Brim á Bakkanum
brimið þvær hin skreypu sker


F U L L T T U N G L

eftir

19 daga

ALMANAKIÐ

Á G Ú S T M Á N I N N


          
 

 
 Fullt tungl  3
ágúst
2020  
 Síðara kvartil 11 ágúst 2020
 Nýtt tungl
 Fyrsta kvartil
18
25
ágúst
ágúst
2020
2020  


Flokkur: Dagbókin

21.07.2009 11:22

Höfn horfið

Höfn
Húsið Höfn í Einarshafnarhverfi var rifið nú í vikunni og er það fimmta jarðskjálftahúsið í þorpinu sem hlýtur þau örlög. Húsið var steinhús frá 5. áratug 20.aldar.

01.06.2009 23:55

Hvar var Skúmstaðakirkjugarður?

Staðið á Gónhól, Garðbær fremst t.v.Maður að nafni "Einar Herjólfsson var stunginn í hel með knífi á Uppstigningardag í kirkjugarðinum á Skúmstöðum árið 1412" segir í Nýannál. Var sá maður talinn vera norskur kaupmaður af sagnaritara, en fræðimenn sumir telja að hann hafi verið íslenskur og stundað kaupskap á Eyrarbakka þá er hann var veginn. Sá sami Einar Herjólfsson var líkast til frægari fyrir að hafa borið svartadauða* til landsins með skipi sínu haustið 1402 er hann sigldi því frá Englandi til Hvalfjarðar, heldur en fyrir þá sögn að hafa fallið fyrir morðingja hendi á Eyrarbakka. En 200 árum seinna getur sr. Jón Egilsson biskupsritari í Hrepphólum um guðshús á Skúmstöðum í tíð Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups (1521-1541) " Þar var kapella nokkuð stór, hvar inni var bæði sungið og messað og þar sér enn merki til hennar, lítið hólkorn til austurs undan húsunum þar í sandinum. Svo sem af veggnum eða gaflhlaðinni"

 

Hvar mun þessi kirkjugarður og guðshús hafa verið? Sigurður Andersen heitinn taldi að hér væri átt við Gónhól og að þar muni Skúmur sá er byggði Skúmstaði hafa verið grafinn á sínum tíma. Hann bendir á að bannhelgi hafi hvílt á hólnum frá ómuna tíð. En einnig að Garðbæjarnafnið kunni að vera tilkomið vegna eldri sambærilegra nafna, en elstu heimildir nefna byggðina þar "í Garðinum" og "hjá Garðinum" Þá var bæjarnafnið Gvendarkot á Garði til í upphafi 19.aldar. Taldi Sigurður það vísa til kirkjugarðs á þessum slóðum auk örnefnisins Garðskletta sunnan við Gónhól. Sigurður taldi hinsvegar að Gónhólsnafnið hafi komið til sögunnar í lok 18. aldar, en þá eins og síðar bjuggu hafnsögumenn verslunarinnar í Garðbæ og því sjálfsagt tíðgengið á hólinn að líta yfir (góna á) hafið og gæta að skipakomum.

 

Það má færa rök fyrir því að ekki sé um annan hól að ræða því Skúmstaðarland er eða var rennislétt grund fyrir utan Gónhól og hæðina þar sem Skúmstaðabæirnir stóðu. Árið 1906 eða þar um bil grófu þeir Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og P.Níelsen verslunarstjóri í hólnum og komu niður á eldstæði, en hættu greftrinum við svo búið. Gónhóll verður því hulinn á bak við tjald tímans enn um sinn.

 

Nokkrum spurningu er þó ósvarað. Hvað var Einar Herjólfsson að gera í Skúmstaðarkirkjugarði og hversvegna var hann derpinn þar og hver var valdur að dauða hans? Ef til vill liggur svarið í augum uppi, eða öllu heldur við getum giskað á að þennan Uppstigningardag árið 1412 var verið að messa í Skúmstaðarkapellu og Einar hafi verið með skip sitt á Eyrarbakka  á sama tíma og því gengið til messunar ásamt öðrum mektarmönnum. Einhver sem átti harma að hefna e.t.v. vegna pestarinnar miklu hafi þekkt þar manninn sem bar pestina til landsins. Þegar Einar gekk út að messu lokinni hafi hann mætt banamanni sínum.

