Brim á Bakkanum
brimið þvær hin skreypu sker


ALMANAKIÐ

S E P T E M B E R M Á N I N N


          
 

 
 Fullt tungl  2
SEPT
2020  Kornmáni
 Síðara kvartil 10 SEPT 2020
 Nýtt tungl
 Fyrsta kvartil
17
23
SEPT
SEPT
2020
2020  


Flokkur: Bátar

12.06.2010 20:32

Gunnar ÁR 199

Gunnar ÁR 199Bakkabáturinn Gunnar ÁR 199 var smíðaður á Akureyri árið 1921 og var 11 tn. Árið 1937 áttu bátinn Jón Kristinn Gunnarsson og Jóhann E Bjarnason.
Sjá bátar á Brimbarinn

12.06.2010 19:25

Pipp ÁR 1

Pipp ÁR 1Pipp var smíðaður í Danmörku 1925. Árið 1948 voru eigendur hans Helgi Vigfússon, Steinn Einarsson og Gísli Guðlaugsson og keyptu þeir bátinn frá Vestmannaeyjum, hét þá Pipp VE. Félagarnir seldu svo bátin aftur 1955.
Bátar

26.05.2010 22:54

Jón Helgason ÁR 150

Jón Helgason ÁR 150Smíðaður í Danmörku 1944 og keyptur frá Vestmannaeyjum 1964 af Eyrar h/f. Báturinn strandaði við Eyrarbakka 20.janúar 1965 og eyðilagðist.

26.05.2010 22:31

Öðlingur ÁR 10

Öðlingur ÁR 10Báturinn var smíðaður í Svíþjóð 1946. Árið 1962 áttu hann Sverrir Bjarnfinnsson og Vigfús Jónsson á Eyrarbakka og hét þá Öðlingur ÁR 10. Báturinn talinn ónýtur 1965. Árið 1926 var smíðaður á Eyrarbakka bátur með þessu nafni og bar hann einkennisnúmerið ÁR 183 og átti hann Árni Helgason. Sá bátur var seldur til Keflavíkur 1933 og rak hann á land þar árið 1941 og brotnaði í spón. Árið 1916 var smíðaður bátur á Eyrarbakka sem bar einnig þetta nafn og sama númer og áttu bátin saman þeir Árni Helgason, Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Guðmundsson. Slitnaði hann aftan úr togaranum Skallagrími RE og rak á land í Grindavík 14.apríl 1926. Áhöfnin hafði áður lent í sjóhrakningum í vonsku veðri og var bjargað um borð í Skallagrím. Þar hittu þeir fyrir Eyrbekkinginn Sigurð skipstjóra Guðjónsson á Litlu Háeyri.

20.05.2010 21:24

Gullfoss ÁR 204

Gullfoss ÁR 204Gullfoss var 11 tn. smíðaður á Akureyri 1930 úr eik og beyki. Árið 1943 keyptu Árni Helgason í Akri og sonur hans Sveinn Árnason bátinn og gerðu út frá Eyrarbakka. 1955 var báturinn seldur til Ytri Njarðvíkur og hét þá Sigríður GK 78. Báturinn sökk við Ólafsvík 1959 og hét þá Sigríður RE 350.

15.05.2010 22:22

Emma II ÁR 19

Emma II ÁR 19Báturinn var smíðaður í Danmörku 1916 40tn. með 60 ha.Thuxham vél. Keypt hingað frá Vestmannaeyjum, þá með 150 ha. Hundsded vél. Eigandi Reynir Böðvarsson. Báturinn ónýttist og tekinn af skrá 1970. Rifinn í slippnum á Eyrarbakka.

13.05.2010 22:44

Öldungur ÁR 173

Öldungur ÁR 173Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1923 úr eik. 10 tonn með Hansa vél. Guðmundur Guðmundsson á Eyrarbakka átti bátinn upphaflega. 1931 var Öldungur seldur til Stokkseyrar. Báturinn kom aftur á Bakkann 14.maí 1938 þegar Sigurður Kristjánsson, Kristinn Jónsson, Sveinn Árnason og Árni Helgason keyptu hann. 1943 var Öldungur seldur til Suðureyrar við Súgandafjörð. Báturinn var afskráður 1953.

