06.09.2008 22:04
Ryðsveppur herjar í trjágörðum
Tjón af völdum ryðsveppa hefur verið óverulegt hér á landi þar til á síðustu árum að sífellt fleiri tilfelli koma fram þar sem ræktaðar víðitegundir hafa orðið fyrir skakkaföllum, einkum hér sunnanlands og nú hefur þetta "snýkjudýr" stungið sér niður á víð og dreif í görðum Eyrbekkinga. Aspir hafa að miklu leyti verið lausar við sjúkdóma og meindýr en á því hefur einnig orðið breyting því ryðsveppurinn Melampsora larici-populina herjar nú á þessar plöntur samkvæmt heimildum. Laufin gulna og fölna smám saman og tré og runnar fá ótímabæra haustliti.
Sveppagróin berast langar leiðir með vindi og setjast á laufin og spýra sig inn í þau. Ryðsveppurinn þróast hratt við 15-22°C hita ef raki er takmarkaður og getur myndað ný gró aðeins 8 dögum eftir smit.
Líklega er ekki til neitt einfalt ráð við ryðsvepp en helsta plöntulyfið sem notað hefur verið gegn ryðsveppum hér á landi er Plantvax og gott væri að hafa það við hendina næsta vor. Erlendir plöntusérfræðingar eru margir á þeirri skoðun, að besta og eina ráðið sé að útrýma algjörlega veikum stofnum og rækta í staðin genetiskt viðnámsmeiri trjástofna sem hafa meira þol gagnvart sveppagróinu, en það hefur verið gert þar sem samskonar sveppategund hefur herjað á bygg og kaffiplöntur.