 

 

*Talið er að um 40.000 manns hafi látist úr pestinni hér á landi sem var skæð bráðsmitandi lungnaflensa og margt um lík svartadauða sem geisaði í evrópu hálfri öld áður.

Heimild: ritsafn Sig. Andersen

03.05.2009 20:30

Humarbærinn- humarævintírið mikla

Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf.Hraðfrystihús var byggt hér árið 1943. það tók við afla bátanna til verkunar og  kom sér upp aðstöðu til söltunar, skreiðaverkunar og lifrarbræðslu. Árið 1954 voru síðan hafnar tilraunir til humarveiða frá Eyrarbakka og voru upphafsmenn þess aðalega Sigurður Guðjónsson skipstjóri frá Litlu Háeyri sem tók á leigu Ófeig II  og Vigfús Jónsson oddviti og framkvæmdastjóri HE. Vigfús lét m.a. kanna markaði erlendis fyrir humarinn og var bandaríkjamarkaður heppilegastur í þessu tilliti.
 

Hugmyndir um humarveiðar vöknuðu hérlendis árið 1939 og lét þá fiskimálanefnd ásamt Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda (SÍF) kanna möguleg humarmið hér við land, en íslenskir togarar höfðu þá oft fengið svokallaðann leturhumar í trollin einkum suður af Reykjanesi og við Vestmannaeyjar, en í skólabókum þess tíma var leturhumar ekki talin til nytjadýra. Fram til ársins 1954 var hraðfrystihúsið í Höfnum lengst af  eitt um humarvinnslu hérlendis.


HumarUm sumarið 1954 hófu tveir bátar frá Eyrarbakka humarveiðar á Selvogsbanka og austur af Stokkseyri með ágætum árangri og fljótlega bættist þriðji báturinn við humarveiðiflotann. Í framhaldi þessa góða árangurs hófu Stokkseyringar og Þorlákshafnarbúar veiðar á humri. Þetta varð til þess að nýr atvinnuvegur þróaðist á Eyrarbakka og á Stokkseyri næstu ár. 50 til 60 skólabörn víða að fengu vinnu við humarvinnsluna á Eyrarbakka þá þrjá mánuði sem humarvertíðin stóð og annað eins á Stokkseyri. Humarmjöl var síðan framleitt úr úrganginum og þótti verðmætt í fóður. Þó humarveiðar og vinnsla séu nú aflögð á Bakkanum má enn fá ljúfenga humarmáltíð á Rauða húsinu á Eyrarbakka og á veitingastaðnum Við fjöruborðið á Stokkseyri.

03.03.2009 23:35

Tvö hús jöfnuð við jörðu í dag

Smáravellir
Tvö sjálftahús voru jöfnuð við jörðu í dag með stórvirkum vinnuvélum. Það eru húsin Smáravellir sem hér sést á efri myndinni og Mundakot II, neðri mynd. Þá eru fjögur hús horfinn af Bakkanum og þykir Eyrbekkingum það sorgleg sjón að sjá á eftir þessum reisulegum húsum.
Mundakot II
Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni, þá voru öll þau hús sem þegar er búið að brjóta niður byggð úr holsteini, en það er hleðslusteinn úr vikurblöndu. Sá byggingarmáti var mjög til siðs á sjötta áratug síðustu aldar. Allnokkur hús voru þannig byggð á Eyrarbakka sem og víðar.

Enn eru einhver hús sem bíða sömu örlaga og sjónarsviptir verður af. En sem betur fer eru Eyrbekkingar ekki af baki dottnir og byggja ný falleg og reisuleg hús sem falla vel við gamla þorpið.

26.02.2009 18:00

Mundakot mulið undir tönn

Mið Mundakot

Mundakot undir tönn
Mið-Mundakot er þriðja skjálftahúsið sem hefur orðið vinnuvélum að bráð. Húsið er holsteinshús, en hús sem þannig eru byggð þola síður öfluga jarðskjálfta en timbur og steinhús.