Heimild: Íslensk skip

12.05.2010 22:33

Ægir ÁR 183

Ægir ÁR 183Smíðaður á Eyrarbakka 1940 úr eik. 15 br.l. Eigendur voru Magnús Magnússon og Jón Guðjónsson á Eyrarbakka. Báturinn var lengdur 1958 (21 br.l.) 1952 eignuðust Guðmundur Einarsson og Guðmann Valdimarsson á Eyrarbakka bátinn. Seldur 1960 til Hafnafjarðar.

12.05.2010 22:22

Freyr ÁR 150

freyr ÁR 150Smíðaður í Reykjavík 1916 úr eik. 12 br.l. Eigendur af bátnum voru Jón Helgason, Kristinn Gíslason og Guðmundur Jónsson á Eyrarbakka. Báturinn strandaði og sökk í Þorlákshöfn 28.mars 1940.

Jón Helgason frá Bergi ()

11.05.2010 22:15

Freyja ÁR 149

Freyja ÁR 149Báturinn var smiðaður á Eyrarbakka 1916 úr eik 9.br.l. með 10 ha.Dan vél. Eigendur af Freyju voru Jóhann E Bjarnasson o.fl. Eyrbekkingar. Báturinn slitnaði af legu á Eyrarbakka í des. 1936 og sökk. Engan sakaði.


Heimild Íslensk skip.

10.05.2010 23:55

Björgvin ÁR 55

Björgvin ÁR 55Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1916 og voru eigendur Jóhannes Sigurjónsson, Þorkell Þorkellsson og Guðmundur Sigurjónsson á Stokkseyri.1942 var Báturinn seldur til Bolungarvíkur. Hét þá Björgvin ÍS 48. Báturinn slitnaði upp af festingum í illviðri og brotnaqði í spón.

31.03.2010 00:01

Togarinn Loch Morar strandar

Lock Morar- http://www.llangibby.eclipse.co.uk/Technical%20details/joseph_barret_lo252.htmAð morgni 31.mars 1937 veittu menn á Eyrarbakka því eftirtekt að skip var strandað í brimgarðinum milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, um það bil 500 faðma frá skerjagarðinum út undan Gamla Hrauni á stað sem kallast Framnesrif eða Hraunstangar. Var þegar brugðist við til að grenslast frekar eftir þessu, en sökum brims var ekki hægt að komast nærri skipinu. Bjuggust menn helst við að skipið hafi farið þar upp um nóttina, en þá hafði gengið á með suðaustan stormi. Aftaka brim gekk yfir skipið og þótti mönnum til þess lítil von að nokkur gæti verið þar á lífi lengur og vonlaust um björgun þó strandið hefði uppgötvast fyrr. Þegar líða tók á daginn fóru ýmsir hlutir að reka úr skipinu, þar á meðal björgunarhringur. Kom þá í ljós að skipið var enski togarinn Loch Morar Lo 252 frá Aberdeen. Magnús Oddson var þá hreppstjóri á Eyrarbakka og hafði hann tal af manni frá Stokkseyri sem fyrr um nóttina hafði séð ljósagang á þessum stað, líklega flugelda, en vitneskja um þetta hafði ekki borist yfirvöldum á staðnum fyrr en um seinan.

    Af 12 manna áhöfn komst enginn lífs af og voru lík þeirra að reka á land öðru hvoru þá um sumarið.Tvívegis tókst björgunarmönnum frá Eyrarbakka að komast um borð í skipið á stórstraumsfjöru, en þá stóð aðeins stjórnborðshliðin upp úr sjó. Björgunarmenn náðu að saga gat á hvalbakinn og komust þaðan í þau rými sem stóðu upp úr sjó en fundu engin lík. Skipið liðaðist smám saman í sundur og hvarf í hafið.

