóma. Árabátunum fjölgaði mikið og Lefoliverslunin var öflug miðstöð fyrir allt Suðurland. Þegar höfn var byggð í Reykjavík kippti það fótunum undan versluninni. Leofoliverslunin lagði upp laupana en margar aðrar færðust upp að Ölfusárbrú. Eftir sátu útgerðarmenn og verkafólk sem áttu ekkert annað en vinnuafl sitt. Samstaða verkafólksins var mikil og sterk. Á Eyrarbakka var líka óvenjulega sterkt og öflugt verkalýðsfélag sem mótaði þorpið næstu áratugi.

 

Um aldamótin 1900 óx Eyrarbakki gífurlega hratt og síðan þegar hrunið kemur verður það mikið og eymd yfir öllu. Svo þegar stóra kreppan kemur 1929 þá vesnar ástandið ekki í sjálfu sér svo mikið. Það var allt í volæði hvort sem var. Þetta varð til þess að harka færðist í orðræðuna og verkamannafélagið Báran óx hröðum skrefum. Félagið tók nýja stefnu í þá átt að aðstoða sína meðlimi með öðrum hætti en áður tíðkaðist. Báran stofnaði m.a. vörupöntunarfélag og hlutafélag um byggingu brauðgerðarhús (Skjaldbreið) ásamt stórtækri kartöfluræktun.

 

Báran varð mjög sterkt stjórmálalegt afl á árunum um og eftir fyrra stríð. Þá fékk Báran menn í hreppsnefnd. Á árunum milli 1920 og 1940 varð Báran geysi öflug og má halda því fram að félagið hafi í raun stjórnað Eyrarbakka. Það sem félagið sagði, það gerði hreppsnefndin. Með tilkomu hernáms breta 1940 gjörbreyttist allt. Á bilinu 40 til 140 menn fengu að jafnaði vinnu mest allt árið við bækistöðvar breta í Kaldaðarnesi meðan á hernáminu stóð. Í örfá skipti sló í brýnu milli Bárunnar og herráðsins, en þann ágreining tókst jafnan að leysa. Báran var hvergi bangin, hvort sem átti í hlut bretaveldi eða ríkistjórn Íslands. Þannig var félagið oft leiðandi fyrir önnur félög á Suðurlandi.

 

Árið 1943 sendi Báran á Eyrarbakka frá sér svohljóðandi ályktun:

Fundurinn mótmælir harðlega frumvarpi ríkistjórnarinnar um dýrtíðarráðstafanir,þar sem í því felst stórfeld skerðing á kaupi launþega í landinu og skorar á Alþingi að fella það.

 

 

Í stríðslok byggðu Eyrbekkingar upp fiskvinnslu sem var þó oft stopul á köflum, einkum yfir vetrartímann. Við þetta bættist iðnaður ýmiskonar eins og t.d. Plastiðjan og síðar álpönnuverksmiðjan. Báran var virkur þáttakandi í atvinnusköpun og atvinnuþróun á Eyrarbakka nær allan sinn starfsferil. Um síðustu aldamót fór svo að halla undan fæti á nýjan leik. Kraftur sá sem bjó í verkalýðnum hafði líka dvínað með árunum og að lokum sameinaðist Báran á Eyrarbakka verkalýðsfélaginu Þór á Selfossi. Í dag hefur útgerð, verslun og þjónusta lagst algerlega af.

 

Nú má segja að Eyrarbakki sé aftur á byrjunarreit í þeirri volæðiskreppu sem ríður yfir land og þjóð, en gleymum því ekki að tækifærin til framtíðar liggja víða í ferðaþjónustutengdri atvinnustarfsemi og hefur vísir af því þegar skotið rótum. Eyrbekkingar ættu nú að taka höndum saman einu sinni enn með lærðum og leiknum og stofna með sér framfarafélag eða atvinnuþróunarfélag sem gæti orðið leiðandi afl á Eyrarbakka og fyrirmynd eins og Báran forðum daga.

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07