08.02.2009 14:54

Vesturbúð opnar.

Bakkabúð opnar á ný.Bakkabúðin hefur nú opnað undir nafninu Vesturbúð en undir því gælunafni gekk ein stæðsta verslun landsins á Eyrarbakka á sínum tíma. Eingin verslun hefur verið á þessum forna verslunarstað síðan Merkisteinn hætti rekstri í október á síðasta ári og er því þetta framtak kærkomið fyrir íbúa þorpsins. Það eru þeir Agnar og Finnur Kristjáns sem hafa reksturinn með höndum.

08.12.2008 22:37

Sögulegt atvik

Líkan af herskipiÞann 5.ágúst árið 1809 lá enska herskipið Talbot við akkeri á ytrihöfninni á Eyrarbakka. Skipið hafði leitað þar vars undan óveðri undir stjórn kapteins Alexander Jones. Á Eyrarbakka fær hann þær fréttir að í Reykjavik liggi þrjú ensk skip (þ.á.m.ensku víkingakaupskipin Margrét og Anna, þau höfðu uppi hinn nýja íslenska fána, bláfeld með þrem hvítum þorskflökum)  og að enskur sápukaupmaður (Samuel Phelps)  væri orðinn höfuðsmaður eyjarinnar. Alexander Jones lét þegar létta akkerum og stefndi skipi sínu til Hafnafjarðar til þess að taka málin í sínar hendur.

 

Þetta sumar hafði orðið "bylting" á Íslandi á meðan Napoleonsstyrjöldin geysaði í Evrópu og landið var í raun stjórnlaust frá dönsku yfirvaldi. Danskur túlkur Samúels Phelps, Jörgensen að nafni (Jörundur hundadagakonungur) fór þá með völd landsins í umboði sápukaupmannsins. Hann lýsti því yfir að Ísland væri laust og liðugt frá dönsku ríkisvaldi og hefði frið um alla veröld. Kanski gat Jörgensen kent Eyrbekkingum óbeint um að valdatíð hans og "sjálfstæði Íslands" lauk svo skindilega.

 

Jörgensen þessi hafði sem ungur maður verið á kolaflutningaskipi, en síðar munstraður sem miðskipsmaður á einu skipa breska flotans þar til hann gekk til liðs við Samúel kaupmann sem sérlegur túlkur í viðskiptum hans við íslendinga.

Heimild: Bréf frá Alexander Jones-Íslensk sagnablöð 1816-1820

11.10.2008 23:19

Þjóðin eignast Ísland aftur

Þjóðfáni Íslands hin fyrsti. Bankafánar blakta ekki lengur.Nú þegar kardínálar bankanna og aðrir útrásarvíkingar eru flúnir land eftir að hafa ekki bara selt ömmu sína, heldur og mömmu sína, börn og barnabörn í áralanga skuldafjötra, þá hefur þjóðin í þessu alsherjar hruni þó eignast landið sitt aftur og við getum vissulega óskað okkur til hamingju með það. En þjóðin þarf líka að eignast fiskimiðin á ný til að tryggja framfærslu sína þrátt fyrir ógnvænlegar skuldir þjóðarbúsins. Ekki er lengur boðlegt að fiskurinn í sjónum sé í höndum fárra útvalinna einkaaðila því nú er of mikið í húfi.

 

Við getum nú byrjað upp á nýtt rétt eins og við gerðum þann 17. júní árið 1944 þegar við tókum okkar fyrstu skref sem fullvalda þjóð. Þá var haldin mikil hátíð á Eyrarbakka. Þennan dag var Eyrabakki ekki lengur undir dönskum fána því hinn Íslenski bláhvíti fáni hafði verið dreginn að húni í fyrsta sinn. Ísland hafði nú hlotið sjálfstæði á ný. Hvarvetna blöktu fánar í þorpinu, hús og garðar víða skreyttir blómum. Samkomusalurinn í Fjölni allur vafin blómafléttum og lyngsveigum.