Loch Morar lagði úr höfn í Aberdeen 22. mars áleiðis til Íslandsmiða undir stjórn Walter Edward Barber sem var reyndur og dugandi skipstjóri. En hvað varð til þess að skipið strandaði í brimgarðinum á Eyrarbakka verður víst aldrei vitað.

Minningarathöfn vegna skipverjanna sem fórust með Loch Morar var haldinn í Aberdeen þann 11 apríl fyrir tilstuðlan Royal National Mission to Deep-Sea Fishermen. Lík skipverjanna voru jarðsett á Eyrarbakka.


Nöfn sem skipið hafði áður borið voru: Giovanni Guinti 1918, Idaho 1919 Cymrea 1920, Sir Mark Sykes 1932, og síðast Loch Morar (A361) 1935. Skipið var byggt hjá Ailsa Ship Building Co Ltd 1918 og var 277 tonn að stærð.


Himild: Alþýðublaðið 74.tbl.1937. http://www.llangibby.eclipse.co.uk/Technical%20details/joseph_barret_lo252.htm

www.eyrarbakki.is www.llangibby.eclipse.co.uk/index_to_all_milford_trawlers.htm brim.blog.is/blog/brim/entry/696836/ brim.blog.is/blog/brim/entry/696836/

24.03.2010 22:51

Gufubáturinn s/s Njáll

Eftir að Eyrarbakkaverslun missti strandferðabátin Odd upp í Grindavíkurfjöru 1904 var þegar hafist handa við að útvega nýjan gufubát og árið eftir var keyptur bátur frá Leith í Skotlandi og fékk hann nafnið Njáll. Hann var 21.47 lestir nettó, eða nokkru stærri en Oddur og með gufuvél. Njáll kom í fyrsta sinn til Eyrarbakka 30. apríl 1905 og hóf fljótlega að vinna sömu störf og Oddur, þ.e.a. sinna strandsiglingum og aðstoða kaupskipin á Eyrarbakka. Hann sleit frá legufærum sínum ( Miðlegan svokölluð) á Eyrarbakkahöfn 13. sept. 1906 í suðaustan stórviðri og hafróti. Svo flóðhátt var, að hann barst yfir öll sker án þess að koma við, og kom heill upp í sand með fulla lestina af rúgmjöli, sem hann hafði komið með frá Reykjavík daginn áður og var því öllu skipað á land. Aðrir bátar skemdust mikið á Eyrarbakka í þessu veðri. 13 opin skip kvað hafa brotnað þar auk skútu sem var með vörur til Ólafs Árnasonar kaupmanns á Stokkseyri. Næsta vor náðist Njáll á flot, en ekki varð meira úr strandferðum hans, en í staðinn var keyptur mótorbátur, sem hét "Hjálpari".

Skipstjórinn á Njáli var danskur, og þótti að mörgu leyti góður drengur og prúðmenni, en vínhneigður um of. Stýrimaðurinn var Sigurjón P. Jónsson, duglegur og góður drengur fæddur og uppalinn á Eyrarbakka, en hafði verið í siglingum erlendis, og lokið þar stýrimannsprófi. (Sigurjón var síðar vel þekktur, sem skipstjóri á flóabátnum "Ingólfi"). Á skipinu var, auk skipstjóra og stýrimanns, 10 manna áhöfn: 4 Danir og 6 Eyrbekkingar, meðal þeirra Jón Sigurðsson síðar hafnsögumaður, og Jóhann Guðmundsson frá Gamlahrauni og Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli.
 
Heimild: Ingólfur 4.tbl 1906  Ísafold , 59. tbl. 1906  Sjómannablaðið Vikingur (Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.) Á sjó og landi- Tímagreinar eftir Sigurður Þorsteinsson.

