04.09.2008 20:19

Þorleifur ríki og svindlarinn snjalli.

Gömul mynd frá Eyrarbakka.Þorleifur Kolbeinsson var á sínum tíma hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og kaupmaður á Háeyri á Eyrarbakka og gekk gjarnan undir nafninu Þorleifur ríki.

Svo bar við eitt sinn á efri árum Þorleifs að maður nokkur óþekktur kom að hlaðinu á Háeyri með þrjá klifjahesta í taumi og var þá nokkuð áliðið dags. Maðurinn tók baggana af hestunum og gekk síðan í búð Þorleifs og tók þar út ýmsar vörur. Nú bjó hann um þær vörur sem hann hafði tekið út en baggar hans voru þá enn óleystir á hlaðinu. Áður en til þess kom að gera upp reikninginn baðst hann leyfis að fá að skreppa í Vesturbúðina því þá var komið að lokunartíma þar. Þorleifur taldi sér nú óhætt að verða við beiðni mannsins enda biðu baggar hans óhreyfðir á hlaðinu. Nú leið tíminn drjúga stund og ekki skilaði maðurinn sér til baka og var þá spurst fyrir um hann í Vesturbúðinni en þangað hafði maðurinn þá aldrei komið. Þorleifur lét nú leysa baggana og kom þá í ljós að í þeim var aðeins mold og sandur. Þorleifi þótti nú sýnt að hann hafi verið gabbaður. Eyrbekkingar buðust nú til að ríða eftir manninum sem allir töldu að væri fjarsveitarmaður þar sem enginn Bakkamaður hafði borið á hann kensl. Menn töldu að hann væri ekki kominn svo langan veg að lausríðandi mönnum yrði skotaskuld um að ríða hann uppi og hafa hendur í hári hans. Þá mælti Þorleifur "Það vil ég ekki og best að láta kyrrt liggja því annars kemst upp að hann hafi verið klókari en ég og það yrði nú mikil skömm fyrir mig

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06