 

Dagskráin hófst með skrúðgöngu kl.1.30 eh. Gengið var frá barnaskólanum til kirkju. fremst gengu fánaberar, stúlka á íslenskum búningi og piltur í búningi með íslensku fánalitunum. Næst gekk yngsta kynslóðin allt niður í 3 ára börn. Kynslóðin sem erfa skildi landið og verja sjálfstæði hennar alla sína æfidaga. Öll héldu þau á fánum, og voru hvítklædd með bláum skrautböndum. Þannig voru nálæga 50 börn búinn litum okkar frjálsu þjóðar og litum okkar Eyrarbekkinga. Síðan komu eldri börn og unglingar og svo fullorðnir. Alls tóku 400 manns þátt í skrúðgöngunni eða 2/3 íbúa þorpsins.

 

Kirkjan okkar var skreytt á hinn virðulegasta hátt með íslenskum blómum en þar messaði sr. Árelíus Níelsson fyrir fullu húsi sem lauk með því að kirkjukórinn söng íslenska þjóðsönginn. Úr kirkju var gengið á samkomusvæði Bakkamanna, en þar hafði verið gert hið fegursta skrauthlið með yfirskriftinni "Ísland lýðveldi 17.júní 1944" Þar hófst skemtun með ávarpi Ólafs Helgasonar oddvita. Ræður héldu Kjartan Ólafsson form. UMFE og Sigurður Kristjánsson kaupmaður og kirkjukórinn söng ættjarðarljóð undir stjórn Kristins Jónassonar organista.

 

Síðdegis var svo dagskránni framhaldið í Samkomuhúsinu Fjölni, en þar flutti fjallkonan ávarp í ljóðum sem ort voru í tilefni dagsins. Síðan komu fram sögupersónur í búningum síns tíma. Fyrstur var Þorgeir ljósvetningagoði, þá Snorri Sturluson, svo Jón biskup Vidalín o.s.fr. Lásu þeir upp viðeigandi kafla úr egin ritum. Þætti þessum lauk með upplestri sr. Árelíusar úr Fjallræðunni og nýrri bók um og eftir Jón Sigurðsson forseta hins nýstofnaða lýðveldis. Lúðvík Nordal læknir fór með hátíðarljóð sem hann hafði sjálfur samið í tilefni dagsins. Að endingu söng kirkjukórinn "Ó guðs vors lands"

 

Margt annað var til skemmtunar gert, t.d. skrautsýning sem nefndist "Jónsmessunóttin" en það var ung stúlka íklædd búningi áþekk brúðarslæðum, skreyttum lifandi blómum sem fór með þetta atriði. Hún studdist við blómaskreyttan sprota, en á meðan hún sveif um sviðið í ljósaskrúði, var flutt hið draumfagra kvæði Jóhannesar úr Kötlum: Jónsmessunótt, en það er einmitt sú nótt sem Eyrbekkingar hafa haldið hvað hátíðlegastan, bæði fyrr og síðar.

 

Nú höfðu Eyrbekkingar sem og aðrir landsmenn eignast nýjan hátíðisdag, þjóðhátíðardaginn 17.júní. Á þessi merku tímamót var rækilega minnt í búðarglugga Sigurðar Kristjánssonar kaupmanns, en þar hafði hann sett upp myndasýningu þar sem saga stjórnarfars á Íslandi var rakin með hinn bláhvíta fána í bakgrunni.

 

Þó okkar kynslóð hafi klúðrað málunum þá megi næsta kynslóð vonandi vera frelsinu jafn fegin og glöð og sú sem gekk undir bláhvíta fánanum niður Búðarstiginn á 17.júní 1944.

 

En fyrst þarf almenningur að taka til og skipta um mennina í brúnni sem áttu að vaka yfir velferð þjóðarinnar, en þess í stað flut þetta lið sofandi að feigðar ósi. Þeir vöknuðu ekki upp við vondan draum, nei þeir vöknuðu upp við ömurlegan veruleika. Veruleika sem ekki verður afmáður úr Íslandsögunni.