21.03.2010 00:42

Bakka-Oddur

Einarshöfn Eyrarbakka
Strandferðabátar Lefolii verslunar voru í þessari röð: "Skjöldur" gufubátur í notkun um og eftir 1884. "Den Lille"  frá 1889 og var skipstjóri á honum Bjarni Elíasson. "Oddur" gufubátur um og eftir 1895 og var dani
Theilland Hansen að nafni skipstjóri á Oddi. "Njáll" einig gufubátur í notkun frá 1905 og til ársins 1906 er hann strandaði á Eyrarbakka. "Hjálparinn" vélbátur tekinn í notkun 1907 og var skipstjóri lengst af Jón Sigurðsson í Túni. Þessir bátar sigldu á flestar nálægar hafnir, svo sem  til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Þórshafnar, Sandgerði og Reykjavíkur venjulega einu sinni í mánuði yfir sumarið. Þess utan var siglt til Stokkseyrar, Landeyjar (Hallgeirseyjar), Vestmannaeyja, Þorlákshafnar, Selvogs og Grindavíkur þegar svo bar undir. Stundum var siglt undir Eyjafjallasand (Holltsvör) Víkur í Mýrdal, Loftstaða, Gaðs, Hafnarleirs og jafnvel til Borgarness. Voru ferðir þessar eftir samningi við Sýslunefndir og jafnan auglýstar í dagblöðum. Ferðir þessar hafa örugglega skipt miklu máli fyrir veglausar byggðir Suðurlands á sínum tíma.

Gufubátnum Oddi á

ég mun héðan flakka,

þegar kæri knörrinn sá

kemur frá Eyrarbakka.

(Jón Þórðarson Fljótshlíðarskáld)

Oddur LBHCOddur var 35-40 tonn að stærð. Hann var talinn ágætis sjóskip og vel gerður að lagi. Skipstjóri á Oddi var danskur maður, Theilland Hansen, sömuleiðis vélstjórinn. Hásetar voru fjórir, allt íslendingar. Helsta verkefni bátsins var að aðstoða seglskipin sem athöfnuðu sig á Einarshöfn. Ferðalög með Oddi þóttu spennandi fyrir almenning sem gáfu sig oft til vinnu við uppskipun á salti út á verstöðvarnar. Eitt af mörgum verkefnum bátsins var að sækja skreið og herta þorskhausa til umboðsmanns verslunarinnar í Grindavík. Lefolii átti hús í Grindavík sem kallað var "Anleggshús" sem var vörugeymsla þar, en auk þess flutti báturinn salt og matvæli til vertíðarmanna. Í þessa ferð fór Oddur venjulega um lokin (Vertíðarlok 11. maí) og svo aftur á haustin. Með Oddi fóru einnig vertíðarmenn austan úr Árnessýslu. Í síðustu strandferð sinni haustið (9. nóvember) 1904 var Oddur á leið til Hafnafjarðar með viðkomu í Grindavík, en um þá ferð ritaði sr. Gísli Brynjólfsson frá Járngerðarstöðum í sjómannablaðið Víking:
 

"Veður var gott þegar báturinn kom, en þegar hann var nýlagstur gerði suðaustan rok og svo vondan sjó að báðar akkeriskeðjurnar slitnuðu. Var þá ekki að sökum að spyrja. Odd rak á land. En svo happalega vildi til, að hann komst yfir alla fjöru og lenti uppí kampi lítið brotinn og allir mennirnir komust í land óhraktir. En svo fór, að sjórinn braut hann að nokkru. Var hann svo rifinn og fluttur um borð í þýzka skonnortu, sem "Minna" hét, sem var að taka annað brotajárn til útflutnings. En nú tókst svo illa til, að nokkru eftir að Oddur var allur kominn þar í lest sem brotajárn, að aftur gerði versta veður. Þá sleit "Minnu upp og rak hana á land, einmitt í lendingunni í Járngerðarstaðahverfi. Varð þá Odddur strand í annað sinn. Og enn var hann fluttur út ásamt því skipi, sem áður hafði hann í lest sinni. Svo að ekki verður annað sagt en að örlög Bakka-Odds hafi orðið allsöguleg áður en lauk".

