Brim á Bakkanum
brimið þvær hin skreypu sker


ALMANAKIÐ

S E P T E M B E R M Á N I N N


          
 

 
 Fullt tungl  2
SEPT
2020  Kornmáni
 Síðara kvartil 10 SEPT 2020
 Nýtt tungl
 Fyrsta kvartil
17
23
SEPT
SEPT
2020
2020  


Kategori: Félögin

12.10.2012 00:01

Prentsmiðja Suðurlands á Eyrarbakka

Það voru nokkrir Árnesingar sem keyptu prentsmiðju árið 1910 og stofnuðu í framhaldi þess, Prentfélag Árnesinga og blaðið "Suðurland", sem þeir gáfu út á Eyrarbakka, og kom fyrsta blaðið út 13.júní 1910 og taldi 4 síður. Ritstjórar voru Oddur Oddson í Regin og Karl H. Bjarnason, en gjaldkeri var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Kom blaðið út nokkur ár en síðar var keypt annað blað, "þjóðólfur" hinn gamli og gefinn út um tíma hér á Bakkanum. Hann hætti að koma út 1918 og var prentsmiðjan síðan flutt til Reykjavíkur. Prentsmiðjan á Bakkanum var til húsa í kjallara í Nýjabæ (Vestara húsi). Oft var ekki hægt að prenta ef gerði mikið frost, því hitunarbúnaður var ekki fyrir hendi í fyrstu, þá háði starfseminni stundum pappírsskortur á stríðsárunum fyrri. Heimilisblaðið var einnig prentað og gefið út á Eyrarbakka auk bóka, bæklinga og rita ýmiskonar. Prentarar voru þeir Jón Helgason og Karl H Bjarnason. Í stjórn Prentfélags Árnesinga voru: sr. Gísli Skúlason á Stórahrauni, Guðmundur Þorvarðarson hreppstjóri í Sandvík, og Oddur Oddson gullsmiður í Regin. Í ritnefnd voru Gísli Skúlason áður nefndur, Guðmundur Sigurðsson sýslunefndarmaður, Helgi Jónsson sölustjóri, Jón Jónsson búfræðingur og Oddur Oddson áður nefndur.

Heimild: Suðurland 1910, Þjóðþólfur 1917, Skeggi 1919

15.11.2011 21:57

Frá Eyrarbakka, út í Vog

Guðmundur Ísleifsson í sjóklæðumSumarið 1919 kom Bjarni Sæmundsson til fiskiransókna á Eyrarbakka og Stokkseyri.  Hér dvaldi hann  frá 9-23. júlí og notaði hann ferðina m.a. til að kynna sér mótorbátaútgerð sem þá var mjög að ryðja sér til rúms hér um slóðir en einig skipalegur þær er hér voru notaðar. þá var starfandi hér fiskifélagsdeildin "Framtíðin", en í stjórn hennar voru árið 1919: Guðmundur Ísleifsson, Sigurjón Jónsson og Einar Jónsson, en félagsmenn munu hafa verðið um 50. Heimamenn fræddu Bjarna um erlenda botnvörpunga sem stunduðu veiðar við landhelgismörkin (4 sj.m.) á árunum áður og fram til 1915, en oft voru 20 erlend skip á miðunum samtímis sem leiddi til aflasamdráttar hjá heimamönnum. Sérstakann áhuga hafði Bjarni á ýsu og lýsuafla á Eyrarbakkamiðum og varð hann margs vísari, en það var aðal fiskaflinn yfir sumarið og einkum veiddur til heimabrúks fram að slætti. Með tilkomu mótorbáta var unt að sækja á dýpri mið, svo sem "Gullkistuna" í Selvogsbanka ef vel viðraði að sumarlagi, en áður höfðu aðeins stærri skip sótt þangað í sumarveiði. - í ágúst 1893 fiskaði kúttarinn "Tojler" úr Reykjavík, skipstj. Sigurður Jónsson, á 60 faðma dýpi, 16 sjómílur SV. af Selvogstöngum þorsk og stútung (legufisk) og um 200 lúður. Í júnímán. 1897 reyndi kúttarinn "Kastor" úr Reykjavík, skipstj. Sölvi Víglundarson, á 56-78 faðma dýpi, 16-19 sjómílur SSV. af Selvogstöngum og fékk þar vænan göngufisk, með síld í maga, og mikið af heilagfiski. í ágúst 1898 fékk sama skip á annað þúsund af þorski á 60-70 faðma dýpi, 12-18 sjómílur SV. af Selvogstöngum. Það var legufiskur, með ýmiskonar fæðu í maga.- Sá sem fyrstur lagði á djúpið  á mótorbát  frá Eyrarbakka og varð þar af leiðandi brautryðjandi í þessu tilliti, var Árni Helgason í Akri, sem þá var einn af ötulustu yngri formönnum á Eyrarbakka. Það var sumarið 1912. Næsta sumar bættust fleiri við, bæði frá Stokkseyri og Eyrarbakka og voru veiðar á þessu svæði  stundaðar ætíð síðan. Stundum fóru bátarnir út í Selvogssjó, Herdísarvíkursjó, og út fyrir Krísuvíkurberg, alt út i Grindavíkursjó (Hælsvík) og brúkuðu lóð eða færi.

