13.09.2006 13:40
Óþægileg sannindi!
Streymi ferskvatns út í sjó hefur aukist um 17 þúsund rúmkílómetra síðastliðinn áratug vegna bráðnunar íss og jökla. Það slagar hátt upp í 40 ára gegnumstreymi ferskvatns út í Missisippi-flóann. Þessar niðurstöður bandarísks vísindamanns, sem meðal annars hefur rannsakað aukna bráðnun Grænlandsjökuls, valda mörgum áhyggjum af því að seltustig sjávar breytist hraðar en gert var ráð fyrir. Það þýðir róttæka breytingu á lífsskilyrðum fisktegunda og annarra sjávarlífvera, sérstaklega á heimskautasvæðum.
Ef Grænlandsjökull mundi til dæmis bráðna alveg yrði umtalsverð hækkun á sjávarborði um allan heim, og er jafnvel talað um 7 metra hækkun. Þetta er óafturkræf breyting og það á einnig við um hækkun sjávarborðs vegna hitaþenslu vatnsins. þetta þýðir að strandbyggðir munu þurfa að þola meiri ágang af völdum sjávar og vaxandi flóðahættu í framtíðinni.
Athyglisverð Kvikmynd ,,Inconvenient Truth" með Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna í aðalhlutverki. Forsetaframbjóðandinn fyrrverandi, Al Gore, lýsir því hvernig gróðurhúsaáhrifin - hitnun andrúmsloftsins -loftslagsbreytingar geta valdið varanlegri eyðileggingu á lífríki jarðar. Ofsaveður og hröð bráðnun jökla eru bara toppurinn á ísjakanum sem Titanic stefnir á.