Heimild: Sjómannablaðið Vikingur 6.tbl.1972 sr.Gísli Brynjólfsson. -10.tbl 1972 Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri. Þjóðólfur 22.tbl. 1895

18.03.2010 22:05

M/b Hjálparinn - framhald

HjálparinnÞað vildi svo til á fyrstu árum vélbátanna að fiskurinn færðist mjög vestur á bóginn frá veiðistöðvum austanfjalls, svo ekki var fisk að fá fyrr en á miðum Þorlákshafnarmanna. Var það illmögulegt fyrir Eyrbekkinga og Stokkseyringa að eltast við hann vestur í Háaleitisforir og vestur undir Selvog og alveg útilokað fyrir áraskipin. Aðeins þeir vélbátar sem komnir voru til sögunnar höfðu aðstöðu til þess að elta fiskigönguna. Þegar fram á vertíðina kom, var gripið til þess ráðs, að láta mótorbátana draga árabátana vestur í Hafnarsjó. Þetta gafst vel, þegar tíð var góð, en þó var ýmislegt sem erfiðleikum olli. Það kom því til kasta Hjálparans að draga áraskipin vestur í sjó. Hann var venjulega með tvö og stundum þrjú skip í togi og lónaði hjá þeim meðan þau drógu net sín og athöfnuðu sig á miðunum. Þetta verkefni hafði hann í nokkrar vertíðir, en fór svo þverrandi eftir því sem vélabátum fjölgaði, og svo kom að því að engin áraskip voru eftir til að draga, því vélvæðingin varð algjör á fáum árum. Nokkur seglbúnaður var hafður á öllum vélbátum fyrsta kastið. Hjálparinn hafði upphaflega stórsegl og aftursegl, stagfokku og klýfir. Menn þurftu oft að grípa til þeirra, þótt það færi minnkandi er stundir liðu og vélar urðu fullkomnari. Hjálparinn gengdi líka mikilvægu hlutverki í samgöngum milli lands og Eyja, en hann gat tekið allt að 14 farþega í ferð.

Hjálparinn eftir breytinguVerslun Lefoliis, var seld 1919 kaupfélaginu Heklu, sem um nokkur ár hafði líka starfað á Eyrarbakka. Hún fékk sér stærri bát, sem henta þótti betur til þessarra flutninga. Hjálparinn var nokkru áður seldur til Vestmannaeyja þar sem honum var breytt í fiskibát. Á hann var sett stýrishús og aftursiglan tekin niður. Þá fékk hann stærri vél. Eigendur þar voru Lárus Halldórsson á Velli, að hálfu, Guðmundur Gíslason Vilborgarstöðum, að einum fjórða, og Bryngeir Torfason Búastöðum, frá Söndu á Stokkseyri, að fjórða parti. Bryngeir var formaður á bátnum fimm fyrstu árin, sem hann gekk frá Eyjum og fiskaði vel. Ýmsir fleiri voru formenn á honum. Sá sem lengst var með hann var Þórður Þórðarson á Sléttabóli, alls átta vertíðir samfleytt. Frá Eyjum var báturinn seldur til Djúpavogs. Ekki er vitað hver varð eigandi hans þar, né heldur hve lengi hann var þar, en nokkru síðar barst hann til Færeyja, en þar fennir yfir sporin.
Hjálparinn ()

Heimild: Skeggi 51 tbl. 1918 Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.

Flettingar í dag: 16
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 1124
Gestir í gær: 329
Samtals flettingar: 2650490
Samtals gestir: 301966
Tölur uppfærðar: 23.9.2020 00:25:23


Sjólag og horfur

 

                                                        Dregur smám sama úr brimi næstu daga
 
 
 Sjáðu Brimið - Eyrarbakki Iceland


F U L L T T U N G L

eftir

8 daga

Veðrið á Bakkanum í dag

Tilkynningar

Brimið á Bakkanum er líka á Facebook 
@gamlirdagar
       

Brimið á Bakkanum

Farsími:

8621944

Staðsetning:

Eyrarbakki

Vefmyndavélar

http://www.vegagerdin.is/
 

Ráðhús-Árborgar við Austurveg

Sjávarföll Eyrarbakka - Árborg

                           Smellid á myndina fyrir frekari upplýsingar

Eldra efni

Tenglar


Icelandic surf

Veðurgögn Eyrarbakki

5 daga yfirlit