Heimild: Andvari 1919 - Ægir 1919

17.04.2011 17:23

Lesið á Bakkanum

Um og eftir 1890 var starfandi lestrarfélag á Eyrarbakka, hét það um skeið Lestrarfélag Árnessýslu, þá lestrarfélag Eyrarbakka og lánaði út bækur á sunnudögum (Lestrarfélagið "Fróði" var einnig til). Lestrarfélögin voru fyrsti vísír að almenningsbókasafni sunnanlands ásamt bókasafni Lefolii-verslunar og bókasafni Barnaskólans. Um aldamótin 1900 voru húsakynni heldur bágborin til varðveislu bóka og og lágu þær oft undir skemdum. U.M.F.E. stofnaði síðan bókasafn árið 1927. Safnið var vistað lengst af í Læknishúsinu, en um aldmótin 2000 var það flutt í Blátún og heitir nú "Bókasafn Árborgar". Þegar prentsmiðja Suðurlands var stofnuð á Eyrarbakka 1910 voru m.a. prentaðar þar bækur og eru nokkrar þeirra nú til sýnis í bókasafni Árborgar á Eyrarbakka. Bókasafnið er mikið notað af heimamönnum ennþann dag í dag og er nú einnig á vefnum og facebokk.

08.12.2010 00:58

Birkibeinar

Aðalsteinn SigmundssonAðalsteinn Sigmundsson kennari á Eyrarbakka stofnaði skátaflokkinn "Birkibeina" 1920 og voru það einvörðungu strákar. Birkibeinarnir á Eyrarbakka fóru í útilegur víða um nálægar sveitir, svo sem við Reykjafoss í Ölfusi og Þrastaskógi þar sem Aðalsteinn var umsjónarmaður skógarins á sumrin, Birkibeinar bökuðu þar og brösuðu eins og vanar húsfreyjur. Skátaflokkurinn hafði aðsetur í Sandprýði hjá Aðalsteini og æfðu þar skyndihjálp, lærðu á landabréf og áttavita og stunduðu hnýtingar. Aðalsteinn kynntist skátastarfinu í Svíþjóð, Danmörku og víðar. Átti hann ríkan þátt í uppbyggingu skátastarfsins hér á landi og árið 1924 tóku Birkibeinar þátt í stofnun Bandalags Íslenskra skáta. Árið 1926 voru allir komnir með merki og búninga og var Sigurjón Valdimarsson útnefndur til aðstoðar-sveitarforingja það ár. Eftir að Aðalsteinn fór af bakkanum lagðist félagsskapurinn í dvala en var síðan endurreistur 1940 og aftur 1958 og höfðu þá aðsetur í Fjölni, og síðast voru Birkibeinar endurvaktir um 1990 og voru þá jafnt strákar sem stelpur í skátunum. Þá var farið í lengri ferði en út í Þrastaskóg. Þá var farið til Lillesand í Noregi og var sú heimsókn endurgoldin árið 1994. Birkibeinar voru mjög virkir fram undir aldamótin 2000.

Þegar Sverrir Sigurðsson tekst það í fang, að brjótast til ríkis í Noregi, sem honum var sagt að faðir hans hefði átt og hann því ætti að erfa, en sverrir var munaðarlaus drengur, allslaus, einmana, en ríkinu hafði náð maður, er naut styrks margra voldugra höfðingja. Sverrir fékk í lið með sér 70 menn, er birkibeinar nefndust, vopnlausa, klæðalausa svo að kalla. Með þeim lagði hann undir sig allan Noreg, rak af stóli konung þann, er ríkið hafði tekið frá föður hans, og sat að völdum um langan tíma, eða til 1250. Lönd Birkibeina voru við Hamar í Noregi nokkru fyrir norðaustan Osló.