 

Nú er það í vorum höndum að gera það sem gera þarf. Að byrja upp á nýtt af miklum þrótti í betra landi vonandi og reynslunni ríkari. Svo lengi sem Íslenski fáninn fær að blakta á björtum himni verður hinn almenni borgari að halda vöku sinni.emoticon
 

  

29.09.2008 11:10

Haust

Haust á BakkanumÞað er komið haust, hitastigið lækkar með hverjum deginum. Trén fella laufin hvert af öðru í takt við gengi krónunar íslensku og maríuerlunar á Bakkanum eru nú flognar suður eins og aðrir farfuglar sem dvöldu hér í sumar. Kaupmennirnir í Gónhól taka saman pjökkur sínar eins og kaupmennirnir í Rauðubúðum fyrir nokkrum öldum síðan. Þorpsbúar búa sig undir veturinn og kreppuna miklu. Taka sumarhýruna úr bankanum áður en hún brennur upp í óðaverðbólgunni og hamstra slátur, sulta ber og rabbabara, koma kálinu og kartöflunum og öllu grænmetinu sem þeir keyptu í Gónhól vel fyrir í búrinu. Söl og fjallgrösum troðið í tunnur og móinum staflað í stæður. Það vantar bara fiskinn sem eitt sinn var nóg til af og var alltaf til bjargráða í gengisfellingum og kreppum liðins tíma. Nú fer enginn á sjó því það má engin gera nema hafa verið gefið, keypt eða leigt kvóta og útgerð héðan er nú bara eitt af því sem menn lesa um í gömlum sögum og æfintýrum. Nú þarf bara að þreyja Þorran og Góuna og alla hina mánuðina líka. Annars var þjóðin að eignast fjárfestingabanka í dag og borgaði fyrir með heilum helling af evrum, nema hvað?emoticon

26.09.2008 11:03

Rigning,rigning,rigning.

Hundatíð.Ekkert lát er á rigningartíðinni og fólk er orðið hundleitt á veðurlaginu þessar vikurnar og víst að tíðarfarið leggst illa í sálina á fólki, svona til viðbótar við óhuggulegt efnahagsástandið. Dumbungur í lofti alla daga svo vart sést sólarglæta svo vikum skipti. þó má búast við smá sólarglætu snemma á laugardagsmorgun segja spárnar en aðeins litla stund því skjótt mun aftur draga fyrir og sama veðurlagið tekur við langt fram í næstu viku. Það sem verra er að með hverjum deginum sígur hitamælirinn nær og nær bláu tölunum þannig að um miðja vikuna gæti farið að grána í fjöllin. Já vetur konungur er að læðast að okkur með sinn hvíta her.emoticon

26.05.2008 12:41

Eyrbekkingar eru nú 604

18. maí 2008 eru 7.753 skráðir íbúar í Árborg.
Á Selfossi eru skráðir 6.425
Í Sandvík 168
Á Eyrarbakka og dreifbýli 604
Á Stokkseyri og dreifbýli 542
Óstaðsettir 14

Íbúaþróun hefur sveiflast nokkuð í gegnum tíðina og eru Eyrbekkingar nú einum fleyri en árið 1940.
Íbúafjöldi á Eyrarbakka 1885-2008:

 • 483 íbúar 1.des 1885
 • 483 íbúar 1.des 1886
 • 484 íbúar 1.des 1887
 • 534 íbúar 1.des 1888
 • 654 íbúar 1.des 1892

 • 716 íbúar 1.des 1902
 • 703 íbúar 1.des 1905
 • 730 íbúar 1.des 1910
 • 750 íbúar 1.des 1911
 • 837 íbúar 1.des 1920
 • 770 íbúar 1.des 1924
 • 737 íbúar 1.des 1925
 • 603 íbúar 1.des 1940
 • 577 íbúar í des. 2003
 • 580 íbúar í nóv. 2005
 • 595 íbúar í okt. 2007
 • 608 íbúar í feb. 2008

08.05.2008 12:46

Galleri Gónhóll opnar í dag.

