22.10.2007 22:33
Rok
Það gekk á með stormi og úrhellis rigningu síðdegis og náðu sumar hviður 28 m/s um kl. 16 en þessi vindstyrkur var kallaður ROK í gamla daga. Úrkomumagnið sem helltist niður í dag mældist 21 mm á veðurathugunarstöðinni á Bakkanum og náði það ekki að fella dagsmetið frá 1983 sem var 23,3 mm.
Mesti vindur sem Veðurstofan mældi á láglendi kl.21 var 29 m/s á Skjaldþingsstöðum í Vopnafjarðarhreppi.
Annars finnst manni að búið sé að rigna mikið alveg frá því í lok ágúst eftir eitt þurrasta sumar í manna minnum og hlaut hann að hefna fyrir það.
Til gamans má geta þess að blautasti Oktobermánuður á Bakkanum var árið 1959 en þá mældist mánaðarúrkoman 321 mm. Blautasta árið á Bakkanum var hinsvegar árið 1953 en þá var ársúrkoman 1943,5 mm.