Birkibeinar koma fram í ævintýrinu "Konungssonur" eftir Gunnar Gunnarsson sem er byggð á sögu Hákonar konungs Hákonarsonar Sverrissonar og eru menn hans svo nefndir Birkibeinar en andstæðingarnir þeirra eru hinsvegar  "Baglar" sem réðu Upplöndum.

Árið 1897 stofnuðu Skútustaðamenn í Mývatnssveit bindindisfélag undir nafninu "Birkibeinar". Um 1911 gaf Bjarni frá Vogi út stjórnmálablað undir sama nafni.

Myndaalbúm Birkibeina

04.12.2010 22:46

Leikfélagið á Eyrarbakka

Úr Manni og Konu, Guðrún, Sigurveig og Kjartan.Leikfélag var stofnað formlega á Eyrarbakka 1943. Þetta var áhugamannaleikhús með 9 leikurum, 5 körlum og 4 konum. Meðal leikara og vildarvina Leikfélagsins voru Guðrún Bjarnfinnsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigurveig Þórarinsdóttir, Guðmundur Þorvaldsson, Helga Guðjónsdóttir, Kristján Guðmundsson og Lárus Andersen. Félagið var mjög virkt fram á 6. áratug síðustu aldar.

Með vinsælustu sýningum félagsins var "Lénharður fógeti" eftir Einar H Kvaran og undir leikstjórn Ævars Kvaran. Aðstaða  leikfélagsins var í samkomuhúsinu "Fjölni" á Eyrarbakka. Leiklist ýmiskonar var þó stunduð á Bakkanum löngu fyrr eða frá 1880.
sr. Þorvarður Þorvarðsson síðar prófastur í Vík, dvaldi á Eyrarbakka um eða fyrir 1890 og stóð þá að sjónleikjahaldi á Bakkanum og samdi sjálfur leikrit.

11.09.2010 23:29

Björgunarbátur vígður

Gaui Páls
Björgunarbáturinn Atlantic75 sem björgunarsveitin Björg keypti nýlega að utan var vígður í dag með viðhöfn á Vesturbúðarhól og hlaut báturinn nafnið "Gaui Páls" eftir Guðjóni Pálssyni er lengi var formaður sveitarinnar. En það voru þeir heiðursmenn Jóhann Jóhannsson og Hlöðver Þorsteinsson sem afhjúpuðu nafn bátsins. Núverandi formaður sveitarinnar Guðjón Guðmundsson hélt tölu, en síðan blessaði sr. Sveinn Valgeirsson bátinn. Að lokinni athöfn var boðið upp á veitingar í Skýlinu. Björgunarsveitin Björg var stofnuð 21.desember 1928 en áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka.
"Gaui Páls" skal hann heita.  Gaui Páls við björgunarbátinn

14.11.2009 21:59

Saga um verkamann í litlu þorpi

Kristján GuðmundssonHann gerðist ungur einn af stofnendum Bárufélagsdeildar og varð einn fremsti forustumaður alþýðufólksins í þorpinu og um leið einn af merkustu brautryðjendum íslenskrar verkalýðshreyfingar. Þorpið er Eyrarbakki og maðurinn Krisján Guðmundsson. Þegar hann var að alast upp á Bakkanum á árunum 1908-1920 var stéttskiptingin aðalega fólgin í því að stór hópur fólks hafði mjög lítið eða alls ekkert að borða, en hinn hópurinn sem var lítill hafði nóg en þó ekkert umfram það. Oft voru hörð átök milli þessara tveggja hópa, mikil tortryggni og jafnvel hatur sem stafaði öðrum þræði af ótta en annars af skorti.


Forustumennirnir voru fáir, en þeir voru harðir í horn að taka og það kom sjaldan fyrir að þeir væru sömu skoðunar í nokkru máli, enda áttu þessi átök sér djúpar rætur í langri þróun sem enginn skildi þó til fulls, en helgaðist af því að sumir vildu engar breytingar sem raskað gætu því öryggi sem þó var til staðar fyrir þann hóp, en aðrir kusu að feta nýjar slóðir og jafnvel umbylta því kerfi sem fyrir var, en sá hópur bjó við viðvarandi öryggisleysi. Þessar tvær fylkingar voru annarsvegar verslunarmenn og landeigendur, en hinsvegar Verkamannafélagið Báran.


