02.05.2007 23:36

Af hitametum og hlýnun jarðar.

Nýliðinn aprílmánuður var með þeim hlýjustu sem sögur fara af hér á landi frá því samfelldar mælingar hófust á ofanverðri 19. öld segja fréttirnar í dag. Veðurstofan segir í veðurfarsyfirliti, að tíðarfar hafi almennt verið hagstætt í mánuðinum en hans verði einkum minnst fyrir tvær óvenjulegar hitabylgjur. Sú fyrri varð um landið austanvert í byrjun mánaðarins og komst hiti þann 3. í 21,2 stig í Neskaupstað. Hiti hefur ekki mælst hærri svo snemma árs. Síðari hitabylgjan gekk yfir mikinn hluta landsins síðustu daga mánaðarins. Landshitamet aprílmánaðar féll þann 29. þegar hiti komst í 23°C á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi í Öxarfirði og í 21,9°C á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal. Hvoru tveggja er met í sínum stöðvaflokki.
Á síðasta ári fór hitinn á Eyrarbakka í aprílmánuði hæðst í 10°C og var meðalhitinn þá um 2 stig og mesta frost var þá 11 stig en nú var hitinn oftast á bilinu 10 -12°C og mest 14 - 15 stig í lok mánaðarins sem er talsvert stökk frá því í fyrra.

Ástæðan fyrir þessum hitabylgjum er mikill hiti í Evrópu vestanverðri þar sem sömu sögu er að segja og hitamet fallið þar umvörpum. Síðan var það frekar tilviljun að hæð yfir Norðursjó beindi þessu heita lofti inn á landið og þá helst austan og norðanvert.
Svo er spurningin hvort þetta sé aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal því breskir veðurfræðingar hafa spáð allt að 8 hitabylgjum í sumar og ekki ólíklegt að enn eigi met eftir að falla áður en þessu sumri líkur. Eflaust má túlka þessa forspá þannig að loftslagshlýnunin sé nú komin á mikið skrið.

Almennt er nú viðurkennt að loftslagshlýnunin sé af manna völdum, en nokkrir danskir vísindamenn vilja halda öðru fram. Þeir eru með þá kenningu að hlýnunin stafi ekki síður af aukinni varmalosun frá sólinni og því sé hlýnunin mun örari en reiknilíkön gefa tilefni til. Það er nefnilega ekkert sem segir að varmalosun sólar sé ætíð sú sama heldur mun líklegra að losunin sveiflist til á löngum tímabilum með samsvarandi veðurfarssveiflum á jörðinni. En væntanlega munu vísindin skera úr um þetta álitamál fyrr eða síðar.

Flettingar í dag: 2274
Gestir í dag: 196
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266601
Samtals gestir: 34333
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 13:06:26