Árni Valdimarsson við opnun Galleri Gónhóls.Nýtt gallerí, Gallerí Gónhóll opnar í dag, 8. maí kl. 18. Í tilefni af Vor í Árborg verður haldin sýning á verkum eftir Eddu Björk Magnúsdóttur, Jón Inga Sigurmundsson, Dóru Kristínu Halldórsdóttur og Þórdísi Þórðardóttur. Einnig verður handverksmarkaður þar sem fleiri listamenn sýna og selja verk sín.
Gallerí Gónhóll er í gamla frystihúsinu á Eyrarbakka. Það eru Árni Valdimarsson og fjölskylda sem hafa blásið nýju lífi í gamla frystihúsið.

Kolaportsstemning verður í  einum hluta hússins þar sem fólk getur leigt bása og selt sínar vörur. Einnig verður þar listasmiðja ungu kynslóðarinnar.

Sjá nánar  fétt í Glugganum.

02.05.2008 11:16

Vinabæir Eyrarbakka.

   
Um áramótin 1986-87 hóf Eyrarbakki vinabæjarsamstarf við Kalundborg í Danmörku, Kimito í Finnlandi, Lillesand í Noregi og Nynäshamn í Svíþjóð.
Eyrarbakki tók þátt í vinabæjaráðstefnum við þessi sveitarfélög annað hvert ár frá árinu 1987.

Við stofnun Sveitarfélagsins Árborgar árið 1998 ákvað hin nýja sveitarstjórn að fella niður öll samskipti við vinabæji Eyrarbakka.
Jafnframt ákvað hin nýja sveitarstjórn að viðhalda vinabæjasamskiptum sem Selfossbær stofnaði til á sínum tíma.
 
Barnaskólinn á Eyrarbakka hefur þó verið  í einhverjum samskiptum við grunnskóla í Kalundborg í Danmörku.

Bæjarstjórn Árborgar mætti sýna okkur þann sóma á 10 ára afmælisárinu að endurnýja vinabæjartengslin í einhverri mynd. Það gæti verið góð afmælisgjöf.

25.04.2008 10:22

Kvenfélagið 120 ára

Eugenia ThorgrímsenKvenfélagið á Eyrarbakka á 120 ára afmæli í dag en félagið var stofnað hinn 25. apríl 1888 af 16 konum, að tilstuðlan stúkunnar Eyrarrósarinnar og lagði hver til 1 krónu í stofnfé. Eugenia Thorgrímsen var ein stofnenda og fyrsti formaður Kvenfélagsins á Eyrarbakka.

Á undanförnum árum hefur félagið veitt ýmsa styrki til góðgerðamála.

Núverandi formaður félagsins er Eygerður Þórisdóttir.

15.04.2008 10:52

Eyrarbakkahreppur verður 111 ára í vor.


Árborg, sameinað sveitarfélag Eyrarbakka ,Stokkseyrar, Sandvíkur og Selfoss verður 10 ára í vor og af því tilefni verður skipulögð 10 daga afmælis- og menningarhátíð sem hefst 8. maí n.k.

Þess er skemst að minnast að sl. haust var haldið upp á 60 ára afmæli Selfoss og þar með gefin tónninn fyrir að halda upp á afmæli hvers staðar fyrir sig í sveitarfélaginu.

Afmælis og menningarhatíðinni lýkur 18.maí en einmitt þann dag á Eyrarbakkahreppur 111 ára afmæli og væri því vel við hæfi að halda sérstaklega upp á þann dag á Eyrarbakka og draga fánann að húni.

Flettingar í dag: 132
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 2670
Gestir í gær: 395
Samtals flettingar: 2618657
Samtals gestir: 293026
Tölur uppfærðar: 14.8.2020 00:37:00


Sjólag og horfur

 

The surf season is over
 
 
 Eyrarbakki IcelandVeðrið á Bakkanum í dag

Tilkynningar

Brimið á Bakkanum er líka á Facebook 
@gamlirdagar
       

Brimið á Bakkanum

Farsími:

8621944

Staðsetning:

Eyrarbakki

Vefmyndavélar

http://www.vegagerdin.is/
 

Ráðhús-Árborgar við Austurveg

Sjávarföll Eyrarbakka - Árborg

                           Smellid á myndina fyrir frekari upplýsingar

Eldra efni

Tenglar


Icelandic surf

Veðurgögn Eyrarbakki

5 daga yfirlit