Eyrarbakki um 1960Kristján Guðmundsson fæddist á Iðu í Biskupstungum 1.júní 1885. Þar ólst hann upp við fábrotið nám. Um aldamótin var jörðinni sagt lausri og allt selt, því foreldrar hans Guðmundur Guðmundsson og Jónína Jónsdóttir hugðust flytja til vesturheims. Þegar búið var að greiða allar skuldir, þá var ekki lengur til fyrir fargjaldinu og lentu þau því á Bakkanum. Á Eyrarbakka var mikið líf á þessum árum. Þar starfaði leikfélag, lestrarfélag, hornafélag, söngfélag, fimleikafélag og skautafélag svo eitthvað sé nefnt. Ljósker lýstu upp götur og þegar einhvern viðburður var á dagskrá, gengu drengir í hvítum strigafötum götuna á enda og börðu trumbur. Það voru faktorarnir og assistentarnir í Húsinu sem voru helstu menningarfrömuðir á Bakkanum í þá tíð og driffjaðrirnar í þessum félögum.

Saga verkamannsins á Eyrarbakka hófst með Lefolii versluninni, sem var þá og lengi síðan aðal vinnuveitandinn. Karlmenn unnu aðalega við uppskipunina en konur á ullarloftinu um og eftir lestarferðirnar. Oft kom til árekstra er menn vildu hækka kaupið um svo sem einn aur á tímann. Tildæmis eitt sinn þegar tókst að fá kaupið hækkað um þrjá aura á tímann var hætt að láta fólkið fá ókeypis skonrokskökur, sem það hafði fengið eftir hvern vinnudag.


Kristján Guðmundsson ÁRKristján stundaði þá vinnu sem til féll á Bakkanum og fór á sjóinn á vertíðum og í kaupavinnu um sláttinn eða vegavinnu út á land. Kristján var enn kornungur þegar Sigurður regluboði stofnaði deild árið 1904 úr sjómannafélaginu Báran og var Kristján á meðal stofnenda, en það má heita að allur almenningur á Bakkanum hafi verið stofnfélagar að deildinni, en hún var sú fjórða í röð þeirra Bárudeilda sem sem stofnaðar voru á Íslandi. Félagið hóf þegar kraftmikið og öflugt starf  fyrir hagsmuni almennings á Eyrarbakka og stöðugt urðu afskipti félagsins víðtækari í bæjar og atvinnumálum. Fyrr en varði var þetta félag komið með öll völd í málefnum byggðarlagsins. Kristján lá ekki á skoðunum sínum á fundum félagsins og fljótlega naut hann fulls trausts félagsmanna og var kosinn í ráð og nefndir. Hann var síðan kosinn formaður félagsins og gengdi því í áratugi en þó ekki samfellt. Með honum starfaði eldhuginn og hugsjónamaðurinn Bjarni Eggertsson og samann voru þeir máttarstólpar félagsins um langa hríð. Þeir stjórnuðu hvor sínu skipi, hver með sinni áhöfn og hver með sínu lagi, en saman höfðu þeir það afl sem þurti til að sækja fram. Kristján fékk að reyna fátækt og alsleysi þegar hann stofnaði sína fjölskyldu á Bakkanum eins og var um flesta og oft kárnaði gamanið þegar ekkert var til svo halda mætti jól. Kaupmenn lánuðu oft upp á krít, en ekki var endalaust hægt að bæta á þann reikning, ef vertíðir brugðust. Kristján var virkur í leikfélaginu og lék þar ýmis hlutverk, en jafnaðarstefnan og Alþýðuflokkurinn áttu þó hug hans mestann.


Það má skipta sögu Bárunnar upp í tímabil eins og Kristján nefnir sjálfur í einu viðtali og líkir félaginu við akuryrkju. "Fyrstu árin ruddum við jörðina, undirbjuggum sáningu,

svo sáðum við og hlúðum að fræjunum í fjölda mörg ár og loks fórum við að skera upp"

Þegar aldurinn færðist yfir tók Kristján að þjást af gigt og varð hann að hætta sínu daglega striti. Hann kom sér upp kindastofni og gerðist nokkurskonar fjárbóndi hér í þorpinu.


Heimild: Alþýðublaðið 122 tbl.1960


Kristján líkti verkalýðsbaráttu við akuryrkju og nú er þörf á að ryðja akurinn að nýju. Flokkur alþýðunnar er löngu horfinn til feðra sinna og nú ráða jafnaðarstefnunni menntaklíkur ættaðar úr háskólanum og sjálfri verkalýðshreyfingunni hefur verið stolið af sömu klíku þori ég að fullyrða. Það er kominn tími til að taka fram plóginn að nýju og herfa og sá. Til þess þurfum við frumkvöðla eins og Kristján Guðmundsson og eldhuga eins og Bjarna Eggerts sem voru foringjar sprottnir úr jarðvegi alþýðunnar.
Ráðning í vegavinnu! () Enn lifir bára. (30.4.2008 23:21:39) Róið til fiskjar um aldamótin 1900 () 

11.01.2009 22:27

Bræðrafélagið Eyrarrós

Bindindisfélagið Eyrarrós var stofnað árið 1885 af Bjarna Pálssyni organista frá Götu, en formaður þess var Sigurður Eiríksson-regluboði. Félag þetta náði allmiklum viðgangi þar til vorið 1886 að hugmyndir urðu um að gera það að Good-Temlarastúku en félagsmenn voru þá orðnir um hundrað talsins. Þessar hugmyndir hlutu ekki góðan róm meðal flestra félagsmanna, enda fór það svo að þorri þeirra gekk úr bindindi. Það urðu því aðeins fáeinir sem gengu í nýstofnaða Good-Temlara-Reglu. Haustið 1886 voru aðeins 17 meðlimir eftir í Bræðrafélaginu, en félagið náði þó að rétta úr kútnum og árið 1887 höfðu félagsmönnum fjölgað og taldi félagið þá 80 meðlimi.

 

Þá um haustið byggði félagið samkomuhús sem var 12 álnir að lengd og 8 álnir að breidd og 4 álnir til lofts. Þrír gluggar voru á húsinu og var það allt járnklætt og kostaði það fullfrágengið 800 kr. Hús þetta gekk svo lengi undir nafninu Bræðrafélagshús og var fyrsta félagsheimili Eyrbekkinga.

Heimild:Íslenski good-templar 01.10.1987

05.05.2008 12:51

U.M.F.E. 100 ára .

Ungmennafélag Eyrarbakka fékk fyrir skömmu úthlutað úr menningasjóði Árborgar kr. 50.000 til að gefa út afmælisrit í tilefni 100 ára afmælis félagsins.U.M.F.E var stofnað 4.feb. 1908. Í forsvari fyrir félagið var í fyrstu P.Níelsen í Húsinu en hann var mikill frumkvöðull um íþróttir og þjálfaði ungmenni á Eyrarbakka um langt skeið. Þann 5. maí 1920 var U.M.F.E endurreist, en fyrir því stóð Aðalsteinn Sigmundsson kennari á Eyrarbakka, en auk þess gekk hann fyrir stofnun skátafélagsins Birkibeina ári síðar.

Í gegnum tíðina hefur félagið staðið að eflingu íþróttaiðkunar ungmenna á Eyrarbakka og má nefna í því sambandi hið víðfræga Hópshlaup sem var afar vinsælt fyrir all nokkrum árum og er enn. 

Endurreisn UMFE: 

Stofnfundur U. M. F. E. var haldinn í Barnaskólahúsinu á Eyrarbakka að kvöldi 5. mai 1920. Voru stofnendur 43. Tuttugu þeirra voru 14 ára unglingar, er lokið höfðu fullnaðarprófi í barnaskólanum fáum dögum áður. Nokkir hinna voru nemendur úr ungmennaskóla, er starfað hafði í þorpinu veturinn fyrir. Heita mátti, að allir væru stofnendur kornungt fólk, nema tveir, er komnir voru yfir þritugt, þau Jakobina Jakobsdóttir kennari og Gísli Pétursson héraðslæknir. Aðalforgöngumaður endurreisnarinnar var Aðalsteinn Sigmundsson, er flutst hafði til Eyrarbakka haustið fyrir og tekið við forstöðu barnaskólans.
Heimild: Skinfaxi 1930

  

  • 1
Antal sidvisningar idag: 680
Antal unika besökare idag: 250
Antal sidvisningar igår: 1144
Antal unika besökare igår: 347
Totalt antal sidvisningar: 2656281
Antal unika besökare totalt: 303832
Uppdaterat antal: 1.10.2020 15:44:15


Sjólag og horfur

 

                                                                       BRIMSPÁIN - SMELLIÐ HÉR
 
 
 Sjáðu Brimið - Eyrarbakki Iceland


F U L L T T U N G L

N/A Events|Today

Veðrið á Bakkanum í dag

Tilkynningar

Brimið á Bakkanum er líka á Facebook 
@gamlirdagar
       

Brimið á Bakkanum

Mobilnummer:

8621944

Plats:

Eyrarbakki

Vefmyndavélar

http://www.vegagerdin.is/
 

Ráðhús-Árborgar við Austurveg

Sjávarföll Eyrarbakka - Árborg

                           Smellid á myndina fyrir frekari upplýsingar

Arkiv

Länkar


Icelandic surf

Veðurgögn Eyrarbakki

5 daga yfirlit